Jólin eru ævaforn, raunar eldri en kristni, en þau voru sólstöðuhátíð til þess að fagna því að dag tók að lengja á ný, til marks um að myrkrinu slotaði og endurfæðing lífríkisins á næsta leiti.
Um uppruna orðsins jól er lítið vitað, en ein tilgátan er sú að jól séu einfaldlega hjól; hjól lífsins, sem snýst hring eftir hring, rétt eins og jörð um sólu, sem aftur knýr hringrás náttúrunnar. Það var því ekki endilega út í bláinn að syngja um Jólahjól.
Inntak jólanna breyttist með kristninni, en þó ekki að öllu leyti. Jólin eru fæðingarhátíð frelsarans Jesú Krists og ár hvert fögnum við fæðingu Krists, sem er nýfæddur hver jól. Jesúbarnið er eilíf táknmynd kraftaverks lífsins og gjafmildi Guðs, sem gaf okkur líf og allan heiminn til þess að njóta og dást að, gaf okkur son sinn Jesú Krist og boðskap hans. Það er jólagjöfin.
Undanfarna öld og vel það hefur kristnin samt verið á nokkru undanhaldi hér á landi sem víðast á Vesturlöndum.
Það má eflaust rekja til margra þátta. Þau svör sem Kristur veitti í harðri lífsbaráttu fyrri alda virtust eiga síður við í lífsgæðakapphlaupi síaukinnar velmegunar, en almáttugar ríkisheildir urðu snar þáttur daglegs lífs; velferðarríkið tók að lina lífsins þrautir og skriffinnar reglubundu mannlega breytni út í slíkan hörgul að fæstir þyrftu sjálfir að velja milli rétts og rangs.
Trúfrelsi og efnishyggja höfðu ugglaust sitt að segja, en kannski ekki síður öll sú afþreying sem mörgum kom í stað mannlegs samneytis og andlegrar uppörvunar. Ópíum fólksins hefði einhver sagt og þekkti sá falsspámaður mannvonskunnar þó ekki TikTok.
En það er nú vandinn við trúleysið, að menn hætta ekki endilega að trúa, en trúa kannski hverju sem er. Því trúarhneigðin er söm við sig, maðurinn leitar að vissu í ótryggum heimi.
Þess sá stað á liðinni öld þegar helstefnur alræðisins og taumlaus persónudýrkun risu hæst. Og við aldamótin örlaði líkt og þúsund árum fyrr á heimsslitaspádómum af ýmsu tagi, jafnvel þannig að efnt var til einhvers konar barnakrossferðar gegn yfirvofandi stiknun jarðar.
Það má einnig greina þann þráð í stjórnmálum undanfarinna ára, hér á landi sem víða annars staðar, að þar vilja menn ekki láta sér lög og reglur nægja sem lágmarksviðmið í mannlegu samfélagi. Þar hefur æ meir borið á siðferðislegum álitaefnum, siðareglum og fyrirmælum um nærgætni, jafnvel svo að áður algild mannréttindi eigi að víkja.
Í því samhengi kann að vera rétt að rifja upp sjónarmið um aðskilnað ríkis og kirkju, hins veraldlega og hins andlega. Það snýst ekki aðeins um það að hið geistlega kennivald eigi að halda sig fjarri veraldarvafstrinu, heldur mun frekar að hið veraldlega vald eigi að halda sig frá hinu andlega. Þar á meðal hverju menn eigi að trúa, hvað þeim eigi að finnast eða hvað þeir megi segja upphátt.
Því áhugi manna á hinum æðri rökum er engan veginn úr sögunni. Nú sem fyrr lifir maðurinn ekki á brauði einu saman, eins og Kristur benti á fyrir um tvö þúsund árum.
Það má glöggt sjá á aukinni kirkjusókn víða á Vesturlöndum, en hér á Íslandi bárust jafnframt gleðilegar fréttir af því að skólabörn hefðu heimsótt kirkjur í meiri mæli á árinu en fyrri ár. Það má einnig horfa til ásóknar í hið talaða orð í hlaðvörpum heimsins. Því þótt ekki sé nema brot af því kristilegt hefur þar dafnað alþýðleg umræða um heimspekileg málefni, frelsi og ábyrgð, hlutskipti og hlutverk mannsins, tilgang lífsins og eilífðina.
Svörin eru vitaskuld misjöfn, en það sem upp úr stendur er að fólk er augljóslega ekki síður leitandi á þessari öld tækni og efnishyggju en fyrri daginn eða fyrri aldirnar og árþúsundin.
Þá kemur fyrrnefnd jólagjöf í góðar þarfir. Kristur veitir þar grundvölluð svör sem staðist hafa tímans tönn og kirkjan – samfélag kristinna – varðveitir þau og boðar.
Svarið kristallast í trúnni. Það felst í trú, von og kærleika; trúnni á að allir geti öðlast hjálpræði og eilíft líf í hans nafni. Og þar eru allir jafnir fyrir Guði og í Guði, eins og postulinn Páll minnti á í Galatabréfinu (3:28-9):
„Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“
Á fyrstu öld eftir Krist var þetta róttæk boðun sammannlegs jöfnuðar fyrir almættinu, þar nyti enginn forréttinda, en hún varð kveikjan að því lýðræði, jafnrétti, lögum og rétti, umhyggju fyrir náunganum, vörn hinna vanmáttugu gegn grimmd og kúgun, sem okkur þykir sjálfsagt.
En ekkert af þessu er sjálfsagt og sífellt að því sótt. Allt sprettur það af trú og siðferðislegum grunni, sem við höfum tekið í arf frá Kristi, kristindómnum sem okkur ber að verja og útbreiða. Aðeins þannig getum við endurgoldið fyrstu og eilífu jólagjöfina, sem þá heldur áfram að gefa, hring eftir hring.
Morgunblaðið óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla!