Sigurður Rúnar Ragnarsson
Sigurður Rúnar Ragnarsson
Hans milda ljós nú lýsir …

Sigurður Rúnar Ragnarsson

Í Betlehem er komið var á kvöld,

kveiktu hirðar bál og reistu tjöld.

Nú tíminn stóð í stað eitt andartak,

við stjörnublik og jarðar himinþak.

Þá birtust englar óvænt, öll sú dýrð,

sem aldrei verður fullkomlega skýrð.

Né hverjir hana fengu fyrst að sjá,

er fjárhirðunum blessun veittist þá.

Þar englar fluttu fögnuð mér og þér,

sem fjárhirðarnir vegsömuðu hér.

Spáin rættist! Mærin fögnuð fann,

er fyllir alla gleði, sérhvern mann.

Því ljósið hans mig lætur finna það,

að ljómi breiðist yfir sérhvern stað.

Öll birtan fær að fylla sérhvert ból,

svo bljúg í hjörtum vorum koma jól.

Hann kallar þig og mig og alla menn,

sem mæta honum, þetta gerist enn.

Hið milda ljós hans leiðir gegnum allt,

og hjálpar þeim sem lánið reynist valt.

Í dimmu þegar dagur stuttur er,

mun Drottins birta einnig lýsa þér.

Í bæn og trú má virkja öll vor störf,

Hann vakir þar, já skilur hverja þörf.

Hans milda ljós nú lýsir inn til þín,

Hann lifir, hann er eilíft ljós sem skín.

Vor skírn er skrúði hans og eilíf ást,

í skuld sem aldrei mun að fullu nást;

Að greiða Guði þökk á þennan hátt,

þarf líka að taka Kristi í fullri sátt.

Sérhver jól þá englar færa oss frið,

með forsjón Guðs sem heldur öllu við.

Höfundur er prestur emeritus og þjónar tímabundið í Fossvogsprestakalli.

Höf.: Sigurður Rúnar Ragnarsson