Írland
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur átt afar viðburðaríkt ár en hann var ráðinn þjálfari karlaliðs Írlands í júlí, aðeins nokkrum dögum eftir að hann lét af störfum sem þjálfari karlaliðs Jamaíku.
Heimir, sem er 57 ára gamall, tók við þjálfun Jamaíku í september árið 2022 og náði mjög góðum árangri með liðið en Jamaíka komst í undanúrslit Gullbikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Mexíkó í undanúrslitum keppninnar í Nevada í Bandaríkjunum í sumar.
Þá fór liðið alla leið í undanúrslit Þjóðadeildar Norður-Ameríku í ár þar sem Jamaíka tapaði fyrir Bandaríkjunum í Arlington, 3:1, eftir framlengdan leik, en Jamaíka hafnaði í þriðja sæti keppninnar eftir sigur gegn Panama í leik um bronsverðlaunin, 1:0. Með árangrinum í Þjóðadeildinni tryggði liðið sér einnig keppnisrétt í Suður-Ameríkubikarnum þar sem Jamaíka féll úr leik eftir riðlakeppnina og hætti Heimir með liðið stuttu síðar.
„Mér líður vel í þessu starfi hjá Írlandi,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið.
Mjög faglegt umhverfi
„Ég vissi nokkurn veginn að hverju ég var að ganga. Það er mikil pressa í starfinu og því fylgir mikil fjölmiðlaumfjöllun. Þetta er faglegt umhverfi og umgjörðin í hæsta klassa, það er stærsta ástæðan fyrir því að ég tók að mér þetta starf. Allir sem starfa í kringum landsliðið eru fagmenn fram í fingurgóma. Leikgreinendur, styrktar- og sjúkraþjálfarar, markmanns-og aðstoðarþjálfarar og sama má segja um þá sem stjórna sambandinu. Þetta er allt fólk sem hefur unnið lengi á hæsta stigi fótboltans. Það var mjög gott fyrir mig að koma inn í þetta umhverfi, umhverfi þar sem ég get lært af öllum í kringum mig. Hjá Jamaíku var ég meira í kennsluhlutverki, þetta eru því ákveðin viðbrigði.
Ég vil koma samt inn á að það fylgir þessu mikil fjölmiðlaumfjöllun. Maður hefur reynt ýmislegt á þessum þjálfaraferli en þetta er í fyrsta sinn sem maður upplifir svona mikla athygli og umfjöllun. Það er ákveðin áskorun. Það er bara þannig, ef þú vilt þjálfa í þessu breska umhverfi, þá fylgir því mikil umfjöllun. Fjölmiðlarnir eru margir og ólíkir líka. Ég hélt að ég væri vel undirbúinn varðandi það en það hefur komið mér á óvart hversu mikil umfjöllunin er. Ég er samt mjög ánægður með þá ákvörðun að taka þetta skref,“ sagði Heimir.
Fékk reglulega fyrirspurnir
Eins og áður sagði var Heimir ekki lengi að finna sér annað starf eftir að hann lét af störfum á Jamaíku.
„Þetta var ekki langur aðdragandi. Á meðan ég var landsliðsþjálfari Jamaíku var reglulega haft samband og spurt hvort ég væri tilbúinn að taka að mér önnur lið. Það komu nokkrum sinnum upp mjög spennandi möguleikar. Svarið hjá mér var samt alltaf það sama. Ég var með fullan fókus á Jamaíku og ég ætlaði mér alltaf að klára þær lokakeppnir sem liðið var komið í, í Þjóðadeildinni og Suður-Ameríkubikarnum, áður en ég myndi hugsa mér til hreyfings. Jamaíka spilaði líka sína fyrstu tvo leiki í undankeppni HM í júní á þessu ári. Þeir leikir voru ekki síður mikilvægir og unnust báðir.
Ég man satt best að segja ekki nákvæmlega hvenær Írarnir höfðu samband fyrst en þeir voru mjög áhugasamir. Krafan hjá mér var samt alltaf sú að klára þessi stærstu verkefni með Jamaíku áður en ég færi að skoða og horfa í kringum mig.“
Tveir kostir í stöðunni
En af hverju lét Heimir af störfum hjá Jamaíku?
„Við vorum að reyna að breyta ansi mörgu, bæði í vinnuumhverfinu og innan sambandsins og við gagnrýndum hvernig sumir hlutir voru gerðir og unnir. Margir starfsmenn voru óánægðir í starfi. Ég var mjög skýr við starfsfólkið í kringum liðið um að ef það væri ekki ánægt í þessu vinnuumhverfi þá hafði það alltaf val um að hætta og finna sér annað umhverfi til þess að vinna í. Ég áttaði mig svo á því að það voru ákveðnir hlutir sem ég gat ekki breytt eða þá að það myndi taka mjög langan tíma að breyta þeim, mun lengri tíma en ég hafði gert mér grein fyrir. Þá stóð ég í raun frammi fyrir sama vali og starfsfólkið sem var ekki ánægt í vinnuumhverfinu.
Þá voru tveir kostir í stöðunni fyrir mig. Það var annaðhvort að halda áfram í starfi sem hafði sína kosti. Ég var með ágætan samning og ég taldi möguleika liðsins á því að komast á HM 2026 mjög góða. Ókosturinn við þennan kost var að mér leið illa í þessu vinnuumhverfi. Hinn kosturinn var sá að finna mér annað starf. Ég sá ekki fyrir mér að geta haldið áfram í tvö ár til viðbótar í þessu vinnuumhverfi og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að kalla þetta gott og tjáði forseta sambandsins það fyrir úrslitakeppnina í Suður-Ameríkubikarnum að ég myndi hætta eftir keppnina. Við héldum því okkar á milli þangað til keppninni lauk fyrir Jamaíku. Þetta var líka góður tímapunktur fyrir nýjan þjálfara að koma inn. Hann hefur góðan tíma til þess að undirbúa liðið fyrir HM og liðið er á góðum stað í dag. Steve McClaren tók við liðinu og vonandi á honum eftir að ganga vel. Við Guðmundur Hreiðarsson höfum reynt að aðstoða hann og þjálfarateymi hans í sínum fyrstu skrefum.“
Sér ekki eftir neinu
Er Heimir sáttur við tímann á Jamaíku?
„Já, ég horfi sáttur til baka. Þetta var mjög langt út fyrir þægindarammann minn. Ég tók strax þá ákvörðun að vera mikið úti á Jamaíku og kynnast menningunni þarna, fótboltanum og fólkinu auðvitað. Mér finnst nauðsynlegt að eyða sem mestum tíma í landinu sem þú ert að þjálfa í, sérstaklega þegar þú ert erlendur landsliðsþjálfari, enda ertu á margan hátt talsmaður landsins og því mikilvægt að búa í landinu sem þú ert talsmaður fyrir. Við Íris ferðuðumst einnig um landið og héldum fyrirlestra og þjálfaranámskeið í nær öllum sýslum Jamaíku. Menningin er ólík öllu því sem ég hef vanist áður. Við höfðum búið í þrjú ár í Katar áður en ég tók við Jamaíku. Í múslimaríkinu Katar eru nær engir glæpir og strangar reglur sem fólk fer eftir. Það var því ákveðið menningarsjokk að flytja til Jamaíku. Margt sem var bannað í Katar var leyfilegt, og stundum velkomið á Jamaíku. Það mætti því segja að við höfum kynnst tveimur mjög ólíkum menningarpólum. Önnur trúarbrögð, umferðarmenning, allt annar talsmáti, hugsunarháttur og hegðun. Þótt ég hafi ekki verið ánægður undir restina þá sé ég ekki eftir neinu og ég hefði alls ekki viljað sleppa þessu. Leikmennirnir voru í hæsta gæðaflokki og ég er þakklátur fyrir tækifærið til að fá að kynnast og vinna með þeim. Jamaíka er lið sem fer á HM og þeir munu standa sig vel þar, ég er sannfærður um það.“
Gott að byrja gegn Englandi
Fyrsta verkefni Heimis með írska landsliðið var í 2. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar þar sem Írar höfnuðu í þriðja sæti riðilsins og mæta Búlgaríu í umspili um sæti í B-deild í mars á næsta ári.
„Ég er spenntur fyrir þessum umspilsleikjum í mars á næsta ári gegn Búlgaríu. Þetta verða tveir góðir leikir fyrir okkur gegn liði sem er á svipuðu reiki og við. Þetta eru líka góðir undirbúningsleikir fyrir undankeppni HM. Í Þjóðadeildinni í ár lentum við í sterkum riðli með Finnum, Grikkjum og Englendingum. Englendingar eiga auðvitað að vera í A-deild Þjóðadeildarinnar en ekki B-deildinni. Við byrjuðum á því að tapa gegn þeim og Grikklandi á heimavelli og persónulega hefði ég auðvitað viljað byrja þetta betur.
Það var samt gaman að mæta Englandi í mínu fyrsta landsliðsverkefni. Þegar þú ert nýr þjálfari er oft gott að byrja á móti bestu liðunum. Bestu liðin opinbera veikleika þína og sýna manni hvar er mesta rýmið fyrir bætingar. Grikkir eru líka með mjög öflugt landslið og eru á góðu flugi þessa stundina. Þetta voru erfiðir leikir en mér finnst liðið hafa tekið mörg jákvæð skref síðan í september og í keppninni heilt yfir. Við fórum strax í það að reyna að laga skipulagið og varnarleikinn og ég hlakka til komandi verkefna á árinu 2025.“
Umfjöllunin hefur ekki áhrif
Eins og Heimir kom sjálfur inn á hefur verið mikil fjölmiðlaumfjöllun um íslenska þjálfarann á Írlandi síðan hann tók við liðinu og hafa fjölmiðlar meðal annars gengið svo langt að tala um að starf hans hafi verið í hættu strax eftir leikina gegn Englandi og Grikklandi í september.
„Ég hef vanið mig á að lesa ekki blöðin og ég er ekki á samfélagsmiðlum heldur. Þessi umfjöllun hefur því ekki áhrif á mig þannig lagað. Ég er kominn með það góða reynslu á þessu sviði, það skiptir ekki máli hvort það gengur vel eða illa þegar kemur að umræðu í kringum liðið. Það sem er sagt á samfélagsmiðlum kemur í flestum tilfellum frá fólki sem þekkir ekki endilega dýptina á því sem er í gangi hverju sinni. Það sama á við hvort sem við vinnum leiki eða töpum, ég les ekki umfjallanir. Á sama tíma er mikilvægt að bera virðingu fyrir fjölmiðlamönnum því margir þeirra hafa starfað mjög lengi í boltanum. Það samstarf finnst mér alltaf vera að batna. Það er þannig að þegar þú tekur við landsliði máttu búast við því að margir muni tjá sína skoðun. Það er eðlilegt því landslið er lið allra landsmanna og það mega og eiga allir að hafa skoðun á því.
Það verða aldrei allir á sömu skoðun, það mun aldrei gerast. Einnig munu þeir sem eru neikvæðastir hrópa hæst og það ratar oftast í fjölmiðla. Mér finnst umfjöllunin ekki hafa verið ósanngjörn síðan ég tók við hjá Írlandi, en ég geri mér líka grein fyrir því að það verður alltaf einhver ósáttur við eitthvað. Það fylgir því bara að vera landsliðsþjálfari. Fólk er óhrætt við að segja sína skoðun og það er svo þitt val hvernig þú tekur þeirri gagnrýni. Ég hef reynt að vera staðfastur í því sem ég tel að þurfi að gera, geri mitt besta og er vinnusamur, ef það er ekki nóg þá nær það ekki lengra.“
Þakklátur John og Paddy
Heimir viðurkennir að það hafi verið mikil áskorun að hoppa beint úr landsliðsþjálfarastarfinu á Jamíku yfir í landsliðsþjálfarastarfið hjá Írlandi.
„Það sem var klárlega erfiðast við starfið til að byrja með var að ég kom beint til Írlands eftir tvær lokakeppnir með Jamaíku sem ég setti allan minn tíma og einbeitingu í. Lokakeppnir taka mikla orku og ég var þreyttur eftir keyrsluna með Jamaíku en þurfti svo að setja mig strax inn í nýja fótboltamenningu. Ég var allt í einu orðinn talsmaður írsku þjóðarinnar og hafði ekki haft mikinn tíma til þess að undirbúa mig fyrir það. Mér fannst við tækla þetta verkefni mjög vel strax í byrjun. Fyrsta verk var að fá þá John O’Shea og Paddy McCarthy til þess að halda áfram störfum sem aðstoðarþjálfarar liðsins. Okkur tókst einnig að halda sama starfsfólki í kringum liðið. Ég vildi í upphafi fá að taka tvo með mér inn í þjálfarateymið en endaði á að taka einungis Gumma Hreiðars með til Írlands. Gummi hefur unnið með mér með Íslandi, Jamaíku og nú Írlandi. Hvort sem það er á faglega sviðinu eða því persónulega er hann í hæsta gæðaflokki og ég get ekki hrósað honum nægilega mikið fyrir það sem hann hefur gert.
Það var því auðvelt fyrir þá sem fyrir voru að leiða þetta fyrsta landsliðsverkefni okkar. John sá til dæmis um nokkra blaðamannafundi til að byrja með, annaðhvort með mér eða hann einn. Það fór ekki vel í fjölmiðlana, sem vildu að ég væri talsmaðurinn. Ég þurfti að læra mjög hratt, bara nöfnin á öllum leikmönnunum sem komu til greina og öllu starfsfólkinu tók langan tíma að læra. Ég hefði litið illa út og líklegast verið hankaður á að segja eitthvað rangt í upphafi ef ég hefði ekki haft þennan stuðning. Bæði John og Paddy höfðu stýrt liðinu í fjórum vináttulandsleikjum áður en ég var ráðinn og það segir mikið um þeirra karakter að vilja vera áfram. Þetta sýnir svart á hvítu hversu góðar persónur þeir eru og hversu vænt þeim þykir um landsliðið sitt. Ég var og er ótrúlega heppinn því þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun fyrir þá að halda áfram sem aðstoðarþjálfarar. Ég hef í raun verið heppinn með samstarfsfólk í gegnum allan minn feril, það er gæfa sem ég vona að fari aldrei frá mér.“
Þakklátur fyrir stuðninginn
En hvernig er að stýra landsliði þar sem það kemur strax upp umræða um að það sé heitt undir þér þegar liðið tapar landsleik?
„Fótbolti á þessu getustigi snýst fyrst og fremst um það að vinna leiki og ná í úrslit. Alveg frá því að ég tók við liðinu hef ég bara fundið fyrir góðum stuðningi hjá stjórn knattspyrnusambandsins. Þegar allt kemur til alls voru það þeir sem ákváðu að ráða mig og það er því einnig mikið undir hjá þeim. Það er þannig í þessum blessaða fótbolta að þú sem þjálfari ert síðastur að finna það hvenær stuðningurinn er horfinn.
Við vissum alltaf að Þjóðadeildin yrði erfið því andstæðingarnir voru góðir. Fram undan er svo undankeppni HM þar sem við vorum í þriðja styrkleikaflokki í drættinum eins og Ísland. Við mætum sigurvegurum úr einvígi Portúgals og Danmerkur og svo Ungverjalandi og Armeníu. Það gera sér allir grein fyrir því að riðillinn er erfiður og þessi undankeppni verður brekka. Það er raunsærra fyrir Írland að komast á EM frekar en á HM, en ég er samt mjög bjartsýnn og held að við munum komast á HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir komandi ári og vonandi getum við haldið áfram að sýna framfarir í hverjum leik.
Eitt af því sem hefur staðið upp úr síðan ég kom til Írlands er stuðningsmennirnir. Landsliðið hefur gengið í gegnum ákveðna eyðimerkurgöngu hvað varðar árangur en samt sem áður erum við með 23.000 ársmiðahafa á öllum heimaleikjunum okkar. Það fylgja okkur um 2.000 stuðningsmenn í alla útileiki. Þetta sýnir það stolt sem Írar hafa fyrir landsliðinu sínu. Stuðningurinn hefur verið algjörlega magnaður, þar sem er sungið hástöfum í stúkunni og maður finnur fyrir sama stuðningi úti á götu. Okkur er hrósað og óskað góðs gengið. Mér finnst Írar líkir Íslendingum að mörgu leyti. Þjóðarstoltið er mikið og við erum studdir áfram fram í rauðan dauðann.“
Spennandi tímar fram undan
Knattspyrnusamband Íslands er í leit að nýjum landsliðsþjálfara fyrir íslenska karlalandsliðið en Heimir þekkir vel til í Laugardalnum eftir að hafa stýrt liðinu frá árinu 2013 til ársins 2018 og komið því á tvö stórmót, EM í Frakklandi árið 2016 og HM í Rússlandi árið 2018. Þá var hann aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins frá 2011 til 2013.
„Mér finnst góður gangur í þessu hjá íslenska liðinu og það er mjög skemmtilegt að horfa á liðið spila í dag. Þetta eru mjög flottir strákar sem spila góðan sóknarbolta. Við höfum verið betri fram á við en varnarlega. Åge Hareide var að mínu mati á góðri leið með liðið og ég er svekktur yfir því að hann hafi hætt. Þau nöfn sem hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir arftakar hans eru öll mjög góð. Landsliðsþjálfarastarfið hjá karlalandsliðinu er á allt öðrum stað í dag en þegar við Lars komum inn í það hjá KSÍ á sínum tíma. Það þótti ekki beint framfaraskref að taka við landsliðinu og þetta var oft endastöð hjá mörgum þjálfurum sem áttu einfaldlega erfitt með að fá annað starf eftir að hafa stýrt landsliðinu.
Í dag er eftirsóknarvert að taka við íslenska landsliðinu og margir góðir og reyndir þjálfarar hafa áhuga á því enda mjög spennandi tímar fram undan hjá þessu liði. Það er frábært fyrir Ísland ef þau nöfn sem hafa oftast verið nefnd til sögunnar hafa áhuga á því að stýra liðinu. Ég var hjá KSÍ í rúmlega sjö ár og það var góður tími fyrir mig persónulega og landsliðið líka. Ég starfaði þar með frábæru starfsfólki KSÍ og það gleymist oft hversu gott starf er unnið á skrifstofu KSÍ. Eins og ég sagði áðan þá voru þetta sjö góð ár og mér finnst ólíklegt að þau verði fleiri hjá KSÍ.“
Margir góðir kostir í boði
Er þá útilokað að Heimir stýri landsliði Íslands aftur í framtíðinni?
„Það sagði mér einu sinni einn eldri Svíi að maður ætti aldrei að loka neinum dyrum og ég útiloka aldrei neitt. Þetta er allavega ekki tímapunkturinn fyrir mig til þess að taka við landsliðinu.
Það eru góð nöfn í umræðunni um landsliðsþjálfarastöðuna og ég er sannfærður um að næsti landsliðsþjálfari mun verða sigursæll.
Landsliðið þarf fyrst og fremst að finna einhverja lausn í sínum varnarleik og þá getur Ísland gert magnaða hluti á næstu árum, um það er ég algjörlega sannfærður,“ bætti Heimir Hallgrímsson við í samtali við Morgunblaðið.