Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Loftárás á alþjóðaflugvöllinn í jemensku höfuðborginni Sanaa í gær var verk Ísraelshers og lýsti herinn árásinni á hendur sér samdægurs auk þess sem hún var sögð hefndaraðgerð fyrir ítrekaðar flugskeyta- og drónaárásir uppreisnarmanna Húta á skotmörk í ísraelsku höfuðborginni Tel Avív síðustu vikur, en Hútar eru hliðhollir Írönum sem troða illsakir við Ísraela.
Segja Ísraelar 16 manns hafa særst í árásum Húta, en katarski fjölmiðillinn Al Jazeera greindi frá því í gær að tveir hefðu týnt lífinu í árásinni á jemensku höfuðborgina sem er á valdi Hútanna. Þá greindi Tedros Adhanom Ghebreyesus forseti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá því á samfélagsmiðlinum X að maður í áhöfn flugvélar, sem flutti hann og samstarfsmenn hans á vegum Sameinuðu þjóðanna, hefði særst þegar flugskeytin hæfðu fugvöllinn í Sanaa þar sem þeir voru staddir.
Ráðist á orkuver og hafnir
„Tilkynnt var um tvo látna á flugvellinum hið minnsta. Flugturninn, brottfararsalurinn – aðeins fáeina metra frá okkur – og flugbrautin löskuðust,“ skrifaði Ghebreyesus.
Eftir því sem Ísraelsher greindi frá í tilkynningu sinni í gær beindist árás hans meðal annars að „innviðum sem hryðjuverkasamtök Húta beittu við hernaðaraðgerðir sínar“ og staðsettir eru á flugvellinum auk þess sem Hezyaz- og Ras Kanatib-orkuverin fengu á sig skeyti og innviðir við hafnir borganna Hodeida, Salif og Ras Kanatib.
„Hryðjuverkasamtök Húta nýttu þessa innviði við flutninga íranskra vopna til síns yfirráðasvæðis og heimsóknir hátt settra íranskra embættismanna,“ sagði enn fremur í yfirlýsingu hersins sem bætti því við að Benjamín Netanjahú forsætisráðherra, Herzi Halevi hershöfðingi og Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels hefðu heimilað árásirnar.
Lét jemenski blaðamaðurinn Hussain al-Bukhaiti þess getið í samtali við Al Jazeera að árás Ísraela hefði beinst að einum flugturna vallarins í Sanaa og með því sett flugumferð um völlinn úr skorðum.