Guillaume Bazard
Guillaume Bazard
Á fundinum í París munu koma saman þúsundir fulltrúa frá um 100 löndum.

Guillaume Bazard

Gervigreind (AI) er meira en iðn- og tæknibylting. Hún hefur tilhneigingu til að valda djúpstæðri hugarfarsbreytingu í samfélögum okkar og hvernig við nálgumst þekkingu, vinnu, upplýsingar, menningu og jafnvel tungumál. Það er því varla hægt að segja að gervigreind sé hlutlaus tækni. Hún er pólitískt og samfélagslegt mál sem krefst mikillar alþjóðlegrar umræðu meðal leiðtoga heimsins, vísindamanna, fyrirtækja og félagasamtaka. Í því tilliti mun Frakkland axla þá ábyrgð að byggja á þeim skriðþunga sem hefur skapast frá Bretlandi og Lýðveldinu Kóreu með því að boða til leiðtogafundarins um gervigreind, AI Action Summit, þann 10. og 11. febrúar 2025 næstkomandi. Á fundinum í París munu koma saman um hundrað þjóðhöfðingjar, ráðherrar og þúsundir einstaklinga og samtaka frá um 100 löndum.

Spurningin sem notendur standa frammi fyrir, sprotafyrirtæki, stór fyrirtæki, vísindamenn og stefnumótendur, er á endanum einföld: hvernig stöndum við rétt að umskiptum er varða gervigreind?

Það er mikið í húfi: gervigreindin verður að standa undir grunnmarkmiði sínu um framfarir og valdeflingu þegar kemur að gagnkvæmu trausti sem tekur á þeirri áhættu sem felst í tækniþróun.

Aðgengi fyrir alla

Áður en leiðtogafundurinn hefst og niðurstöður hans verða ljósar einbeitum við okkur að þremur áþreifanlegum áherslum:

Í fyrsta lagi þarf að tryggja aðgengi að gervigreind fyrir alla til að njóta góðs af og þróa nýjar hugmyndir til að fullnýta möguleika tækninnar. Til þess að brúa hið vaxandi stafræna bil og hefta óhóflega samþjöppun gervigreindargeirans, erum við að hleypa af stokkunum umfangsmiklu frumkvæði fyrir almannahag í því skyni að efla þróun og samnýtingu á tölvuorku, skipulagðri gagnasöfnun og þjálfun fyrir hæfileika framtíðarinnar.

Samræming á tæknilegum og grænum umskiptum

Í öðru lagi verðum við að undirbúa í sameiningu stærstu umskipti okkar tíma: tæknileg og græn umskipti. Þrátt fyrir að gervigreind muni án efa leggja allt af mörkum til að berjast gegn loftslagsbreytingum og vernda vistkerfin er hún nú á óviðunandi braut þegar kemur að orkunotkun. Nýjustu spár benda til þess að orkuþörf gervigreindargeirans verði tíu sinnum meiri árið 2026 en hún var árið 2023. Þetta er ekki sjálfbært. Til að bregðast við því verður alþjóðlegu og fjölþættu bandalagi um sjálfbæra gervigreind hleypt af stokkunum á leiðtogafundinum, til að dýpka rannsóknir á umhverfisáhrifum tækninnar, meta líkön á þeim grundvelli, skilgreina nýja staðla og auka græna fjárfestingu á hverju stigi í virðiskeðjunni.

Uppbygging á stjórnskipulagsramma

Að lokum þurfum við að hanna saman árangursríkan allsherjar stjórnskipulagsramma fyrir gervigreind. Í þessu tilliti er fyrsta áskorunin efnisleg: Dagskrá alþjóðlegrar stjórnunar gervigreindar verður að vera víðtæk og ekki takmörkuð við siðferði og öryggismál. Önnur svið skipta höfuðmáli, þar á meðal vernd grundvallarfrelsis, hugverkaréttar, baráttu gegn samþjöppun á markaði og aðgengi að gögnum. Önnur áskorunin er aðferðin, sem verður að vera samræmd.

Orðræðan snýr að miklu leyti um inngildingu í stjórnun gervigreindar, sem virðist á þessu stigi ákveðin tálsýn. Til dæmis taka aðeins sjö lönd heimsins raunverulega þátt í helsta alþjóðlegu frumkvæði um gervigreind og 119 eru alveg fjarverandi frá því. Auk þess þurfa einkaframtakið og félagasamtök að vera virkir þátttakendur við að skilgreina sameiginlegt alþjóðlegt stjórnskipulag fyrir gervigreind.

Frakkland er ekki eitt á leiðinni að þessari ráðstefnu. Meira en 700 opinberir og einkaaðilar, rannsakendur og félagasamtök frá öllum heimshornum hafa verið að hjálpa til við að undirbúa hana í marga mánuði. Ekkert viðfangsefni verður undanskilið, allt frá framtíð atvinnulífsins til hagnýtrar gervigreindar, frá öryggislíkönum til nýsköpunarvistkerfa, og frá þörfinni á málvísindalegum – og þar með menningarlegum – fjölbreytileika til verndar friðhelgi einkalífs.

Leiðtogafundurinn um aðgerðir í gervigreind verður hápunktur fyrir Evrópu sem verður að gegna leiðandi hlutverki á alþjóðlegu gervigreindarsenunni. Hinir fjölmörgu íslensku aðilar í gervigreind, bæði opinberir og einkaaðilar, eiga sinn sess í þessu stóra verkefni. Verið velkomin til Parísar!

Höfundur er sendiherra Frakklands á Íslandi.

Höf.: Guillaume Bazard