Jóhann Ingi Hafþórsson
Eins og eflaust flestir sem þetta lesa var ljósvaki í jólaboði á jóladag. Á meðan fjölskyldan gæddi sér á hangikjötinu stórgóða hófust umræður um hvað fólk gerði fyrripart dags á jóladag, áður en jólaboðið hófst.
Hjá sumum varð fátt um svör. Allar búðir lokaðar, fátt merkilegt í sjónvarpinu og stormur og snjókoma með köflum. Eldri meðlimir fjölskyldunnar höfðu lítinn áhuga á að læra á Netflix til að bjarga sér.
Sem betur fer þurfa ljósvaki og fjölskylda ekki að hafa áhyggjur lengur því að hátíðardagskráin í enska fótboltanum hófst með látum í gær.
Það þarf engum að leiðast þegar fyrsti leikur dagsins er klukkan 12.30, sá næsti 15, einn klukkan 17.30 og sá síðasti klukkan 20. Þvílík veisla.
Dagurinn í dag verður aðeins erfiðari því að fyrsti leikurinn hefst ekki fyrr en klukkan 19.30 en það er ákveðinn sjarmi í að hlakka til í allan dag. Það er hægt að gæða sér á afgangshangikjöti og láta sér líða vel á meðan.
Eftir áramót mun svo íslenska karlalandsliðið í handbolta keppa á HM og hjálpa okkur að komast í gegnum mesta skammdegið í janúar.
Ljósvaki veit ekki hvar hann væri ef ekki væri fyrir enska boltann á hátíðunum og handboltann í janúar.