Sigrún Kristinsdóttir fæddist í Sandgerði 17. júní 1953. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. desember 2024.

Foreldrar Sigrúnar voru Ingibjörg Steinunn Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 1916, d. 2000, og Kristinn Hjörleifur Magnússon skipstjóri, f. 1918, d. 1984.

Systkini Sigrúnar eru Hrefna, f. 1943, d. 1999, Kristjana, f. 1946, d. 1997, Hjördís, f. 1950, Magnús, f. 1955, og Sólveig, f. 1956.

Sigrún giftist Leifi Helgasyni, f. 1954, kennara 12. febrúar 1977. Þau eignuðust þrjá syni. Þeir eru: 1) Helgi, f. 1976, tölvunarfræðingur, maki hans Mirasol Asayas, f. 1978, viðskiptafræðingur. Börn þeirra eru: Stefán, f. 2009, og tvíburarnir María og Daníella, f. 2019. 2) Víðir, f. 1983, flugumferðarstjóri, maki hans Anna Reynisdóttir, f. 1988, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru: Karólína, f. 2015, Viktoría, f. 2019, og Ríkharður, f. 2023. 3) Tómas, f. 1985, fræðslustjóri, maki hans Aðalbjörg Guðmundsdóttir, f. 1987, lögfræðingur. Börn þeirra eru: Lilja Björk, f. 2013, Sigrún Eva, f. 2016, og Nína Dögg, f. 2023.

Sigrún ólst upp í Sandgerði og gekk í barnaskólann þar. Hún fór í Gagnfræðaskólann í Keflavík og stundaði síðan nám í Héraðsskólanum á Núpi árin 1969-1971. Þá fór hún í Húsmæðraskólann á Laugarvatni veturinn 1971-1972. Sigrún útskrifaðist úr Fósturskólanum 1976 og lauk diplómanámi í stjórnun frá Háskólanum á Akureyri 2003. Hún vann á Skógarborg, leikskóla Borgarspítalans, 1976-1979, kenndi við Ljósafossskóla í Grímsnesi 1979-1981 og á leikskólanum Hörðuvöllum í Hafnarfirði 1981-1989. Sigrún var leikskólastjóri í Sandgerði 1991-1994 og varð síðar leikskólastjóri á Álfabergi í Hafnarfirði 1995-2006. Að lokum starfaði hún sem leikskólastjóri í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði 2006-2019.

Sigrún söng um árabil í kvennakór Hafnarfjarðar. Henni var mjög annt um velferð barna og sinnti starfi með börnum af mikilli alúð. Þá voru barnabörnin hennar líf og yndi.

Útför Sigrúnar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 27. desember 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Það er þekkt klisja að eiga erfiða tengdamóður, en hana þekki ég þó ekki af eigin raun. Hún Sigrún var nefnilega alveg einstök tengdamamma. Hún var trúnaðarvinkona mín og minn helsti stuðningur. Það sem ég á eftir að sakna hennar en hún hefur verið í mínu lífi í rúm 20 dýrmæt ár, eða síðan ég kynntist yngsta syni hennar á fyrsta ári í menntó.

Það sem einkenndi Sigrúnu var góðmennskan og hlýjan. Hún var líka svo ótrúlega skemmtileg og gædd þeim dýrmæta kosti að sjá ávallt björtu hliðarnar í hvaða aðstæðum sem er. Viðhorf hennar var aðdáunarvert og þá sérstaklega í veikindum hennar. Það er oft talað um að taka Pollýönnu á hlutina, ég mun framvegis hafa það hugfast að „taka tengdó á þetta“.

Vörðubergið var algjör griðastaður fyrir barnabörnin. Mjúkur faðmur ömmu og hlýjan umlykjandi. Þar var oftar en ekki hlustað á leikskólalögin, sungið, dansað og heill bílskúr fullur af leikföngum og bókum bara fyrir barnabörnin. Þannig vildi Sigrún hafa það. Þegar hún og tengdapabbi minnkuðu við sig og fluttu á Norðurbakkann átti hún erfitt með að taka nýju íbúðina í fulla sátt því það var að hennar mati alltof lítið pláss fyrir leik barnabarnanna. Þá greip hún á það ráð að láta loka fyrir svalirnar og fylla þær af leikföngum. Þá fyrst var hún sátt. Þetta voru ekki smekklegustu svalirnar á bakkanum, en á þeim var ávallt gleði. Forgangsröðun hennar var skýr: barnabörnin í fyrsta, annað og þriðja sæti. Allt snerist í kringum barnabörnin og hennar nánasta fólk. Hún henti öllu öðru til hliðar ef þess þyrfti, aldrei með gremju heldur gleði þar sem það gladdi hana ekkert meira en samvera með barnabörnunum. Sigrún sýndi mikla umhyggju í garð fólksins síns, var inni í öllum þeirra málum, þó aldrei vegna afskiptasemi heldur vegna einlægs áhuga á þeirra lífi og maður hafði unun af því að segja henni frá sigrum sínum og raunum.

Sigrún var ekki tilbúin að tapa fyrir veikindum sínum enda þráði hún ekkert meir en að fá að fylgjast með barnabörnunum sínum vaxa úr grasi. Hún barðist til hins síðasta við sinn erfiða sjúkdóm. Það er erfitt að kveðja þann sem er ekki tilbúinn að fara og hafa síðustu vikur verið virkilega erfiðar. En eins og Sigrún sagði oft undir það síðasta, þá hefur lífið ekki lofað okkur neinu. Ég syrgi þó mest framtíðina og þá staðreynd að við fáum ekki lengur að njóta hennar notalegu nærveru, stuðnings og góðmennsku. Sorglegast af öllu er að dætur mínar fá ekki fleiri stundir með ömmu sinni og að yngsta dóttir mín hafi ekki fengið að kynnast þessum ómetanlegu stundum með Sigrúnu ömmu. Hún var svo mikill þátttakandi í þeirra lífi og okkar allra. Lífið er tómlegt án hennar. Það verður skrýtið að fá hana ekki lengur inn um dyrnar, en hún kom oftar en ekki afsakandi inn því það var svo stutt síðan síðast, og sagði „við erum bara svona aðeins að kíkja“ og áður en við vissum af liðu jafnvel þrjár klukkustundir af kjaftagangi eins og ekkert væri.

Takk fyrir allt, elsku besta tengdó, ég mun ávallt hugsa hlýtt til þín.

Þín

Aðalbjörg (Abba).

Haustið 1971 er fagurt í minningu okkar vinkvennanna sem komum að Laugarvatni, hver úr sinni áttinni, til náms við Húsmæðraskólann. Þar voru samankomnar 62 ungar stúlkur sem ætluðu að dvelja á heimavist skólans til vors og læra hússtjórn. Í þessum hópi var Sigrún, en hún hafði verið í framhaldsnámi á Núpi í Dýrafirði og þar kynnst vinkonu sinni, Málfríði (Fríðu), saman komu þær og með þeim æskuvinkona Sigrúnar úr Sandgerði, Ingibjörg Óskarsdóttir. Þær nutu þess að búa saman í stóru herbergi á heimavistinni og þar var oft glatt á hjalla. Allar voru þær duglegar, skemmtilegar og dásamlegar stelpur sem tóku fallega á móti þeirri fjórðu, Ingibjörgu Eiríksdóttur, og bættu henni í vinkonuhópinn. Þarna varð til vinátta sem hefur enst okkur langa ævi.

Við fylgdumst hver með annarri og hittumst að minnsta kosti einu sinni á ári í september, eyddum saman dásamlegum stundum, ómetanlegum tíma. Deildum gleði og sorgum, styrktum og efldum hver aðra og urðum nánari eftir því sem á ævina leið. Þar kom, að við gátum hist oftar þegar um hægðist og hvílíkt lán að eiga þessa vináttu.

Það kom okkur ekki á óvart að Sigrún vildi leggja fyrir sig nám leikskólakennara og gera það að ævistarfi sínu og börnin sem nutu starfskrafta hennar hafa ekki verið svikin, þau hændust að henni. Hún hafði unun af vinnunni sinni og brann fyrir verkefninu. Fagmaður í sínu fagi og lærði allt það sem hún gat nýtt sér til góðra verka, setti skjólstæðinga sína ævinlega í fyrsta sæti. Henni var treyst fyrir stórum verkefnum og stýrði hún leikskólanum af fagmennsku og kærleika. Kraftmikil kona. Sigrún hafði fagra söngrödd og hafði yndi af söng og starfaði hún lengst af í kórum. Fjölskyldukona var hún og hennar lán var lífsförunauturinn, Leifur, sem deildi með konu sinni sömu sýn á mikilvægi hlutanna í lífinu. Synir þeirra nutu sannarlega samstiga foreldra sem fylgdu þeim eftir í öllu því sem hugur þeirra stóð til.

Skarðið sem elsku vinkona okkar skilur eftir er sannarlega stórt. Okkar hópur hefur misst sína bestu konu, leikskólastigið hugsjónakonu fyrir velferð barna og fjölskyldum þeirra, kórinn hennar fagra söngrödd og félaga.

Sárastur er þó missir eiginmanns, sona, tengdadætra og barnabarna, sem sjá á bak kærleiksríkri, gefandi, æðrulausri og fræðandi konu sem stóð eins og fallegur klettur í öllu sínu lífi.

Minning hennar er fagurt ljós í lífi okkar allra sem vorum henni samferða.

Ingibjörg Óskarsdóttir,
Málfríður (Fríða) Jónsdóttir og Ingibjörg Eiríksdóttir.

Í dag kveð ég Sigrúnu mína sem spilaði stórt hlutverk í lífi mínu sl. 28 ár, frá því að við kynntumst fyrst á Álfabergi, ég nemi og hún leikskólastjóri. Eftir útskrift ákvað ég að ráða mig til Sigrúnar, þar hófst samband sem þróaðist í trausta og góða vináttu. Á Álfabergi áttum við góð ár, fórum árlega í Fræðasetrið og skelltum við okkur ávallt í Hvalsnesið og gengum þar um. Við opnuðum saman Hraunvallaskóla sem sameiginlegan leik- og grunnskóla og urðum strax samstíga í því verkefni með öðru frábæru fólki. Þegar við vorum að ráða inn starfsfólk átti Sigrún það til að segja „við Sigga erum búnar að vera svo lengi í þessu enda jafngamlar“ og horfði til mín og blikkaði.

Sigrún var einstakur leiðtogi og hefur verið mér dýrmæt perla, hún hefur leiðbeint mér þegar þess hefur þurft og við rökrætt um lífið og tilveruna og alltaf höfum við komist að góðri niðurstöðu. Hún var mér mikill leiðbeinandi, sagði mér þegar henni fannst ég vera að gleyma mér eða ganga fram úr sjálfri mér. Þegar árin liðu vorum við orðnar gott teymi og vógum hvor aðra upp. Hún las mig ávallt eins og opna bók, þegar bakið fór kom Hjördís til bjargar og svo fór Sigrún með mig í Lótushús þegar alvarleg veikindi föður míns komu upp, hún handleiddi mig þar í gegn og sú gjöf hjálpaði mér þegar ég heimsótti hana í hinsta sinn. Við rökræddum oft á upphafsárum okkar í Hraunvallaskóla og þegar Halli húsvörður heyrði í okkur átti hann til að segja „nei nú eru Sigga og Sigrún byrjaðar, eins og gömul hjón að rökræða“. Við hlógum að þessu enda Benni minn oft verið kallaður Sigrún mín og öfugt.

Við höfum farið í margar ferðir og lent í ævintýrum sem við höfum rifjað oft upp. Þar stóð upp úr Danmerkurferð sem endaði sem mesta óvissuferðalagið. Þrjár millilendingar, lent á Akureyri og keyrt beint suður í vinnu, allt út af Eyjafjallajökli. Eitt sinn fórum við á ráðstefnu á Akureyri, pöntuðum bústað og rúlluðum norður á bíl sem lét alls konar. Þetta olli mikilli kátínu í hópnum og þegar við vorum búnar að skúra við brottför og Sigrún að læsa heyrðist í henni „stelpur, gott að við erum búnar að þrífa en við keyptum sko þrif á bústaðinn“ og við sprungum úr hlátri og mættum á réttum tíma á ráðstefnuna enda hefur Sigrún séð til þess að við drifum okkur því alltaf skal muna að „drífa sig“ og svo „róa sig“. Leikskólamálin ræddum við öllum stundum í löngum og innihaldsríkum samtölum og einnig og það dýrmætasta, fjölskyldurnar okkar. Það skein í gegn hjá Sigrúnu, sem var dugleg að segja mér sögur af barnabörnunum sem voru sólargeislarnir í lífi hennar, sem og synirnir, tengdadæturnar og elsku Leifur. Elsku Sigrún mín, ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér, nærandi og djúpa vináttu og fyrir að hafa verið leiðtogi í mínu lífi.

Elsku Leifur, Helgi, Víðir, Tómas og fjölskyldur, missir ykkar er mikill en minningin lifir um einstaka og fallega konu.

Takk fyrir allt og allt, þín

Sigríður Ólafsdóttir

Sigrún vinkona mín kvaddi þetta líf að kvöldi 16. desember eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Við kynntumst og áttum ógleymanlegan tíma saman í Fósturskóla Íslands og urðum góðar vinkonur ævina á enda, vorum nemar á sömu leikskólum og unnum um tíma saman að útskrift lokinni. Búseta sitt í hvorum landshlutanum gerði það síðan að verkum að við hittumst ekki í mörg ár en aldrei rofnaði sambandið alveg. Fyrir nokkrum árum jókst sambandið aftur og fyrir rúmi ári fórum við skólasystur úr Fósturskólanum í nokkra daga ferð til Parísar þar sem böndin voru svo sannarlega styrkt og hnýtt föstum hnútum. Við vinkonurnar vorum saman í herbergi, sváfum í sama rúmi, flissuðum, hlógum og skríktum eins og smástelpur, rifjuðum upp gamlar minningar og töluðum langt fram á nætur þar til önnur svæfði hina. Vöknuðum svo með bros á vör, tilbúnar í ævintýri dagsins með okkar góðu og skemmtilegu skólasystrum. Á námsárunum kynnist Sigrún Leifi sínum sem var hennar mesta gæfa í lífinu ásamt drengjunum þremur, tengdadætrum og barnabörnum. Hún sagði við mig fyrir aðeins örfáum vikum að þegar allt kæmi til alls þá væru barnabörnin hennar lífeyrissjóður og það besta sem hún ætti. Sigrún var alltaf glöð og þakklát fyrir allt í lífinu. Hún var falleg, skemmtileg, brosmild, hláturmild, umburðarlynd, jákvæð, bjartsýn, traust en umfram allt góður vinur.

Takk fyrir vináttu þína, elsku hjartans Sigrún.

Takk fyrir samtölin og gleðina.

Takk fyrir ferðina okkar til Parísar. Ég kveð elskulega vinkonu mína með þessu táknræna kínverska ljóði eftir Tú Mú í þýðingu Helga Hálfdánarsonar og bið góðan Guð að styrkja minn kæra Leif, synina Helga, Víði og Tómas og fjölskyldur þeirra, systur og bróður Sigrúnar og alla aðra sem sakna og eiga um sárt að binda.

Vinir skiljast ætíð alltof fljótt

ástarkveðjur sárt á vörum brenna.

Kertaljósin litlu hafa í nótt

látið, okkar vegna, tár sín renna.

Hvíl í friði og takk fyrir allt, mín kæra Sigrún. Þín verður sárt saknað.

Ragnheiður Ólafsdóttir.

Sigrún elsku besta vinkona, nú er komið að leiðarlokum, allt of snemma, ferðalag okkar saman er á enda. Söknuðurinn er mestur hjá fjölskyldu þinni, Leifi, strákunum, tengdadætrunum og barnabörnunum. Ömmueðlið var stórt og mikið, fjölskyldan ávallt í fyrirrúmi, ástin og umhyggjan óþrjótandi. Við hjónin áttum margar góðar og eftirminnilegar stundir saman síðustu fimm áratugina, þú ávallt róleg og yfirveguð með sterkar skoðanir litaðar af ást og umhyggju. Ófáir kaffibollarnir drukknir, stundum með smá meðlæti, síðustu árin á Hjallabrautinni og niðri á Bakka, umræðan um allt millum himins og jarðar, umönnun og velferð barna þér mikið hugðarefni ásamt almennri lýðheilsu og jöfnun lífskjara.

Nú þegar leiðir skilur í bili getum við hjónin horft til baka síðustu fimm áratugina með ánægju og gleði til þessara stunda. Missirinn er mestur hjá okkar ágæta vini Leifi, strákunum, tengdadætrunum og hinum glæsta hópi barnabarna sem öll syrgja góða og yndislega eiginkonu, móður, tengdamóður og ömmu. Sigrún var mjög stolt af þessum glæsilega hópi. Síðustu mánuðir hafa verið Sigrúnu og fjölskyldu erfiðir, baráttan við meinið staðið síðustu fimm ár, sigrar inni á milli, en hið illvíga mein hafði sigur að lokum, baráttan síðustu níu mánuði verið erfið og ljóst fyrir nokkru að ekki var vegur til baka. Við kvöddum Sigrúnu stuttu fyrir andlátið, tregabundin stund en hún var södd lífdaga eftir alla þessa baráttu.

Við munum ávallt minnast Sigrúnar með gleði í hjarta og sjá hana fulla lífsorku, lífsglaða, ástríka og umhyggjusama. Leifur, strákar, tengdadætur og barnabörn, megi Guð vera með ykkur í blíðu og stríðu og leiða í lífsins ólgusjó. Minning Sigrúnar mun ávallt lifa, takk Sigrún, fyrir indæla samfylgd og vináttu.

Guðrún Bjarney og Viðar.

Elsku Sigrún.

Takk fyrir allt, öll samtölin, samveru, vinnuferðir og alla hvatningu í minn garð. Þín verður sárt saknað en nú veit ég að þú ert komin á betri stað þar sem þjáningum þínum er lokið. Góða ferð í sumarlandið.

Elsku Leifur, synir og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og megi góður guð vaka yfir ykkur og veita styrk.

Þangað til næst.

Nú ertu ljúfan leidd á burtu
frá mér

í ljósið inn sem læknar öll
þín mein

og þrautir allar þungar færðar
frá þér

nú fagnar þú sem fagurt blóm
á grein.

Hugrakka vina héðan sendi nú

hinstu mína kveðju, ást og trú.

Til himinsala hefur þína vegferð

í heiminn þar sem eilíf birta skín.

En vissa mín og von um
endurfundi

hún vekur upp minn kraft og
mína trú

þá saman finnum frið í grænum

lundi

og fléttum blómakransa ég og þú.

Nú englaskarar lýsi þína leið

létt þá verður burtför þín og greið.

Því hér í heimi hefur verki lokið

þú heldur ótrauð inn á nýja braut.

(EH)

Þín vinkona,

Anna Halla.

hinsta kveðja

Elsku besta amma mín.

Ég sakna þín mjög mikið. Takk fyrir að vera svona góð amma. Þú varst svo góð við okkur öll. Þú spilaðir mjög oft við mig og við gerðum mjög margt skemmtilegt saman.

Þín

Sigrún Eva.