Uppbygging Ný fjölbýlishús rísa nú við Digranesveg í Kópavogi.
Uppbygging Ný fjölbýlishús rísa nú við Digranesveg í Kópavogi.
Forsala nýrra íbúða á Traðarreit við Digranesveg hefur gengið vonum framar, en af þeim 11 þakíbúðum sem settar voru á sölu fyrir jól hafa fimm þegar selst. Söluverð þakíbúðanna er frá 103,5 milljónum upp í 260 milljónir króna, en aðrar íbúðir verða þó til sölu á hófstilltara verði

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Forsala nýrra íbúða á Traðarreit við Digranesveg hefur gengið vonum framar, en af þeim 11 þakíbúðum sem settar voru á sölu fyrir jól hafa fimm þegar selst. Söluverð þakíbúðanna er frá 103,5 milljónum upp í 260 milljónir króna, en aðrar íbúðir verða þó til sölu á hófstilltara verði.

Íbúðirnar á reitnum eru samtals 180 talsins,í tveimur byggingum, en byggingarnar eru fjögurra og fimm hæða háar og skapar lögun þeirra inngarð. Auk þess er samtengdur bílakjallari neðanjarðar.

Vandað til verka og næg stæði

Formleg sala allra íbúða hefst svo um miðjan janúar og segir Daði Hafþórsson, löggiltur fasteignasali hjá Eignamiðlun, að hann finni fyrir talsverðri eftirspurn eftir íbúðunum.

„Áhuginn á þakíbúðunum hefur verið mikill, en áhuginn á öðrum íbúðum í húsinu hefur verið gríðarlegur. Ástæður þess eru margþættar en íbúðirnar eru mjög miðsvæðis og góðar samgöngur eru allt í kring. Jáverk verktakar stendur að uppbyggingunni, en reiturinn var teiknaður af Tark arkitektum og eru íbúðirnar því afar vandaðar og vel skipulagðar. Þær verða svo einnig svansvottaðar við lok verksins. Að auki fylgja bílastæði með hverri íbúð og hægt verður að kaupa fleiri, sem eykur sérstöðu þessara íbúða miðað við aðrar á markaðinum,“ segir Daði í samtali við Morgunblaðið.

Daði segir fermetraverð íbúðanna almennt í takt við aðra íbúðarreiti sem séu í sölu í dag, svo sem Heklureit og Orkureit, en íbúðirnar séu hugsaðar með breiðan hóp í huga og taki því hönnun og verðlagning mið af því.