RÚV Tapið af rekstrinum í ár nemur 150-200 milljónum króna.
RÚV Tapið af rekstrinum í ár nemur 150-200 milljónum króna. — Morgunblaðið/Eggert
Stefnt er að því að Ríkisútvarpið ohf. skili jákvæðum rekstrarafgangi á næsta ári og að hagnaður ársins verði að minnsta kosti 100 milljónir króna fyrir skatta. Með þessu á að vinna til baka um helming af rekstrartapi ársins í ár og bæta sjóðstöðu félagsins

Stefnt er að því að Ríkisútvarpið ohf. skili jákvæðum rekstrarafgangi á næsta ári og að hagnaður ársins verði að minnsta kosti 100 milljónir króna fyrir skatta. Með þessu á að vinna til baka um helming af rekstrartapi ársins í ár og bæta sjóðstöðu félagsins. Þetta kom fram í drögum að rekstraráætlun sem kynnt voru á fundi stjórnar RÚV 27. nóvember síðastliðinn en fundargerð fundarins var nýverið birt á vef RÚV.

Áætlun um bætta afkomu Ríkisútvarpsins felst fyrst og fremst í aðhaldi í launakostnaði, lækkun fjármagnskostnaðar, minna umfangi sýningarrétta á íþróttum og öðru aðhaldi í rekstri, segir í fundargerðinni.

Miðað er við að launakostnaður verði ekki hærri en 43% af svokölluðum þjónustu- og auglýsingatekjum á næsta ári. Það svari til þess að launakostnaður verði um 3,9 milljarðar króna og að meðalfjöldi stöðugilda á árinu verði ekki umfram 265. RÚV fær 250 milljónum meira úr vasa skattgreiðenda á næsta ári en í ár. Gert er ráð fyrir að auglýsingatekjur verði um 2,7 milljarðar. Aðrar tekjur eru áætlaðar 277 milljónir króna.

Jákvæð afkoma var af rekstri RÚV í október en uppgjör fyrir fyrstu tíu mánuði ársins sýnir 319 milljóna króna halla. Afkoman er 137 milljónum lakari en uppfærð áætlun gerði ráð fyrir. Enn er gert ráð fyrir að taprekstur ársins verði í kringum 150-200 milljónir króna.