Mokað Hellisheiði var rudd um hádegi í gær eftir að hafa verið lokuð.
Mokað Hellisheiði var rudd um hádegi í gær eftir að hafa verið lokuð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Foráttuveður einkenndi jólahátíðina í mörgum landshlutum, en á aðfangadag gekk yfir landið suðvestanstormur og hríðarveður. Appelsínugular veðurviðaranir tóku svo gildi á jóladag á vestanverðu landinu, ásamt því sem gular veðurviðvaranir voru í…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Foráttuveður einkenndi jólahátíðina í mörgum landshlutum, en á aðfangadag gekk yfir landið suðvestanstormur og hríðarveður.

Appelsínugular veðurviðaranir tóku svo gildi á jóladag á vestanverðu landinu, ásamt því sem gular veðurviðvaranir voru í gildi á Suðurlandi og Norðurlandi eystra, með hríð og snörpum vindhviðum. Lægja tók þó í gær með slyddu og rigningu á köflum sunnan og vestan til, en úrkomulítið var norðaustanlands og var hiti á bilinu 0-5 stig.

Vegir víða lokaðir

Ástand vega var víða slæmt í gær og í fyrradag, en veginum um Súðavíkurhlíð var lokað um tíma vegna snjóflóðs sem féll á veginn. Í gær var einnig ófært í Ísafjarðardjúpi á milli Súðavíkur og Skutulsfjarðar, og þá var Dynjandisheiði einnig ófær.

Holtavörðuheiði var illfær á aðfangadag og sinntu Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar útköllum sem þaðan bárust vegna bíla sem sátu fastir. Heiðinni var síðan lokað, hún var opnuð stuttlega aftur á jóladag og var svo aftur lokað klukkan 19.30 í gærkvöldi vegna slæms veðurútlits og öryggisástæðna, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er útlit fyrir kólnandi veður næstu daga. Á morgun má gera ráð fyrir suðvestanátt og verður hvassast við suðurströndina en gert er ráð fyrir að vindur verði á bilinu 8-15 metrar á sekúndu. Útlit er svo fyrir bjartviðri norðaustan til.

Veður næstu daga mun fara kólnandi og um helgina eru líkur á því að hitatölur geti farið niður í um 18 stiga frost á höfuðborgarsvæðinu.