Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Vorið 2023 varði Júlíana Þóra Magnúsdóttir doktorsverkefni sitt um sagnahefðir íslenskra kvenna og nú hefur hún hug á að þrengja verkefnið og skoða hvaða hlutverki einhleypar konur gegndu í sagnahefðinni í torfbæjarsamfélaginu. „Mér finnst það heillandi rannsóknarverkefni,“ segir hún.
Júlíana fékk nýverið viðurkenningu frá Konunglegu Gústav Adolf-akademíunni í Svíþjóð fyrir doktorsritgerð sína, Með eigin röddum: Sagnahefð íslenskra kvenna undir lok nítjándu aldar og í byrjun tuttugustu aldar, sem hún varði við Háskóla Íslands. Auk þess voru önnur verkefni sem hún hefur unnið eða tekið þátt í, eins og til dæmis sagnagrunnurinn og þjóðtrúargrunnurinn, höfð til hliðsjónar. 18 manns voru verðlaunaðir og þar af tveir Íslendingar, Júlíana og Auður Magnúsdóttir, sem fékk viðurkenningu fyrir rannsóknir á fornaldarsögum og áhrif hennar á frekari rannsóknir á fornaldarsögum Norðurlanda.
Í doktorsverkefninu fjallaði Júlíana um helstu þætti munnlegra þjóðsagnahefða kvenna í íslenska torfbæjarsamfélaginu. Heimildir hennar voru hljóðrituð viðtöl, sem Hallfreður Örn Eiríksson þjóðfræðasafnari tók upp úr 1960 og eru varðveitt á Árnasafni, við 200 konur fæddar undir lok 19. aldar og 25 karla með það að markmiði „að öðlast innsýn í hvernig rými, upplifun og aðstæður kvenna í fortíðinni höfðu áhrif á þjóðsagnahefðir þeirra og sagnasjóði“ eins og fram kom í kynningu á vörninni. Úrtökuhópur karlanna var með til að skoða kynbundinn mun á sagnahefðinni. „Ég skoðaði fyrst og fremst konurnar og hvernig umhverfið mótaði í rauninni bæði frásagnarefnið, formið og rýmið sem sögurnar voru sagðar í.“
Rannsóknir Júlíönu leiddu meðal annars í ljós að kvöldvökurnar og rökkrin í aðdraganda þeirra hafa oft runnið saman í heimildum. „Þegar rýnt er betur í heimildirnar eru þetta tvær ólíkar sviðsmyndir í dagstofunni.“ Karlarnir hafi verið frekar ráðandi í kvöldvökunni og lesið í stað þess að vinna, kannski þreyttir eftir útiveru um daginn, en önnur skemmtun hafi farið fram í rökkrinu á meðan karlarnir sváfu. „Konurnar þurftu þá að hafa ofan af fyrir börnum og þeim sem ekki þurftu þá að sofa með munnlegri skemmtun. Þær voru svolítið ráðandi á munnlega sviðinu í byrjun 20. aldar.“
Gleymdar og grafnar
Sagnaefnin voru líka mismunandi. „Konur héldu eiginlega alveg uppi huldufólkshefðinni og var það kannski alltaf þannig er áhugaverð spurning.“ Eins sé mjög mikil áhersla lögð á kvenhlutverk og kvenhetjur í sagnahefð kvenna, drauma og dulræna reynslu. „Karlar slepptu yfirleitt kvenpersónum í sínum sögum ef þeir komust upp með það.“
Júlíana hefur hug á að fylgja verkefninu eftir og einbeita sér þá að sagnahefð einhleypra kvenna. Gaman sé að horfa til baka á þennan áhugaverða hóp, því hann sé hvergi í sagnfræðiheimildum. „Þær deyja eiginlega í samskiptaminninu um leið og þær deyja í veruleikanum. Engin börn muna eftir þeim og af því að þær eru konur birtast þær ekki í sagnfræðilegum heimildum sem merkilegir Íslendingar.“
Sagnahefð einhleypra kvenna var önnur en annarra kvenna, að sögn Júlíönu. „Þegar við horfum á konur og kvennamenningu horfum við á konur í gegnum þessi týpísku, stöðluðu hlutverk húsfreyjunnar og móðurinnar, en 40% kvenna á fyrri tíð passa ekki inn í það módel.“ Rannsóknir sínar hafi bent til þess að barnlausar, einhleypar konur hafi ekki verið eins hreyfanlegar og giftu konurnar. „Við höfum alltaf horft á konur í dreifbýlissamfélaginu sem svo njörvaðar niður á bæinn, en þrátt fyrir það voru þær mjög hreyfanlegar.“ Í daglega lífinu hafi þær kannski verið meira bundnar heimilinu, en þær hafi flutt mikið á milli bæja. „40% af konunum sem ég skoðaði bjuggu í öðru sveitarfélagi en þær ólust upp í. Þær voru því í lykilhlutverki við að flytja sögur á milli staða.“ Einhleypu konurnar hafi verið kyrrstæðari og gjarnan dagað uppi í sinni sveit. Áhugavert sé að kanna hvort sagnaarfur þeirra sé líkari sagnaarfi karla en annarra kvenna. „Það er meðal annars spurning sem ég hef áhuga á að velta upp.“