Það er fróðlegt að fylgjast með umræðunni um orkumál í Evrópu þessa dagana.
„Ég er brjáluð út í Þjóðverjana,“ sagði Ebba Busch, orkumálaráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.
Reiði ráðherrans stafar af því sem hún kallar óábyrga hegðun stjórnvalda í Berlín.
Eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan ákvað Angela Merkel, þáverandi kanslari, að loka öllum kjarnorkuverum Þýskalands og var slökkt á því síðasta í fyrra.
Fyrir vikið þurfa Þjóðverjar nú að flytja inn orku. Svíar eru einn helsti útflytjandi orku í Evrópu, koma þar næstir á eftir Frökkum, samkvæmt vefsíðunni Montel, sem fjallar um orkumál.
Kerfinu er ætlað að jafna orkudreifingu eftir framboði og eftirspurn í Evrópusambandinu. Fylgifiskurinn er hins vegar gríðarlegar sveiflur orkuverðs.
Þegar Merkel tók þessa ákvörðun keyptu Þjóðverjar mikla orku af Rússum og fengu hana frekar ódýrt. Það reyndust hrapalleg mistök að treysta á Rússana. Eftir innrás þeirra í Úkraínu hafa Þjóðverjar mátt kaupa orkuna dýrt, en það hefur einnig kostað miklar verðhækkanir í löndum sem þeir kaupa orku af.
Svíþjóð er skipt upp í fjögur orkusvæði og getur verið mikill verðmunur á rafmagni í norðri og suðri. Fyrr í þessum mánuði var verðið á orkunni í suðri á ákveðnum tímum þegar ekki hreyfði vind 190-falt verðið í norðri. Snar þáttur í þessum verðmun var Þýskaland.
„Þjóðverjar geta tekið þær ákvarðanir, sem þeim sýnist, en þeir verða að gera sér grein fyrir því að þær hafa mikil áhrif á granna þeirra og það er ekki sanngjarnt að Svíar borgi þýskt verð fyrir þýskar ákvarðanir,“ sagði Busch fyrir rúmri viku er hún var á fundi í Brussel.
Svíar hafa lagt til við Þjóðverja að þeir skipti Þýskalandi upp í verðsvæði líkt og þeir sjálfir hafa gert til að koma í veg fyrir að verðhækkanir smitist. Svíar hafa einnig sagt að þeir hafi ekki áhuga á lagningu nýrrar 700 megavatta orkuleiðslu neðansjávar milli Svíþjóðar og Þýskalands.
„Ég vil tala hreint út um það að við erum með risavaxna leiðslu til Þýskalands í gíslingu vegna þess að Þjóðverjar eru ekki með sín orkumál í lagi,“ sagði Busch.
Norðmönnum líst ekki á blikuna og eru farnir að íhuga að aftengjast evrópska orkumarkaðnum. Þeir voru þriðju stærstu útflytjendur rafmagns í Evrópu í fyrra.
Noregur tengist Danmörku með tveimur neðansjávarleiðslum fyrir rafmagn. Þessar leiðslur eru komnar á tíma og þarfnast endurnýjunar á þarnæsta ári. Ríkisstjórn Noregs veltir nú fyrir sér að láta það ógert að endurnýja leiðslurnar, sem nefnast Skagerrak 1 og 2, en hefur reyndar ekki tekið um það formlega ákvörðun enn.
„Ég hef talað skýrt um það að við munum ekki framlengja Skagerrak-leiðslurnar til Danmerkur ef í ljós kemur að þær eiga þátt í því háa verði sem við sjáum um þessar mundir … og valda norska orkukerfinu tjóni,“ sagði Terje Aasland, orkumálaráðherra Noregs, í tölvupósti við fyrirspurn fréttaveitunnar AFP.
Þessi afstaða norsku stjórnarinnar leggst ekki vel í Svía, enda tengjast orkumarkaðir landanna. Ebba Busch lítur á það sem „algera katastrófu“ verði leiðslurnar til Danmerkur ekki endurnýjaðar. Því svarar Aasland: „Ég vil minna Ebbu Busch á það að ég er orkumálaráðherra Noregs.“
Hér á Íslandi sjáum við fram á hærra orkuverð vegna þess að dregist hefur að tryggja framleiðslu á orku í samræmi við vaxandi þarfir auk þess sem dreifingarkerfinu hefur ekki verið haldið við sem skyldi.
Stjórnvöld hafa tekið við sér á síðustu misserum þótt það sé enn ekki farið að skila sér. Ekki er ljóst hvernig komandi ríkisstjórn hyggst halda utan um orkumálin, en vonandi verður það haft að leiðarljósi að tryggja þurfi næga orku þannig að ekki þurfi að grípa til jarðefnaeldsneytis til að reka verksmiðjur og fyrirtæki.
Vonandi verður heldur ekki gripið til hugmynda um að hefja útflutning á orku til Evrópu. Nær er að nota orkuna til uppbyggingar í íslensku efnahagslífi. Reynsla Norðmanna og Svía sýnir hvaða afleiðingar það getur haft að tengjast orkunetinu í Evrópu.