Launakostnaður í tengslum við úthlutun listamannalauna í ár nam um 35 milljónum króna. Alls fá 30 manns greidd laun fyrir úthlutun launanna, 24 sem sitja í úthlutunarnefndum og sex stjórnarmenn. Þetta kemur fram í svari menningar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Launakostnaður í tengslum við úthlutun listamannalauna í ár nam um 35 milljónum króna. Alls fá 30 manns greidd laun fyrir úthlutun launanna, 24 sem sitja í úthlutunarnefndum og sex stjórnarmenn. Þetta kemur fram í svari menningar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tilkynnt var um úthlutun listamannalauna næsta árs hinn 5. desember síðastliðinn. Alls er þar um 251 ein­stak­ling að ræða og verða laun­in 560.000 krón­ur á mánuði. Fjöldi um­sækj­enda var 1.339, þar af 1.223 ein­stak­ling­ar og 116 sviðslista­hóp­ar.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins er rakið að þrír nefndarmenn eru í hverri fagnefnd fyrir eftirfarandi sjóði: launasjóð tónskálda, launasjóð tónlistarflytjenda, launasjóð sviðslistafólks, tilnefndur af Sviðslistasambandi Íslands, launasjóð rithöfunda, tilnefndur af Rithöfundasambandi Íslands, launasjóð myndlistarmanna, tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna, launasjóð kvikmyndahöfunda og launasjóð hönnuða, tilnefndur af samtökum hönnuða og arkitekta.

Formennirnir fá meira greitt

„Samtals eru því 24 fagaðilar sem fá greidd laun (misjafnt hve mikið milli stjórna þar sem greiðslan fer eftir fjölda umsókna) auk þess sem stjórn listamannalauna telur þrjá aðalmenn og þrjá varamenn,“ segir í svarinu.

Enn fremur segir þar að laun nefndarmanna séu ákvörðuð samkvæmt fundareiningum. Nefndareiningin er 2.932 kr. (3.470 kr. með launatengdum gjöldum). „Áætlað er að mat á einni umsókn taki eina klukkustund „með öllu“ – sjálfstæðu mati matsmanns, samráðsfundum nefndar og frágangi,“ segir ráðuneytið.

Við útreikning er stuðst við að ein klukkustund/umsókn hjá formanni jafngildi þremur fundareiningum. Ein klukkustund hjá almennum nefndarmanni jafngildir tveimur fundareiningum.

„1.720 mánuðir voru til úthlutunar, hver mánaðarlaun (verktakagreiðsla) er 560.000 kr. Samtals 963.200.000. Kostnaður við fagnefndir og stjórn listamannalauna sem telur 30 fagaðila, er 3,64% af launaúthlutun ársins 2025, þ.e.a.s. 35.034.274 kr. af 963.200.000 kr.,“ segir í svarinu. Þar er tekið fram að uppgefnar tölur byggi á áætlun frá Rannís þar eð lokagreiðslur hafi ekki farið fram, svo sem vegna launatengdra gjalda.

Launakostnaður við listamannalaun

Á næsta ári mun 251 einstaklingur fá 560 þúsund krónur í mánaðarlaun, í mislangan tíma þó.

Mikill fjöldi umsókna berst ár hvert og þurfa úthlutunarnefndir að meta hverja og eina þeirra.

Launakostnaður vegna þessa var um 35 milljónir króna í ár.

Formenn hverrar nefndar fá hærri laun en almennir nefndarmenn.