Kristinn Guðmundsson fæddist á Akranesi 21. apríl 1949. Hann lést á líknardeild Landakots 3. desember 2024 í faðmi fjölskyldunnar.
Foreldrar Kristins voru Rafnhildur Katrín Árnadóttir, f. 18.11. 1924, d. 3.9. 2015, og Guðmundur Árni Guðjónsson, f. 9.8. 1921, d. 3.7. 2007.
Systkini Kristins eru: Helga, f. 2.12. 1947, gift Inga Steinari Gunnlaugssyni, þau eiga tvo syni, Þórhall Árna og Inga Steinar. Guðjón, f. 6.1. 1952, giftur Elínu Jóhannsdóttur, þau eiga þrjú börn, Jóhann, Malínu og Katrínu. Jónína, f. 25.3. 1953, gift Ásgeiri Kristjánssyni, þau eiga fjögur börn, Guðmund Rafn, Ólöfu Kristínu, Hrefnu og Árna Teit. Þórunn Birna, f. 14.6. 1959.
Hinn 19.9. 1969 kvæntist Kristinn Petreu Ingibjörgu Jónsdóttur, f. 14.11. 1949. Foreldrar Petreu voru Ragnheiður Þórðardóttir, f. 22.8. 1913, d. 20.5. 2002, og Jón Ágúst Árnason, f. 15.1. 1909, d. 23.7. 1977. Börn Kristins og Petreu eru: 1) Guðjón, f. 24.5. 1970, kvæntur Þóru Guðnýju Ægisdóttur, f. 7.7. 1972. Börn þeirra eru Karen, Agnar, Dagur og Ragnheiður Ingibjörg. Þau eiga eitt barnabarn, Ísak Breka Dags. 2) Jón Árni, f. 15.1. 1975, kvæntur Emmu Magdalenu Svensson, þau eiga soninn Ívar. Dætur Jóns Árna og Eddu Maríu Vignisdóttur eru Snæfríður og Hekla. 3) Ingibjörg, f. 9.6. 1978, sambýlismaður hennar er Elvio Coletinha. Synir Ingibjargar og Andrésar Jónssonar eru Franklín og Róbert.
Kristinn ólst upp á Akranesi og gekk þar í barnaskóla og gagnfræðaskóla. Hann byrjaði að læra byggingartæknifræði í Tækniskóla Íslands en söðlaði um og fór til Englands og lagði stund á textíltæknifræði í Leicester School of Technology og útskrifaðist þaðan 1973.
Að námi loknu vann hann hjá Checkmate Fashion ltd. Árið 1975 flutti fjölskyldan heim til Íslands og settist að á Seltjarnarnesi þar sem hún hefur búið síðan. Kristinn vann lengst af í sínu fagi, fyrst hjá Prjónastofunni Iðunni, Prjónastofunni Peysunni, Álafossi, Textílvörum og síðast hjá Sjóklæðagerðinni 66°N. Hann vann á unglingsárum við smíðar hjá Guðmundi Magnússyni á Akranesi. Á milli 2000 og 2008 var hann hjá ýmsum meisturum, síðast hjá Jónshúsum þar til honum var boðin vinna hjá Sjóklæðagerðinni þar sem hann vann til ársloka 2019, þá orðinn 70 ára.
Áhugamál Kristins voru knattspyrna, golf, bridge, músík, útivera og ferðalög. Á sínum yngri árum lék hann með Knattspyrnufélaginu Kára á Akranesi og síðar með ÍA allt upp í meistaraflokk. Var eitt sinn skipt inn á í leik á Laugardalsvelli fyrir sjálfan Ríkharð Jónsson. Hann æfði einnig sund og keppti fyrir ÍA. Kristinn naut þess að spila golf og var meðlimur í Golfklúbbi Ness og spilaði í sínu síðasta meistaramóti sumarið 2023 en þá hafði sjúkdómurinn þegar áhrif á getu hans til hreyfingar.
Hann var meðlimur í hljómsveitinni Kjörnum á Akranesi þar sem hann spilaði á gítar.
Kristinn og Petrea höfðu mikla ánægju af að ferðast um landið með gönguklúbbnum „Sjáum til“. Hafa gengið í öllum landsfjórðungum og eitt árið var gengið frá Hornbjargi suður í Bolungavík með allt á bakinu.
Útför Kristins fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 27. desember 2024, klukkan 15 og verður henni streymt.
Hlekkur á streymið:
https://mbl.is/go/cnzfp
Elsku pabbi minn, mikið var það sárt að þurfa að kveðja þig.
Ég er ein af þeim heppnu sem fengu að kalla þig pabba, ég var þar að auki yngst og pabbastelpan; ég var lukkudýrið þitt. Þegar fólk spurði mig hverjum ég var lík þegar ég var lítil, þá sagði ég alltaf að ég væri alveg eins og þú, hvað sem aðrir sögðu. Þú passaðir alltaf upp á mig og í hvert skipti sem ég lenti á hindrun varstu tilbúinn að hjálpa mér í gegnum hana. Þú gerðir ekki hlutina fyrir mig, heldur með mér, svo ég myndi verða sterkari og læra að gera það sjálf. Ég er svo þakklát að í stað þess að láta mig hætta að bera út blöð í hverfinu eftir eitt óheppilegt atvik, ákvaðst þú frekar að vakna með mér eldsnemma á hverjum morgni, í mörg ár. Fórst með mér út og sást til þess að ég var örugg á meðan ég hljóp rúntinn minn með blöðin. Þú vissir að þetta var mikilvægt fyrir mig. Þú ert sá sem hefur einhvern veginn vitað það þegar ég þurfti mest á stuðningi að halda og gafst hann án þess að ég þyrfti að biðja um það, og gerðir það á besta hátt.
Okkur fannst báðum einstaklega gaman að tísku og hönnun og gátum endalaust talað um munstur, efni, liti og form. Ég hlakkaði alltaf til að sýna þér nýjar flíkur eða efni sem ég rakst á því ég vissi að þér fannst það jafnspennandi og mér. Mér fannst svo gaman þegar við vorum að sauma brúðarkjólinn, þá vorum við öll saman, ég, þú og mamma, að gera það sem okkur fannst skemmtilegast. Þú hefur kennt mér að meta fallegt hannaða og vel gerða hluti. Þú kenndir mér líka að laga ýmislegt á heimilinu því ég mátti alltaf vera með þegar þú varst að smíða, mála eða skipta um kló á ýmsum heimilistækjum. Ég státa af þeirri færni enn þann dag í dag.
Takk fyrir alla fimmaurabrandarana og aulahúmorinn, ég veit ekki hver ég væri án þeirra hreinlega. Ég státa líka af því reglulega, þrátt fyrir dræmar undirtektir Franklíns og Róberts. Takk fyrir óteljandi fótanudd og fyrir hugleiðsluna fyrir svefninn. Takk fyrir hvatninguna í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur, betri og stoltari stuðningsmann er ekki hægt að hugsa sér. En mest af öllu takk fyrir að vera falleg manneskja og einstök fyrirmynd. Þú ert ljúfasta manneskjan sem ég hef nokkurn tímann kynnst á ævinni, alltaf jákvæður, bjartsýnn, blíður, hógvær, opinn, góður, hófsamur og umburðarlyndur; allir voru jafnir í þínu hjarta og þú tókst aldrei neitt frá neinum, þú bara gafst. Ég veit að þú heldur áfram að fylgjast með mér og strákunum og munum við gera okkar allra besta að lifa eftir þínum góðu og fallegu gildum.
Góðum mönnum gefin var
sú glögga eftirtekt.
Að finna líka fegurð þar,
sem flest er hversdagslegt.
(Jóhanna Kristjánsdóttir
frá Kirkjubóli)
Ég kveð þig með miklum söknuði, en fyrst og fremst með miklu þakklæti.
Þín
Ingibjörg.
Þakklæti er mér efst í huga á þessari stundu, að hafa átt þig að sem pabba er ómetanlegt og fyrir það er ég þakklátur. Alltaf jákvæður, stuðningsmaður númer eitt og það skein frá þér væntumþykjan sem við í FAB SIX fundum svo mikið fyrir. Krakkarnir nutu þeirra forréttinda að alast upp í sama húsi og það var alltaf stutt í ís hjá afa.
Það hafa allir sína sögu og okkar saga var einstaklega falleg og góð; „All gone“-glasið mitt í Leicester, unnum saman nokkur sumur við að hanna og framleiða peysur og svo varstu í ógleymanlegum stuðningsmannahópi okkar í yngri flokkum KR.
Það þarf mann með mikið og gott jafnaðargeð til að umbera ýmis uppátæki sem maður tók upp á og alltaf var það rætt á rólegum og leiðbeinandi nótum.
Ég mun reyna mitt besta að halda þínum gildum á lofti og vera almennt jákvæður, góður við náungann, vera opinn fyrir nýjungum, ekki dæma og brosa.
Að hafa þig á hliðarlínunni hefur verið mér og mínum mikill styrkur, hvort sem það er í boltanum eða almennt í lífinu. Alltaf varstu nálægt á tímum sem ég þurfti á þér að halda.
Nú ertu kominn á aðra hliðarlínu þar sem ég mun eflaust finna fyrir stuðningi þínum um ókomin ár.
Takk pabbi, elska þig.
Guðjón.
Hann afi minn var einstaklega góð og hlý sál. Við áttum fallegt samband frá fyrsta degi og vorum KG-gengið og heilsuðumst með leyniheilsingu KG-gengisins. Við vorum að vísu bara tvö í genginu en það var meira en nóg. Hann var rólegur maður og ég man aldrei eftir að hafa séð hann æsa sig, ekki einu sinni yfir fótbolta.
Honum fannst ég með gott listrænt auga og ég held það fari ekki á milli mála hvaðan ég hef það enda mikill listamaður sjálfur.
Það skipti engu máli hvað ég tók mér fyrir hendur þú varst alltaf minn stærsti stuðningsmaður og vissir að ég gæti allt sem ég ætlaði mér. Það er margt sem ég á eftir að sakna.
Ég á eftir að sakna þess að heyra fallegu söngröddina þína dynja yfir allar aðrar í veislum og þegar þú komst glaður inn um dyrnar og söngst svo glatt halló. Ég á eftir að sakna þess að hlusta á þig glamra á gítarinn þinn en kannski reyni ég að glamra á hann sjálf núna.
En mest af öllu á ég eftir að sakna þess að bara sitja með þér og njóta félagsskapar hvort annars.
Á sama tíma og það er sárt að þurfa kveðja þig veit ég að þú verður alltaf með mér og ég er þakklát fyrir svo margt en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að hafa fengið þig sem afa minn.
Sofðu rótt elsku afi, við pössum upp á ömmu.
Þangað til næst,
Þín
Karen.
Afi var alltaf svo áhugasamur um hvað maður var með í gangi í lífinu og alltaf tilbúinn í gott spjall, sérstaklega yfir ís. Það var alltaf til ís hjá afa.
Takk fyrir að styðja mig í fótboltanum og í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.
Ég mun sakna þín elsku afi en ég veit þú fylgist með mér áfram og passar upp á mig.
Karen, Agnar, Dagur og Ragnheiður Ingibjörg.
Hann elsku afi minn var einstakur maður sem stóð með mér í öllu, sama hvort það voru íþróttir eða skóli eða ég að klippa á honum hárið.
Þessi einstaki maður kenndi mér svo margt og verð ég ævinlega þakklátur fyrir það, það skipti ekki máli hvort það var að setja saman parketið uppi eða hvernig maður ætti að vera góður maður.
Þín verður sárt saknað elsku afi minn og verð ég ævinlega þakklátur fyrir það að Ísak Breki minn náði að hitta langafa sinn og ég veit að Ísak mun hjálpa okkur fjölskyldunni að hugsa um ömmu.
Hvíldu í friði og sofðu rótt.
Ísak Breki, Dagur og Helga.
Afi var alltaf til staðar fyrir mann á góðum sem slæmum dögum. Hann var yndislegur og hlýr og alltaf með bros á vör. Alltaf var hann hress og tilbúinn að hjálpa (ef það þurfti að græja eða laga eitthvað þá hoppaði hann í það nánast án þess að hann væri spurður). Svo var alltaf hægt að kíkja niður og horfa á fótbolta saman og spjalla yfir góðum leik. Ég elska þig afi og þú munt halda áfram að vera til staðar fyrir mig og veita mér styrk gegnum það súra og það góða.
Agnar.
Kær mágur minn, Kristinn Guðmundsson, Kiddi, hefur kvatt okkur eftir erfið veikindi síðustu misserin.
Hann var hógvær og hæglátur en skilur eftir stórt skarð sem fyllir okkur djúpum söknuði. Hann var mikið ljúfmenni, glaðvær og einstakur hagleiksmaður. Það lék allt í höndnunum á honum og því oft til hans leitað með aðstoð við ýmis verk.
Hann var einstaklega bóngóður og fljótur að leysa úr vandræðum. Hann var textíltæknifræðingur að mennt, flinkur og eftirsóttur á því sviði en að auki voru það jafnt hamarinn sem málningarpensillinn sem léku í höndum hans.
Hann var góður íþróttamaður, lék knattspyrnu með ÍA á yngri árum og góður golfari á fullorðinsárum. Hann var líka músíkalskur. Var í hljómsveit á unglingsárunum heima á Akranesi.
Hann hafði góða nærveru og aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni.
Þau voru einkar samstiga hjónin Peta systir mín og hann og ljúft að sjá hvað þau unnu vel saman og voru samrýnd. Þau héldu upp á 55 ára brúðkaupsafmælið sitt í september sl.
Þau voru gestrisin og gaman að heimsækja þau þegar þau bjuggu í Leichester árin 1969-1975.
Ég hef átt því láni að fagna að búa í nágrenni við þau eftir að þau fluttu heim og urðu fjölskyldur okkar mjög nánar.
Peta hefur staðið eins og klettur við hlið hans í blíðu og stríðu og voru síðustu misserin erfið eftir að heilabilun gerði vart við sig hjá Kidda er við sáum hann fjarlægjast smátt og smátt.
Með miklum trega kveð ég elsku mág minn en hugga mig við að hann sé laus undan þjáningum. Mér er þakklæti í huga fyrir það sem hann var okkur fjölskyldunni og fyrir góðar minningar sem við eigum í minningabankanum.
Elsku Peta mín, Guðjón, Jón Árni, Ingibjörg og fjölskyldan öll, Guð veri með ykkur og veiti ykkur styrk.
Margrét Jónsdóttir.
„Sæll, nafni,“ í lágum róm sagði sómamaðurinn Kristinn Guðmundsson jafnan þegar við hittumst. Nú er vinur minn horfinn á vit feðra sinna. Ég minnist hans með miklum hlýhug.
Nafna mínum kynntist ég í gegnum Gauja vin minn og Tótu. Það var ljóst við fyrstu kynni að þar fór afar vandaður og góður maður. Fámáll og yfirvegaður, hallmælti engum. Við ferðalok leitar hugurinn í allar áttir. Kiddi var þannig gerður að það var nánast útilokað annað en að taka þéttingsfast utan um hann og kreista er við hittumst. Margar voru bílferðirnar er Kiddi keyrði okkur Gauja í fótboltaleikina. Hann var án nokkurs vafa besti liðsstjórinn. Það var eftirtektarvert er veikindi knúðu dyra hjá Kidda hve mikinn stuðning hann fékk frá Petu sinni og Gauja sem alla sína tíð hefur búið í sama húsi og foreldrar hans. Börn og barnabörn veittu líka sinn stuðning, sum hver erlendis frá. Hjónakornin voru samrýmd svo eftir var tekið. Þrátt fyrir að það væri ljóst í hvað stefndi er maður aldrei nægilega undirbúinn þegar kallið kemur. Það var áfall að fá fréttirnar um að nú væri þessum kafla lokið og Kiddi fallinn frá. Fátækleg orð um ljúfan dreng sem alltaf var í góðu skapi og traustur gagnvart sínu fólki mega sín lítils á stundu sem þessari. Hugheilar kveðjur færum við á M28 til Petu, Gauja, Jóns Árna og Ingibjargar ásamt fjölskyldum þeirra með von um allan þann styrk sem kraftar geta veitt. Það voru forréttindi og heppni að kynnast þessum mikla meistara, fyrir það er ég afar þakklátur. Guð blessi Kidda, minningin um einstakan mann mun lifa að eilífu. „Góða ferð, nafni.“
Þinn vinur,
Kristinn Kjærnested.
Ég kynntist Kidda fyrst þegar hann tók við af mér sem verksmiðjustjóri Álafoss í Mosfellsbæ fyrir um það bil fyrir 35 árum. Ég flutti þá norður til Akureyrar og tók þar við sama starfi hjá sama fyrirtæki sem starfrækti bæði starfsemi fyrir norðan og sunnan. Það tókust strax góð kynni með okkur Kidda og ég sá strax að þar var á ferðinni yfirburðamaður í þekkingu á okkar iðnaði enda vel menntaður maður í þeim fræðum sem textíltæknifræðingur menntaður í Englandi. Við fórum saman á textílsýningar og kynntumst vel og varð vel til vina alla tíð, náðum einstaklega vel saman þó ólíkir séum, ég hvatvís og óþolinmóður, hann einstakt ljúfmenni sem lét öllum líða vel í kringum sig. Leiðir okkar skildi vinnulega séð þegar Álafoss fór í gjaldþrot en þær áttu eftir að liggja saman síðar og var það þegar ég réð Kidda í starf hjá Sjóklæðagerðinni 66°Norður. Þá var Kiddi að nálgast sextugsaldurinn og ég man að mörgum innan fyrirtækisins fannst ég vera að ráða fullmikið gamalmenni en ég sagði við úrtölumenn að ég vissi nákvæmlega hvað ég væri að gera, hér fengi ég mann sem væri einstaklega góð persóna og fagmaður fram í fingurgóma, í kaupbæti mann sem færi ekki frá okkur fyrr en hann færi á eftirlaun, með þessu væri stöðugum starfsmannaskiptum lokið. Kiddi vann hug og hjörtu allra í 66°Norður, var þessi stóíska ró sem við öll þurfum og er svo gott að hafa í kringum sig. Alltaf var hægt að treysta á að Kiddi kláraði verkin sín óaðfinnanlega og var hann ómetanleg hjálp fyrir hönnuði fyrirtækisins og framleiðsludeild. Hann var í mjög miklu uppáhaldi hjá framleiðslubirgjum 66°Norður fyrir sína einstöku framkomu, alúð sem og sína fagmennsku sem var við brugðið. Ég get þakkað Kidda það að við hjónin byrjuðum í golfi, ég hafði verið að hlusta á hann og Jan tala mikið um golf þegar við fórum saman í hádegismat, sem var æði oft, það var ekki annað hægt en að smitast af þessari bakteríu af þeim tveim og það varð til þess að við hjónin byrjuðum í golfi. Í framhaldi bættust við fleiri samverustundir því við spiluðum oft saman við hjónin og Kiddi og Peta, fórum saman í golfferðir og hittumst oft á sumrin á golfvellinum. Kidda verður sárt saknað en minningin um góðan dreng lifir með mér það sem eftir er ævinnar, ég mun alltaf minnast góðu stundanna sem við áttum saman bæði í leik og starfi.
Að lokum vil ég votta Petu og börnum þeirra mína innilegustu samúð.
Hermann Bærings Sigursteinsson.
Kær vinur er kvaddur, Kristinn, þessi hógværi og trausti félagi sem við höfum átt svo margar ánægjustundir með á mörgum undanförnum árum. Það var alltaf gaman hjá okkur, hvort heldur var í ferðalögum innanlands eða í þeim utanlandsferðum sem við fórum í. Við minnumst skemmtilegra stunda í ferðum með okkar ágæta ferðahópi „Sjáum til“. Kiddi var kannski ekki háværasti félaginn í hópnum, en alltaf glaður, viðræðugóður og skemmtilegur.
Hann hafði næmt auga fyrir fallegri hönnun en ekki síður fyrir litum og fegurð náttúrunnar. Það hrannast upp minningar um ótal gönguferðir vítt og breytt um landið og ekki síst um holt og hæðir í okkar næsta nágrenni.
Á heimili þeirra Kidda og Petu hefur verið tekið á móti okkur með mikilli rausn. Góður matur og það sem mest er um vert, gott atlæti.
Undanfarin ár hafa verið erfið okkar manni. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með hvernig Kiddi og fjölskylda hans tókust á við illvígan sjúkdóm. Tekist var á við þau erfiðu verkefni sem komu upp á með ást, virðingu og reisn.
Elsku Peta vinkona okkar, megi allar góðar vættir vernda þig og styrkja. Guðjón, Jón Árni og Ingibjörg og fjölskyldur ykkar, innilegustu samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur.
Auður Björg og
Kristinn (nafni) Gíslason.