Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Jón Jens Kristjánsson frétti af síðasta jólasveininum sem kom til byggða:
Ketkrókur sá tólfti á kotum þekkti mun
er glenntist hann um sveitirnar í gulri viðvörun
og sá á einum bænum að sett var út á pall
sauðalæri verðlagt á 15.000 kall.
Vetrarmynd nefnist þessi fallegi bragur eftir Gunnar J. Straumland:
Rauðgreni hlífir himins slör,
hugmyndir svífa í stillu.
Hundslappadrífa hylur för,
hægt tifar líf í villu.
Svífandi fiður, frosin orð,
sífrerabiðukolla.
Lágstemmdur niður nærir storð,
nifl gefur frið hjá skolla.
Kristallatjald með töframátt
tónar við galdrakvæði.
Nostrar við kalda norðanátt
nóttin með falda þræði.
Langmyrkvuð dögun dróma frá
dansar við þögul hljóðin.
Tunglskinið sögur sálar þá
sækir í bjöguð ljóðin.
Stjörnum prýdd gríma glæðir nátt,
glansar á hrímsins nálum.
Ljósgjafans tími lengist brátt
lifnar þá skíma í sálum.
Umhleypingar hafa sett mark sitt á árið sem er að líða, að mati Sigurlínar Hermannsdóttur, sem yrkir í orðastað veðurfræðings:
Í framhaldi munum við fá lægð
ja, fjölmargar, og engin er smálægð.
Þær sigla svo þétt
– segir í frétt –
að sannlega kallast hver nálægð.
„Ný stjórn með sólhvörfunum“ er yfirskrift þessarar vísu Magnúsar Halldórssonar:
Undan víkur andstreymið,
ótal bjöllur hljóma.
Með sólhvörfunum sjáum við,
sindra kvennablóma.
Friðrik Steingrímsson í Mývatnssveit er ekki bjartsýnn á samstarfið:
Varla nokkurs vænta má
þó veifi fullri skjóðu,
Valkyrjurnar völdin fá,
verði þeim að góðu.
Að síðustu yrkir Pétur Stefánsson:
Sæluríki sér hún dreymin
sem og farsæld vítt um ból.
Stjórnin þessi þaut í heiminn
þremur nóttum fyrir jól.