Draumur Benoný Breki Andrésson er spenntur að fara af stað hjá Stockport County á Englandi
Draumur Benoný Breki Andrésson er spenntur að fara af stað hjá Stockport County á Englandi — Ljósmynd/Stockport
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Benoný Breki Andrésson skrifaði fyrr í mánuðinum undir þriggja og hálfs árs samning við enska C-deildarfélagið Stockport County en félagið keypti hann af KR. Samningurinn tekur gildi 1

England

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Benoný Breki Andrésson skrifaði fyrr í mánuðinum undir þriggja og hálfs árs samning við enska C-deildarfélagið Stockport County en félagið keypti hann af KR. Samningurinn tekur gildi 1. janúar.

Benoný, sem er 19 ára gamall, var markakóngur Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð með 21 mark í 26 leikjum. Bætti hann í leiðinni markametið í efstu deild og var besti ungi leikmaður Íslandsmótsins samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.

„Þeir höfðu sýnt mér áhuga í smá tíma. Ég hafði vitað af áhuga þeirra í 2-3 vikur þegar ég skrifaði undir. Ég hafði strax mikinn áhuga á að fara til Stockport eftir að ég heyrði í þeim og hlutirnir gerðust hratt,“ sagði Benoný í samtali við Morgunblaðið.

Erfitt að segja nei

Stockport er um 11 kílómetrum suður af Manchester og er Benoný spenntur að flytja til Englands, en önnur félög í öðrum löndum sýndu markakónginum einnig áhuga. Hann verður fyrsti Íslendingurinn til að spila fyrir Stockport.

„Þegar maður fær tilboð frá Englandi er erfitt að segja nei. Staðsetningin á félaginu er góð og svo er liðið gott og í sterkri deild. Ég varð strax mjög áhugasamur þegar ég heyrði af áhuga þeirra. Það var einhver áhugi á Norðurlöndunum en þegar Stockport sýndi mér áhuga var þetta auðvelt val. Ég setti allt annað til hliðar og einbeitti mér að þessu tækifæri,“ sagði hann.

Benoný fagnaði jólunum með fjölskyldu og vinum á Íslandi en hélt svo til Englands í gær, fimmtudag. Hann verður löglegur á nýársdag en þá á Stockport heimaleik við Birmingham. Framherjinn mun þó væntanlega þurfa að vera þolinmóður fyrst um sinn hjá nýju félagi í nýju landi.

„Ég er löglegur 1. janúar en ég mun ekki spila leikinn þá. Fyrstu vikurnar snúast um að koma mér inn í þetta og aðlagast. Ég byrja að spila á réttum tímapunkti. Við erum ekki búin að ræða mitt hlutverk þannig séð. Fyrst ætla ég að koma mér inn í menninguna og félagið og svo ætla ég að berjast fyrir sætinu mínu í liðinu,“ sagði Benoný.

Uppganga Stockport undanfarin ár hefur vakið mikla athygli en liðið var í sjöttu efstu deild árið 2019. Stockport hefur því farið upp um þrjár deildir á sex tímabilum og setur nú stefnuna á B-deildina en liðið er í fimmta sæti eftir tap fyrir Huddersfield á útivelli í gær, 1:0.

„Stefnan hjá liðinu er að fara upp í B-deildina. Þetta lið er búið að vinna mikið á undanförnum árum og nú er planið að fara upp í næstefstu deild,“ sagði Benoný, sem hefur skorað fjögur mörk í 18 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.

Vill stækka völlinn

Árangur Stockport á undanförnum árum er engin tilviljun. Eigandinn Mark Stott er vel efnaður og hefur dælt peningum í félagið. Fyrir vikið eru aðstæðurnar fyrsta flokks. Liðið leikur á Edgeley Park-vellinum sem tekur rúmlega 10.000 manns í sæti. Stefnt er að því að stækka völlinn til að hann geti tekið um 20.000 manns.

Þá ætlar Stott að koma liðinu upp í ensku úrvalsdeildina í fyrsta skipti en besti árangur Stockport frá upphafi er áttunda sæti í B-deildinni árið 1998.

„Aðstæðurnar þarna eru geggjaðar. Æfingasvæðið er gamla æfingasvæði Manchester City, allar aðstæður eru mjög flottar og völlurinn er einn sá besti í deildinni. Það á líka að stækka völlinn á næstu 2-3 árum,“ sagði Benoný.

Eins og flestir aðrir knattspyrnumenn á þessum slóðum mun sóknarmaðurinn búa í Manchester. Hann verður fyrst um sinn með föður sínum Andrési Þór Björnssyni.

„Ég mun búa í Manchester. Það tekur enga stund að keyra á æfingar. Pabbi flytur með mér og verður hjá mér til að byrja með og eftir það verð ég bara einn. Það er algjör draumur að rætast að vera búinn að semja við enskt félag og ég get ekki beðið eftir að komast af stað,“ sagði Benoný spenntur.

Harður heimur í atvinnumennsku

Benoný var aðeins 16 ára gamall þegar hann samdi við ítalska félagið Bologna. Var hann í herbúðum ítalska félagsins frá 2021 til 2023, áður en hann samdi við KR þar sem hann sló síðan í gegn. Sóknarmaðurinn ungi telur reynsluna frá því á Ítalíu koma til með að hjálpa sér í nýju ævintýri.

„Sú reynsla mun 100 prósent koma sér mjög vel. Þetta er mjög erfiður og harður heimur í atvinnumennsku og það er gott að vera með reynslu af því að búa og spila erlendis. Ég mun kunna betur á hluti eins og að takast á við mótlæti,“ sagði hann.

Helsta markmið Benonýs hjá nýju félagi og í nýju landi er einfalt, en hann vill halda áfram að hrella markverði andstæðinganna.

„Ég sem framherji vil halda áfram að skora mörk eins og ég hef gert síðustu tímabil. Að skora er það skemmtilegasta sem ég geri,“ sagði Benoný.

Það tekur tæpan klukkutíma að keyra frá Stockport og á Anfield heimavöll Liverpool, þar sem Benoný dreymir um að spila heimaleiki einn daginn.

„Draumurinn er að spila fyrir Liverpool, það er mitt lið, og að vera kominn til Englands er geggjað,“ sagði Benoný.

Sá fjórði í deildinni

Benoný er fjórði Íslendingurinn til að skipta yfir í félag í ensku C-deildinni á þessari leiktíð og þau eiga það öll sameiginlegt að vera í toppbaráttunni.

Æskuvinirnir Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson fóru báðir í Birmingham fyrir leiktíðina en liðið er í toppsætinu með 48 stig eftir sigur á Burton í gær, 2:0. Willum er fastamaður í byrjunarliði Birmingham en Alfons hefur fengið fá tækifæri.

Þá samdi Jón Daði Böðvarsson við Wrexham á dögunum á skammtímasamningi. Hann meiddist fljótlega eftir komuna til velska félagsins og hefur því lítið spilað. Wrexham er sem stendur í 3. sæti eftir 2:1-sigur á Blackpool í gær.

Þá eru þrenn íslensk hjón á meðal eigenda Burton, sem er í öllu verri málum því liðið er í botnsætinu með aðeins 12 stig og níu stigum frá öruggu sæti.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson