Pétur Hafsteinn Pálsson
„Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sérfræðinga sem mun rýna aðgerðir viðbragðsaðila tengdar jarðhræringunum á Reykjanesskaga. Í þessu hættuástandi hafi lykilaðilar þurft að taka erfiðar ákvarðanir hratt og örugglega. Afleiðingar slíkra ákvarðana geta til að mynda haft áhrif á fjárútgjöld úr ríkissjóði og áhrif á réttindi hins almenna borgara til búsetu og atvinnu,“ segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Þessi ákvörðun dómsmálaráðherra er fagnaðarefni og leiðir hugann að Fasteignafélaginu Þórkötlu, sem fékk það göfuga hlutverk frá stjórnvöldum að verja eigið fé Grindvíkinga og stuðla að endurkomu þeirra.
Á heimasíðu félagsins kemur fram að tilgangurinn er að styðja við Grindvíkinga og verja fjárhag þeirra og velferð í ljósi óvissuástandsins. „Að lokum er markmið okkar þó alltaf að gera íbúum kleift að kaupa eignir sínar aftur þegar ljóst er að skilyrði hafa batnað, svo blómleg byggð geti fest rætur í Grindavík á ný,“ segir þar orðrétt.
Andstætt flestum þeim er komu að hinum ýmsu ákvörðunum sem dómsmálaráðherra mun skoða fengu stjórnendur Þórkötlu góðan tíma til að meta áhrif sinna ákvarðana. Sá leiði vani er hins vegar að myndast á Íslandi að allir sem tengjast málum beint eru taldir óhæfir til að vera með í ráðum. Samráð er það kallað þegar þeir hinir sömu eru upplýstir um þær ákvarðanir sem á að taka. Þetta er ástæða þess, og er ekki einsdæmi er varðar Grindavík, að stjórnendur Þórkötlu komu röngum ákvörðunum sínum í gegn.
Fyrsta ákvörðun þeirra var að tilkynna að sá sem ekki myndi selja fyrir árslok 2024 myndi missa af tækifærinu. Það er ástæðan fyrir því að nær allir tóku sömu ákvörðunina. Samhliða þessu lá fyrir að fólk hefði 3 ár til að meta hvort það vildi koma aftur. Og nú var eðlilega spurt: Hefði það skipt máli hvort þessi ákvörðun væri tekin einhvern tímann á þessum 3 árum? Hefði það ekki verið betra fyrir fasteignafélagið að fækka í hópi þeirra sem sæju sig knúna til að afhenda þeim eignirnar með öllum þeim kostnaði sem því fylgdi?
Næsta ákvörðun var sú að við afhendingu fasteigna, sem Þórkatla getur ekki nýtt í neitt á næstu 3 árum, yrði að tæma allt úr húsunum að viðlögðum sektum vegna eyðingar þess sem skilið var eftir. Þessu fylgdi einhver mesta óþarfa sóun á eignum fólks á síðari tímum þar sem innbú þess var keyrt á haugana eða gefið nærstöddum. Á haugana eina í Grindavík fóru á milli þrjú og fjögur hundruð tonn af búslóðum. Nógu erfitt var fyrir fólk að koma sér fyrir þó það væri ekki að leigja sér geymsluhúsnæði fyrir búslóð sem enginn vissi hvort myndi nýtast eða ekki. Með þessu slitnaði líka í mörgum tilvikum tenging eigenda við húseignina. Hversu margir hefðu þegið að hafa búslóðina sína óhreyfða gegn tryggingu um að fjarlægja hana ef og þegar sá tími kæmi. Þannig var augljóslega hægt að spara útgjöld allra, forðast sóun, halda tengslum eigenda við heimili sitt og auka líkur á endurkomu íbúanna, sem er jú meginmarkmið aðgerðanna.
Þriðja stóra ákvörðunin er nú í farvatninu sem eins og hinar tvær vinna gegn því sem stefnt er að. Nýting forleiguréttarins stendur nú þeim til boða sem það vilja en með þeim skilyrðum að ekki megi gista í húsunum. Þar með er girt fyrir þann möguleika að fólk geti mátað sig við nýjan veruleika með því að gista tímabundið í heimabyggðinni. Fólk sem nú er dreift um víðan völl í félagslegri einangrun hefði örugglega áhuga á að gera það og væntanlega myndu einhverjir vinahópar og nágrannar ákveða að gera það sameiginlega. Þannig væri hægt að freista þess að fá til baka einhvern örlítinn hlut af því samfélagi sem fólk syrgir svo djúpt. Og í stóru myndinni um endurreisnina eru þetta kannski þeir undanfarar sem gera munu gæfumuninn. Skýringin á þessu skilyrði er sú að því fylgi svo mikil ábyrgð að „leyfa“ fólki að vera að næturlagi í Grindavík.
Endurreisn Grindavíkur mun byggjast á öryggi og atvinnu. Af öryggisþættinum er það að segja að fyrir utan eitt hræðilegt vinnuslys þá hefur öllum þeim sem til Grindavíkur hafa komið tekist að vera þar áfallalaust, sinna vinnu og búa á eðlilegan hátt enda öryggismál öllum hugleikin hvar sem borið er niður. Hetjur hraunsins hafa fyrir opnum tjöldum sýnt hvað hægt er að gera sé öryggisreglum fylgt. Allir sem hafa raunverulegan möguleika á að halda uppi atvinnu hafa gert það og nokkrir til viðbótar eru að koma sér í gírinn og búast til heimferðar. Nú þarf að huga að því hvernig búsetan byggist upp.
Grindvíkingar eru þakklátir Almannavörnum vegna allra varnargarðanna og staðfestunnar í að verja byggðina, og þeir gera sér grein fyrir því að þær taka allt yfir á neyðarstigi. Þess á milli kunna Grindvíkinga að meta föðurlegar ábendingar lögreglustjóra um að fara varlega á svæðinu. En menn kunna því ekki vel þegar fasteignasalar búa til skriflega skilmála um öryggishegðun fólks og skilyrða það í samningum, það er engan veginn þeirra hlutverk. Það er kominn tími til að treysta Grindvíkingum fyrir Grindavík.
Með ósk um gleðileg jól.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vísis hf.