Hafsteinn Óli Ramos Roca leikmaður Gróttu er í landsliðshópi Grænhöfðaeyja fyrir heimsmeistaramót karla í handknattleik og mætir íslenska landsliðinu í fyrsta leiknum í Zagreb í Króatíu 16. janúar. Skyttan lék sína fyrstu leiki með liðinu í síðasta mánuði og hefur nú verið valinn í hópinn sem mætir til leiks á HM. Hafsteinn fékk ríkisborgararétt í sumar en faðir hans er frá Afríkuríkinu en móðir hans er íslensk. Hann er örvhent skytta og lék á sínum tíma með yngri landsliðum Íslands og vann til silfurverðlauna á EM með U18 ára-landsliðinu.
Sigurður Jefferson Guarino var í 28 manna æfingahópi bandaríska landsliðsins fyrir mótið. Sigurður á íslenska móður og bandarískan föður og getur því spilað með bandaríska liðinu en var að lokum ekki valinn í lokahópinn. Bandaríska liðið verður með Portúgal, Noregi og Brasilíu í E-riðli á HM.
Þýska handknattleiksfélagið Großwallstadt hefur leyst Þjóðverjann Nils Kretschmer undan samningi eftir að hann féll á lyfjaprófi. Kretschmer, sem var fyrirliði liðsins, féll á lyfjaprófi í byrjun þessa mánaðar en ekki var gefið út hvaða ólöglegu efni voru í blóði Þjóðverjans. Großwallstadt leikur í næstefstu deild þýska handboltans.
Snjóbrettakonan Sophie Hediger, sem var landsliðskona Sviss, lést á aðfangadag í snjóflóði aðeins 26 ára gömul. Svissneska skíðasambandið greindi frá tíðindunum í yfirlýsingu. Atvikið gerðist í fjallabænum Arosa í Sviss. Hediger keppti meðal annars fyrir hönd Sviss á Vetrarólympíuleikunum í Peking árið 2022.
Spánverjinn Carlos Coreberan hefur ákveðið að hætta með enska B-deildarliðið West Brom til að taka við Valencia í heimalandinu. Hann gerði samning við Valencia til ársins 2027. Corberan tók við West Brom í október 2023 og kom liðinu í umspil um sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Þar tapaði liðið í undanúrslitunum fyrir Southampton, sem fór síðan upp. Hann hefur einnig stýrt Huddersfield og var aðstoðarmaður Marcelo Bielsa hjá Leeds.
Enski knattspyrnudómarinn David Coote mun ekki áfrýja brottrekstri sínum úr ensku dómarasamtökunum PGMOL. Coote var rekinn úr samtökunum fyrir ummæli sín um Jürgen Klopp en hann fór ófögrum orðum um Klopp, þáverandi stjóra Liverpool, í myndskeiði sem lak á netið. Á öðru myndbandi mátti sjá Coote sjúga hvítt duft upp í nefið á sér. Coote er einnig til rannsóknar hjá enska- og evrópska knattspyrnusambandinu.
Mason Mount, miðjumaður hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester United, verður frá keppni þar til í mars. Mount meiddist enn einu sinni í sigri United á nágrönnum sínum í Manchester City, 2:1, þann 15. desember síðastliðinn. Er nú komið í ljós að meiðslin muni halda honum frá keppni í um þrjá mánuði.