Skoraði Curtis Jones fagnar marki sínu í gærkvöldi en hann kom Liverpool yfir í 2:1 snemma í seinni hálfleik áður en Mo Salah gerði þriðja markið.
Skoraði Curtis Jones fagnar marki sínu í gærkvöldi en hann kom Liverpool yfir í 2:1 snemma í seinni hálfleik áður en Mo Salah gerði þriðja markið. — AFP/Paul Ellis
Liverpool er með sjö stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir endurkomusigur á Leicester, 3:1, á heimavelli í gærkvöldi. Eftir 17 leiki er Liverpool með 42 stig og leik til góða á Chelsea og Nottingham Forest í öðru og þriðja sæti

Enski boltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Liverpool er með sjö stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir endurkomusigur á Leicester, 3:1, á heimavelli í gærkvöldi. Eftir 17 leiki er Liverpool með 42 stig og leik til góða á Chelsea og Nottingham Forest í öðru og þriðja sæti.

Arsenal getur þó minnkað forskotið í sex stig með sigri á Ipswich á heimavelli í kvöld. Takist það á Liverpool leik til góða á Arsenal og getur aukið forskotið á toppnum upp í níu stig.

Jordan Ayew kom Leicester yfir strax á sjöttu mínútu í gær og var staðan 1:0 þar til í uppbótartíma fyrri hálfleiks en þá jafnaði Cody Gakpo, sem hefur verið mjög heitur að undanförnu.

Curtis Jones kom Liverpool í 2:1 á 49. mínútu og Mo Salah, einn allra besti leikmaður heims um þessar mundir, gerði þriðja markið á 82. mínútu og þar við sat.

Eftir leikinn er Leicester í 18. sæti, sem er fallsæti, með 14 stig en liðið hefur tapað þremur leikjum í röð.

Haaland nýtti ekki víti

Manchester City tapaði enn og aftur stigum er liðið fékk Everton í heimsókn. Urðu lokatölur 1:1. Bernardo Silva kom City yfir á 14. mínútu, áður en Iliman Ndiaye jafnaði fyrir Everton.

Erling Haaland fékk kjörið tækifæri til að koma City aftur yfir á 53. mínútu en Jordan Pickford í marki Everton varði frá honum víti og jafntefli varð niðurstaðan.

City er nú með einn sigur í síðustu 13 leikjum og í baráttu um að ná Meistaradeildarsæti, frekar en baráttu um Englandsmeistaratitilinn.

Sigurmark í uppbótartíma

Chelsea fór illa að ráði sínu er liðið mætti Fulham á heimavelli. Cole Palmer kom Chelsea yfir á 16. mínútu og var staðan 1:0 allt fram að 82. mínútu þegar Harry Wilson jafnaði. Stefndi í 1:1-jafntefli en varamaðurinn Rodrigo Muniz skoraði sigurmark Fulham á fimmtu mínútu uppbótartímans. Chelsea hefur nú tapað stigum í tveimur leikjum í röð; gegn Everton og Fulham.

Þrjú töp í röð hjá United

Manchester United tapaði sínum þriðja leik í röð, á útivelli gegn Wolves. Urðu lokatölur 2:0. Vendipunkturinn kom á 47. mínútu þegar Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Ellefu mínútum síðar skoraði Matheus Cunha beint úr horni og varamaðurinn Hee-Chan Hwang innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Rúben Amorim hefur stýrt United í tíu leikjum, unnið fjóra, tapað fimm og gert eitt jafntefli.

Með sigrinum fór Wolves upp úr fallsæti og upp í 17. sæti, þar sem liðið er með 15 stig, einu stigi meira en Leicester.

Nottingham Forest fór upp í þriðja sæti með sterkum heimasigri á Tottenham, 1:0. Anthony Elanga gerði sigurmarkið á 28. mínútu. Tottenham er í basli í 11. sæti eftir erfitt gengi undanfarnar vikur.

Newcastle fór upp í fimmta sæti með sannfærandi sigri á Aston Villa á heimavelli, 3:0. Anthony Gordon, Alexander Isak og Joelinton gerðu mörkin. John Durán hjá Aston Villa fékk beint rautt spjald á 32. mínútu.

Southampton er enn á botninum og níu stigum frá öruggu sæti eftir tap fyrir West Ham, 1:0. Jarrod Bowen gerði sigurmarkið á 59. mínútu.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson