Netsala flugelda hjá Hjálparsveit skáta í Reykjavík hófst formlega þann 20. desember síðastliðinn, og eru pantanir þegar farnar að berast, segir Kjartan Óli Valsson, yfirmaður flugeldasölu hjá sveitinni, í samtali við Morgunblaðið. Lögum samkvæmt er smásala skotelda þó aðeins heimil frá 28. desember á ári hverju og verða því allar pantanir afgreiddar frá og með morgundeginum.
Kjartan segir viðbúið að aukinn þungi muni færast í markaðssetningu og sölu flugelda á komandi dögum, en að hans sögn hefur undirbúningur á sölunni gengið með besta móti. Allir flugeldar séu komnir í hús, sölustaðir séu tilbúnir og bíði nú eftir því að taka á móti viðskiptavinum.
Nýjar skottertur
Hvað varðar úrvalið á flugeldum í ár segir Kjartan að þeir allra skotglöðustu geti sannarlega fundið flugelda við hæfi, en sveitin sé með þrjár nýjar skottertur í bæði millistærð og af stærri gerðum auk þess sem hin sívinsæla kaka ársins muni ekki valda vonbrigðum.
Samkeppnin af hinu góða
Á undanförnum árum hefur aukin samkeppni færst í flugeldasölu, en þó svo að hann fagni samkeppninni segist Kjartan ekki hafa fundið mikið fyrir henni enda vilja margir halda tryggð við og styrkja starf björgunarsveitanna. sveinnv@mbl.is