Breytingar Nýtt hverfi mun rísa á svokölluðum Veðurstofureit.
Breytingar Nýtt hverfi mun rísa á svokölluðum Veðurstofureit. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Borgarráð samþykkti á fundi þann 17. desember síðastliðinn tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir hinn svokallaða Veðurstofureit, en þar er áformað nýtt skipulag fyrir um 200 íbúðir auk bílastæðahúss sem fyrirhugað er að geti risið á svæðinu Í…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Borgarráð samþykkti á fundi þann 17. desember síðastliðinn tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir hinn svokallaða Veðurstofureit, en þar er áformað nýtt skipulag fyrir um 200 íbúðir auk bílastæðahúss sem fyrirhugað er að geti risið á svæðinu

Í tillögunni er gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi Veðurstofunnar á reitnum en að öll starfsemi verði á einum stað, á lóð nr. 7 við Bústaðaveg.

Tillagan bíður nú endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar, en fulltrúar minnihlutans gerðu athugasemdir við skort á innviðauppbyggingu, þar sem ekki er gert ráð fyrir að fjölga þurfi rýmum í leikskólum og grunnskólum hverfisins vegna hinnar miklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á svæðinu.

Einnig var bent á að útfærsla bílastæðamála væri ófullnægjandi, og að hætta væri á að íbúar hins nýja hverfis legðu bílum sínum í nærliggjandi götum sökum skorts á bílastæðum. Sömuleiðis voru gerðar athugasemdir við skuggavarp, en samkvæmt tillögunni eru byggingar allt að fimm hæða háar heimilar.

Veðurstofan gerði einnig athugasemd við tillöguna, en gagnrýnt var að ekki væri nægilegt tillit tekið til starfsemi hennar, og þá væru framtíðarmöguleikar hennar til uppbyggingar innan lóðar skertir.

Einnig var bent á að taka yrði tillit til hugsanlegrar kvikasilfursmengunar á afmörkuðu svæði þar sem eldri mælireitur Veðurstofunnar stóð, en talið er að kvikasilfur frá tugum mæla hafi lekið út í jarðveginn á síðastliðnum 50 árum.