Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Gífurlega margar fjölskyldur þurfa á ári hverju að leita aðstoðar hjálparsamtaka í kringum jólin þar sem þær fá mat og pakka úthlutaða. Útlit er fyrir að svipaður fjöldi fólks hafi notið þeirrar aðstoðar í ár og í fyrra en að sögn talsmanna gengu úthlutanirnar vel fyrir sig.
Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, segir að hjálparstarf nefndarinnar hafi gengið ótrúlega vel í ár. Svipað margir hafi leitað til nefndarinnar og í fyrra en hún nefnir að það séu um 2.000 heimili sem Mæðrastyrksnefnd aðstoðar.
„Þannig að þetta versnar ekki á milli ára, mér finnst það nú allavega jákvætt,“ segir Anna í samtali við Morgunblaðið.
Nefnir hún að komið sé upp nýtt tölvukerfi hjá nefndinni sem einfaldar skipulag og kemur í veg fyrir að fólk þurfi að bíða í biðröð eftir úthlutunum. Því var boðinn jólamatur dagana 17., 18., 20. og 23. desember þar sem hægt var að velja á milli hamborgarhryggs og læris með jólameðlæti, en einnig var boðið upp á hakk og kjötbollur.
Þann 19. desember segir Anna að húsi nefndarinnar hafi svo verið breytt í jólagjafaland þar sem úthlutað var jólagjöfum en hún reiknar með að það séu um 500 börn sem fái pakka sem koma frá nefndinni.
Segir hún að gjöfunum sé þá komið fyrir í hillum í húsi nefndarinnar og foreldrar geti svo komið og valið gjafir fyrir börnin sín.
Þá er ekki ódýrt að standa fyrir úthlutunum eins og Mæðrastyrksnefnd gerir í kringum jólin en Anna nefnir að úthlutanirnar kosti nefndina um 50 milljónir króna og ítrekar hún því þakklæti nefndarinnar til þeirra sem styrkja hana.
Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, segir mikið hafa verið að gera hjá samtökunum í ár. Úthlutunardagar hafi klárast stuttu fyrir jól og gengið vel.
Vonast eftir færri fjölskyldum
Hann segir að ekki sé búið að taka saman nákvæmar tölur yfir fjölda þeirra sem leituðu til samtakanna í ár en hann segir þó fjöldann vera töluverðan.
Segir Bjarni Hjálparstarf kirkjunnar hafa aðstoðað 1.700 fjölskyldur um land allt á síðasta ári og segist hann telja líkur á að svipaður fjöldi hafi notið stuðnings í ár en vonar þó að fjölskyldurnar hafi verið færri.
Þá nefnir Bjarni að samtökin hafi verið alveg fram á 22. desember að klára að afhenda og ganga frá gjöfum til fólks en einnig gáfu samtökin inneignarkort í matvöruverslunum og segir Bjarni samtökin vera þakklát þeim sem tóku þátt í jólasöfnun þeirra.
Hlutu samtökin mikið af styrkjum m.a. frá ýmsum félögum og stéttarfélögum og nefnir Bjarni að einnig komi mikill stuðningur til samtakanna frá almenningi, þá sérstaklega í kringum jólin.
Fjölskylduhjálp Íslands býður upp á stórar úthlutanir á tveimur stöðum í hverri viku allt árið og leita um 2.400 fjölskyldur til samtakanna í desember og í raun allt árið þar sem þær fá matarpakka.
Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálpar segir að aðeins fleiri sæki um stuðning í desember en það hafi þó ekki mikil áhrif á starf samtakanna.
Hún segir samtökin ekki hafa haft nóg af jólapökkum til að gefa en starfsemina að öðru leyti gengið vel.
Enginn hafi farið matarlaus frá samtökunum og að boðið hafi verið upp á neyðaraðstoð á Þorláksmessu.
Þá segir hún að opið verði hjá Fjölskylduhjálp Íslands í dag og 30. desember þar sem fjölskyldum í neyð verði veittur matarpakki.