Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Bendedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að sífellt sé verið að skoða leiðir til að reka bankann með skilvirkari hætti.
Þetta segir Benedikt í viðtali í viðskiptahluta Dagmála, spurður hvort það hafi komið til skoðunar að sameina Arion banka og Kviku banka, en fjallað var um þann orðróm í viðskiptamiðlum fyrir nokkru.
Benedikt segir að rekstur fjármálafyrirtækja verði sífellt flóknari.
„Við erum að reka minnstu kerfislæga mikilvægu banka í Evrópu. Það er eitt og sér áskorun að reka fyrirtæki í litla hagkerfinu okkar með okkar gjaldmiðil þannig að ég held að það ætti alltaf að vera til skoðunar hvaða tækifæri eru í því að gera bankarekstur skilvirkari til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir hann og bætir við að ýmsar skorður séu til staðar út frá samkeppnislegu sjónarmiði sem eru í vegi fyrir frekari samþættingu á fjármálamarkaði.
Spurður hvaða tækifæri hann sjái í frekari samþættingu segir Benedikt að tækifæri felist einkum í að skapa öflugri einingar.
„Það eru tækifæri í að skapa öflugri einingar þar sem fjármálastöðugleiki og rekstraröryggi er meira. Nýjasta áskorunin í rekstri fjármálafyrirtækja eru netógnir og svikastarfsemi. Við þurfum því að hafa öflugar einingar. Ég held að ef við ætlum að gera okkur gildandi á norðurslóðum þá verðum við að vera með öflug fjármálafyrirtæki,“ segir Benedikt.
Umræðan byggist á upplýsingaóreiðu
Talið berst að umræðu á Íslandi og hvort hún sé ósanngjörn gagnvart bankarekstri og segir Benedikt að sér þyki öllum atvinnugreinum hollt að hafa gott aðhald.
„Mér þykir umræðan stundum byggjast á röngum upplýsingum og uppýsingaóreiðu. Það er mögulega við okkur bankana að sakast að hafa ekki stigið fram og leiðrétt þær rangfærslur og komið fram með staðreyndir málsins. Við ætlum að standa okkur betur í því,“ segir Benedikt.
Hann nefnir að dæmi um uppýsingaóreiðu sé umræðan um hagnað bankanna.
„Því hefur lengi verið haldið fram að starfsemi bankanna sé rekin með ofurhagnaði og mjög hárri arðsemi. Það var kafað ofan í þetta í ágætri skýrslu Gunnars Haraldssonar sem kynnt var á dögunum. Þar kemur í ljós að arðsemin er lægri en annars staðar á Norðurlöndum og umtalsvert lægri ef hún er borin saman við stýrivexti í hverju landi,“ segir Benedikt.
Tvöfalda umsvifin
Arion banki tilkynnti á dögunum að bankinn hefði keypt eignastýringarráðgjöfina Arngirmsson Advisors. Gangi kaupin eftir er gert ráð fyrir að eignir í stýringu aukist um 170 milljarða króna. Benedikt segir að vinna sé í gangi við að klára kaupin.
„Við höfum verið að bjóða upp á þjónustu sem felur í sér að selja erlendar eignastýringarvörur frá þriðja aðila. Með þessum kaupum erum við að tvöfalda umsvifin á þessari starfsemi. Það segir sig sjálft að í lífeyriskerfi sem spannar 8.000 milljarða og 3.000 milljarða erlendis þá er aukin þörf á þessum vörum. Við ætlum okkur að sinna þeim markaði betur,“ segir Benedikt.