Brynhildur Erna Árnadóttir fæddist 7. júlí 1943. Hún lést 30. október 2024.
Útför hennar fór fram 12. nóvember 2024.
Það var vongóður og glaðlegur hópur ungra meyja sem kom til náms í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni einn góðan haustdag 1961. Þar með hófst skemmtilegasti vetur sem við allar sem ein höfðum upplifað til dagsins í dag. Brynhildur Erna féll þar inn í hópinn á fyrsta degi og vinskapurinn kom af sjálfu sér og óx og dafnaði þar til yfir lauk. Við Húsóskvísurnar höfum haldið hópinn allar götur síðan 1961-'2 og haft að markmiði að lifa fyrir líðandi stund í gleði og sorg og auðvitað með prjónana og aðra handavinnu á kantinum. Ýmislegt hefur verið brallað og alltaf var hún til í sprellið þó að hún gæti ekki alltaf tekið þátt í öllum darraðardansinum því stoðkerfisvandamálin voru komin af stað og settu sitt mark á hennar getu. En ekki var kvartað og alltaf sá hún betri hliðarnar á tilverunni og gerði það besta úr hlutunum. Og eitt er víst að þær sem á undan eru farnar í land sumarsins hafa fagnað henni vel og uppáhaldslögin um „Jósep Jósep“ og „trum trum trum Trýnu“ verið sungin með viðeigandi hlátursköstum.
Kær vinkona og skólasystir er kvödd með trega í hjarta en vissu um að hún er laus við veikindastríðið sem hún tókst á við af ofurmannlegu æðruleysi.
Elsku fjölskylda og vinir, hjartans samúðarkveðjur frá okkur Húsóskvísum 61-'2. Far þú í friði okkar kæra Brynhildur og friður guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir alla gleðina og viskuna sem þú gafst okkur.
Hjördís Geirsdóttir.