[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ekki hefur skort stórviðburði á árinu sem er að líða. Stóru málin eru svo stór, það er víða svo mikið undir. En einhvern veginn er það múrinn sem reis fyrir utan stofuglugga fólks í Árskógum í Mjódd í Reykjavík sem kemur upp í hugann þegar litið er yfir sviðið

„Ekki hefur skort stórviðburði á árinu sem er að líða. Stóru málin eru svo stór, það er víða svo mikið undir. En einhvern veginn er það múrinn sem reis fyrir utan stofuglugga fólks í Árskógum í Mjódd í Reykjavík sem kemur upp í hugann þegar litið er yfir sviðið. Kannski ekki veggurinn sem slíkur. Samfélagið hefur áður ótrautt reist veggi sem þennan. Það er viðbragðið sem gleður mig. Loksins kom upp mál þar sem fólk sameinaðist um það að þetta gengi ekki. Hingað og ekki lengra, gætu verið skilaboðin sem af þessu máli eru dregin,“ segir Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur.

„Við höfum nefnilega lengi farið bæði „hingað“ og „lengra“. Alltaf má fórna svolítilli mennsku fyrir svolítinn gróða. Einhvern veginn höfum við endað þar að fegurðin er skraut, hún er bruðl, hún er lúxus – og lúxus sem helst á ekki að leyfa sér, því margt annað er brýnna,“ segir Arndís. Í þessu sambandi minnir hún á að stuttleg skoðun á fortíðinni sýni okkur þó að fegurðin er frumþörf manneskjunnar. Frumstæðari samfélög en okkar hafa leitað hennar í hversdegi sínum og talið vera afar mikilvægt.

„Fyrr á árinu komst í fréttir að gögn frá erlendum símafyrirtækjum sýndu að ungt fólk væri farið að fara fyrr í háttinn. Vinnuvikan er loksins að styttast frekar en að lengjast eins og venjan var lengi. Umræðan um ofgnótt aðventuviðburða hefur náð upp á yfirborðið. Bóklestur sækir á, þessi einstaklingsíþrótt sem ræktar geðið og andann án ytra áreitis. Það gladdi mig að sjá ummerki um að komið væri að viðspyrnu. Þessi stóru mál skýrast öll ef við búum til rými fyrir fegurðina, fyrir andrýmið og fyrir mennskuna.“

„Öll áföll fela í sér reynslu sem taka þarf út úr þeim og byggja á til framtíðar. Mikilvægast er þó alltaf að taka vel utan um fólkið sem fyrir þyngstu rauninni verður og slíkt höfum við reynt að gera í okkar samfélagi hér fyrir austan,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Snjóflóð féllu á íbúðabyggð á Norðfirði snemma á þessu ári. Engan sakaði en eignatjón varð verulegt. Slíkt mátti bæta, eins og gert hefur verið, auk þess sem varnir ýmiss konar hafa verið efldar. Kort yfir snjóflóðahættusvæði hafa verið endurunnin og sett í stafræna útgáfu. Þetta er starf sem Jón Björn hefur komið að, en af hálfu stjórnvalda hefur verið lagður þungi í margvíslegar aðgerðir til þess að styrkja varnir gegn náttúruvá. Innviðauppbygging heitir þetta í einhverjum skilningi. Þess má svo geta að þann 20. desember síðastliðinn var þess minnst að rétt og slétt 50 ár voru liðin frá því að snjóflóð féllu á Neskaupstað, eins og bærinn var kallaður þá, með þeim afleiðingum að alls 12 manns létust.

„Yfirferð á kortum og bætt upplýsingamiðlun vegna náttúruvár er afar mikilvægt starf. Í Neskaupstað er verið að bæta snjóflóðavarnir með fleiri mannvirkjum, nú síðast á þeim stað þar sem flóðin féllu í janúar síðastliðnum. Á Eskifirði eru ár færðar í stokka vegna aur- og krapaflóðahættu. Þetta er allt í áttina; heill íbúa er fyrir mestu. Þá reyndi á okkur öll þegar fólk féll frá mjög sviplega á Norðfirði á haustdögum. Þar var í algjörum forgangi að styðja við þau sem áttu um sárt að binda. Í þeim efnum stóðu allir saman og vildu leggja sitt af mörkum. Að búa í slíku samfélagi er mjög dýrmætt.“

„Tvennt stendur aðallega upp úr hjá mér eftir árið 2024. Annað er kennaraverkfall í skólanum nú í haust. Verkfallið stóð þó eingöngu í tvær vikur áður en því var frestað,“ segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík.

„Í verkfallinu sýndu nemendur skólans hve úrræðagóðir og skapandi þeir eru. Forsvarsfólk félagslífsins stóð fyrir ýmsum viðburðum, svo sem kynningu á frambjóðendum stjórnmálaflokka, skuggakosningum og jólabíói, auk þess sem nemendur hittust til að læra saman og halda hver öðrum félagsskap. Síðustu ár hafa kennt okkur að skóli er samfélag og við þurfum mannleg samskipti til að þrífast vel, ekki síður en gott námsefni og kennslustundir í skólastarfinu sjálfu.“

Hitt atriðið frá líðandi ári sem Sólveig Guðrún nefnir er að í haust urðu hörmuleg ofbeldisverk, meðal annars á Menningarnótt í Reykjavík, sem mikið og lengi voru í fréttum.

„Mikil umræða varð um aukinn vopnaburð ungmenna og hvernig bregðast ætti við slíku. Einnig voru margir uggandi yfir úrræðaleysi handa þeim sem þurfa aðstoð og hvort við sem samfélag værum að bregðast ungmennunum okkar. Þvert á það sem ætla mætti urðu voveiflegir atburðir til þess að auka á samheldni og samtakamátt víða í þjóðfélaginu. Nemendur og starfsfólk MR, eins og margra annarra skóla, sýndu á táknrænan hátt að þau fordæmdu hvers kyns ofbeldi og að kærleikur og ást ætti vinninginn yfir fordóma og hatur. Ég vona að sem flestir geymi þennan boðskap í sínum reynslubanka og reyni að tileinka sér þetta viðhorf til framtíðar.“

„Ákveðin valdaþreyta einkenndi árið 2024 sem fólk fékk útrás fyrir í tvennum kosningum. Almenningur var óhræddari við að láta í ljós skoðanir sem áður voru taldar óæskilegar og kallaði jafnvel fram kröfur um slaufun. Það varð því ákveðin hugarfarsbreyting – aukið hugrekki – sem leiðir af sér breytta umræðu og áherslur,“ segir Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri KOM ráðgjafar. Hann hefur í áraraðir starfað við fjölmiðlun og almannatengsl og fylgist þannig grannt með hræringum í stjórnmálum og því hvernig leikirnir eru teknir á hinu stóra taflborði þjóðmálanna.

„Fáir efast um að Katrín Jakobsdóttir fráfarandi forsætisráðherra hefði gegnt embætti forseta Íslands með miklum sóma. En eins og oft vill verða með Íslendinga þá sætta þeir sig hvorki við krónprinsa né -prinsessur, sem eiga tilkall til opinberra embætta. Umgjörðin bar þess merki og því fór sem fór. Kjósendur sögðu stopp,“ segir Björgvin.

Þessara áhrifa úr forsetakjörinu gætti áfram, að mati Björgvins, þegar kom að kosningum til Alþingis en til þeirra var blásið næsta fyrirvaralítið um miðjan októbermánuð. Kosningar voru svo síðasta daginn í nóvember, eftir stutta en snarpa baráttu. Þótt algengt sé að stjórnarflokkum sé refsað megi segja að niðurstaða kosninganna hafi komið hart niður á gamalgrónum flokkum eins og Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þá hafi VG verið sópað út af þingi.

„Það hvernig fór fyrir Vinstri grænum er risafrétt ársins ásamt afhroði Pírata og árangursleysi Sósíalista,“ segir Björgvin og að síðustu:

„Niðurstaðan felur í sér skilaboð um að kjósendur eru þreyttir á valdboði vinstri aflanna, sem framfylgt var með ákveðinni skoðanakúgun, til að vinna völdum lífsskoðunum fylgi. Það er ekki bara í gegnum þessa stjórnmálaflokka, sem var hafnað, heldur ýmis samtök og hreyfingar sem hafa þegið feit framlög úr sameiginlegum sjóðum til að berja á hinum þögla meirihluta ef einhver fulltrúi hans dirfðist að tala um eitthvað sem þeim var ekki þóknanlegt. Þar sögðu kjósendur líka stopp.“