Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi á jóladag „grimmilegar“ flugskeyta- og drónaárásir Rússa á mikilvæga orkuinnviði nágrannaríkisins sem sætt hefur mannfalli og ógnarástandi styrjaldar í tæp þrjú ár síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti sigaði her sínum á Úkraínumenn.
Sagði Selenskí Rússa hafa tekið „meðvitaða ákvörðun“ með umfangsmikilli árás sinni á jólanótt þegar 184 flugskeyti og drónar, eftir því sem flugher Úkraínu kveður liðsmenn sína hafa talið, klufu næturhimininn á leið sinni að skotmörkunum í þrettándu stóratlögunni á orkuinnviði Úkraínu það sem af er árinu.
Illska Rússa dugi ekki til
Kveðst flugherinn hafa skotið hluta drónanna og flugskeytanna niður en rússneski herinn gaf það hins vegar út að árásin hefði verið vel heppnuð og skeyti hæft öll skotmörk. Joe Biden Bandaríkjaforseti brást við árásinni, sem hann kvað blöskranlega, og sagði tilgang hennar hafa verið að svipta Úkraínumenn aðgangi að hita og rafmagni að vetri og ógna öryggi rafdreifikerfisins. Bað hann varnarmálaráðuneytið í framhaldi um að halda afhendingu vopna til Úkraínumanna áfram.
Jól öðru sinni í desember
Selenskí forseti sagði í september að 80 prósent úkraínskra orkuinnviða hefðu eyðilagst í rússnesku sprengjuregni. „Illska Rússa mun ekki brjóta Úkraínumenn á bak aftur og spilla jólahátíðinni,“ sagði hann í kjölfar árásarinnar á jólanótt, en nú halda Úkraínumenn jól sín öðru sinni 25. desember í stað 7. janúar sem þeir gerðu þar til í fyrra og fóru þar með að dæmi Rússa með því að fylgja júlíanska tímatalinu.
Í Karkív, næststærstu borg Úkraínu, varð hálf milljón borgarbúa án vatns, rafmagns og hita eftir árásina, en íbúar höfuðborgarinnar Kænugarðs leituðu skjóls fyrir beittum skeytum Rússa í neðanjarðarlestarstöðvum borgarinnar og kváðust þeir sem Reuters-fréttastofan ræddi við engan bilbug myndu láta á sér finna og halda sín jól hvað sem árásum Rússa liði.