Birgir R. Jensson fæddist í Reykjavík 5. maí 1948. Hann lést 8. desember 2024 á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu við Sléttuveg.
Foreldrar hans voru Jens Marteinsson frá Færeyjum, f. 28. desember 1916, d. 21. maí 1992, og Gerða Guðnadóttir frá Eskifirði, f. 14. ágúst 1924, d. 10. október 1994. Systkini hans eru Viggo Mortensen, f. 23. mars 1943, d. 17. júlí 2024, og Jenný Jensdóttir, f. 13. apríl 1952.
Eiginkona hans er Sólveig Steingrímsdóttir, f. 14. apríl 1952. Börn þeirra eru Alfreð Mortensen, f. 21. febrúar 1982, og Steingrímur Birgisson, f. 29. júní 1984, fyrir átti Sólveig dótturina Elvu Dögg, f. 26. mars 1976.
Birgir ólst upp í Reykjavík og bjó þar alla ævi, hann lærði húsgagnasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík.
Útför Birgis fer fram frá Lindakirkju í dag, 27. desember 2024, kl. 13. Streymi frá útför er á slóðinni
lindakirkja.is/utfarir.
Elsku pabbi.
Nú er komið að því að leiðir okkar skilur. Eftir að ég fluttist norður var erfiðara fyrir okkur að vera í sambandi. Bæði var langt á milli okkar og veikindin höfðu þau áhrif að þú áttir erfiðara með allt tal. Það breytti því þó ekki að við komum eins oft og við gátum og heilsuðum upp á þig. Því miður voru aðstæður þannig að ég náði ekki að koma til þín á Sléttuveg, þú varst svo nýkominn þangað.
Þegar ég var yngri hringdir þú oft í viku í mig. Helst var það: kemur þú á leikinn á morgun? Hefurðu heyrt í Steina bróður þínum, hann svaraði ekki áðan? Svo hittumst við oftast á KR-leikjum. Oft tókum við bræður börnin okkar með. Þeim fannst æðislegt að hittast á leikjum, fá pening og fara í sjoppuna. Við reyndum líka okkar besta til að fá börnin hennar Elvu systur á KR-leikina og „dressa“ þau upp með KR-treyjur og –trefla.
Þið mamma komuð eitt sinn til Færeyja og þið komuð oft norður meðan þú hafðir heilsu til þess. Þið komuð oftast þegar góða veðrið var og það var gaman að fá ykkur hvort sem það var austur á Raufarhöfn eða hingað á Akureyri.
Útilegurnar á sumrin þegar við vorum yngri voru alltaf hápunktur sumarsins. Þórsmörk með hitastýringu fyrstu helgi í júlí. Það var alltaf farið í rútu og við fylgdumst spenntir með hvort rútan myndi festast í ánni. Svo var tjaldað þessu stóra samkomutjaldi sem þið létuð sauma. Og grillið, það var rosagrill sem þið smíðuðuð. Oftast var grillaður heill lambaskrokkur og nokkur læri með. Við bræður fengum alltaf nýjan vasahníf til þess að tálga greinar og grilla tröllabrauð. Safna spreki til þess að hafa varðeld allan laugardaginn. Vaða í ánum. Ég man að mamma þurfti alltaf að taka nóg af aukafötum á okkur því einhvern veginn urðu öll fötin okkar blaut. Gamla A-tjaldið okkar. Einhvern veginn komumst við öll fimm fyrir þarna inni í því. Stígvélin okkar bræðra urðu alltaf vot þarna og við vissum ekkert hvernig það gerðist.
Við fórum svo að fara í veiðiferðir upp í Veiðivötn. Oft fengum við að keyra bílinn þarna upp frá enda lögin ekki alveg upp á hundrað þarna í óbyggðum. Það var svo þannig að við bræður „stálum“ stundum bílnum þegar þið mamma fóruð eitthvað út um helgar. Reyndar klesstum við alveg óvart á bílskúrshurðina einu sinni og hún brotnaði smá. Ég reyndi samt að „laga það“ með því að skrúfa einhverjar spýtur saman.
Jólaísinn sem þú gerðir á hverju ári er og verður alltaf ógleymanlegur ásamt heitu sósunni.
Það sem þú smíðaðir í oft í skúrnum. Þetta var þitt athvarf. Ég man eftir ræðupúltinu sem þú smíðaðir fyrir Oddfellow. Oddfellow var mikill félagsskapur hjá þér. Alla föstudaga voru fundir hjá þér. Það er örugglega teljandi á fingrum annarrar handar hvað þú misstir af fáum fundum. „Mörgæsafötin“ (kjólfötin) – ég man þegar þú varst að fara í þeim fyrst.
Elsku pabbi. Nú skilur leiðir. Amma og afi taka á móti þér þarna hinum megin. Ég kveð þig núna pabbi en við hittumst aftur þegar tíminn endar.
Alfreð og Anna.
Birgir og Sólveig fluttu inn á þriðju hæð á Háaleitisbraut 123 árið 1989, nokkrum mánuðum á undan okkur Fríði. Á þeim tíma vorum við í yngri kantinum í stigaganginum og frumbyggjarnir smám saman að hopa undan í átt að hentugra húsnæði. Það var kraftur í íbúum stigagangsins og fljótt skapaðist mikil samstaða um hvaðeina sem betur mátti fara. Birgir varð fljótt einn af drifkröftunum í öllum aðgerðum. Við skiptum til dæmis um þak á einum sólarhring, í þrígang máluðum við og gerðum sjálfir við skemmdir á blokkinni og svo mætti lengi telja. Þar var Birgir framarlega í flokki í öllum þessum verkum. Hún er minnisstæð sú mikla hátíð sem haldin var í lok fyrstu viðgerðar, þar sem tjaldað var á lóðinni, heill kindaskrokkur settur á snúningsgrill undir stjórn Bigga, og síðan fótbolti, harmonikkuspil, söngur og dans fram eftir nóttu. Elsti íbúinn, á níræðisaldri, rólaði sér með börnunum með sælubros á vör.
Birgir var fremur hlédrægur í eðli sínu, en afar traustur við nánari viðkynningu. Var fyrstur til vinnu og sá til þess að menn væru ekkert að slæpast. Síðasta húsaviðgerðin fór fram fyrir um fjórum árum. Birgir tók þar þátt þótt heldur væri farið að draga úr kraftinum vegna veikinda, en hann var þeim mun betri í verkstýringunni. Birgir vann um árabil við uppsetningu og viðgerðir á loftræstikerfum, en í grunninn var hann húsgagnasmiður og var sérlega vandvirkur og flinkur sem slíkur. Það er gaman að fylgjast með listasmiðum, þeir virðast strjúka viðnum blíðlega til að komast í andlegt samband við hann áður en mótun hefst. Við nutum handbragðs hans því hann sérsmíðaði eldhúsinnréttingu í íbúðina hjá okkur auk fleiri hluta.
Birgir var Vesturbæingur í húð og hár, þótt í Háaleiti dveldi eins og að ofan segir, og þaðan var Sólveig líka, en við vorum alin upp hvort á sínum enda sömu blokkar á Hringbrautinni með Þórberg Þórðarson og Mömmu Göggu á milli. Birgir var íþróttaunnandi og þá sér í lagi fótbolta. Hann lét sig ekki vanta á leiki síns liðs, sem auðvitað var KR. Hann naut þess að predika kosti KR í Framhverfinu sem Háaleitið tilheyrir. Á afturrúðu bíls Bigga var skrifað stórum stöfum: „Allir eru KR-ingar inn við beinið!“
Blokkarlíf er síbreytilegt, stundum eru lítil samskipti milli íbúa, en svo kemur fyrir að sterkur samhljómur þróast og tekur yfirhöndina eins og gerðist á Háaleitisbraut 123 og er enn. Þann samhljóm áttu Birgir og Sólveig góðan þátt í að mynda. Við kveðjum Birgi með söknuði og vottum Sólveigu og þeirra afkomendum okkar innilegustu samúð.
Hjalti Franzson.
Í dag kveðjum við góðan vin og vinnufélaga okkar til áratuga, Birgi Jensson, sem lést 8. desember síðastliðinn.
Margar góðar minningar frá liðnum tíma koma upp í hugann þar sem Birgir kemur við sögu, hvort heldur sem er við krefjandi verkefni í störfum sínum hjá Hitastýringu hf. eða öflug þátttaka í alls kyns félagsstarfi á vinnustaðnum okkar. Birgir hafði gaman af því að gera eitthvað skemmtilegt með okkur vinnufélögunum og alltaf tilbúinn að gefa sig allan í að koma í framkvæmd fjölbreyttum hugmyndum um skemmtanir, ferðalög erlendis o.fl.
Birgir var vandvirkur fagmaður og listasmiður sem við vinnufélagarnir nutum góðs af bæði í og utan vinnu. Birgir var útsjónarsamur og alltaf gott að leita til hans. Hann var ekki maður margra orða en lét verkin frekar tala.
Birgir var áhugamaður um íslenska knattspyrnu og gallharður KR-ingur. Hann fylgdist vel með sínum mönnum og studdi KR með ráðum og dáð. Oft urðu líflegar umræður á kaffistofunni um úrslit og stöðuna á hverjum tíma.
Seinustu árin háði Birgir baráttu við parkinson-sjúkdóminn sem hafði mikil áhrif á heilsu hans.
Við sjáum á eftir góðum félaga og þökkum samfylgdina með þessum heiðursmanni gegnum árin.
Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sólveigu og fjölskyldunni allri.
F.h. starfsmanna Hitastýringar hf.,
Helgi Sverrisson.
„Hann Biggi vinur er látinn.“ Þetta voru orðin sem komu þegar ég hringdi í börn mín til að láta þau vita að Birgir R. Jensson væri fallinn frá. Þetta lýsir vel okkar tengslum. Okkar vinskapur hófst þegar ég fór að vinna hjá Hitastýringu hf., en hann vann mikið fyrir félagið og varð síðan starfsmaður þess. Fjölskyldurnar okkar tengdust þar vel í gegnum skemmtanir, útilegur og veiðiferðir. Það var alltaf gaman saman. Hver hafði sitt fram að færa og samveran var alltaf lífleg og gefandi. Þó leiðir skildi þegar ég fór til annarra starfa tengdumst við aftur er við urðum báðir virkir félagar í Oddfellow-reglunni. Þar gaf Birgir mikið af sér með öflugu starfi og ástundun. Hann gekk fram af sínum mikla krafti og dró aðra með sér til góðra verka. Tengsl okkar uxu þar mikið og eignuðumst við hjónin þar mikið safn góðra minninga og ánægjustunda með Bigga og Sollu. Parkinson-sjúkdómurinn setti þó bremsu á kraft Bigga síðustu árin og var sárt að sjá Bigga verða að láta í minni pokann þar. Þó var sárast að sjá hvað hann sjálfur átti erfitt með að sættast við þá þróun. Hann er nú kominn í sumarlandið að gantast við góða vini og þar hittumst við síðar. Sólveigu, afkomendum og ástvinum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og þakka fyrir allar góðu minningarnar.
Sigurður G. Símonarson.
Minn kæri vinur, Birgir Jensson, er fallinn frá.
Saga okkar Bigga hófst þegar í æsku minni en hann og pabbi voru æskuvinir. Þeir brölluðu allt saman og ég var sjaldan langt undan. Biggi var einstaklega hjálpsamur og greiðvikinn, veitti mér gjarnan ráðgjöf og aðstoðaði við smíðavinnu í þeim íbúðum sem við hjónin höfum verið að sýsla við í gegnum árin. Þegar ég hóf störf hjá Hitastýringu urðu samskipti okkar dagleg og vörðu það sem eftir var. Biggi var góður vinur og vinnufélagi. Hann var samviskusamur, heiðarlegur og þrjóskur.
Í starfi okkar fórum við Biggi nokkrum sinnum upp á Þjórsársvæðið og þar var kallinn í essinu sínu! Hvað sem þurfti að gera var hugsað í þaula, undirbúið og efnað til – allt tekið með sem við átti að éta – vaknað klukkan hálfsjö, morgunmatur tekinn og síðan unnið af krafti það sem eftir var dags. Kvöldmatur, spjall og snemma í rúmið; þetta voru góðir og minnisstæðir dagar.
Biggi var KR-ingur fram í fingurgóma og fylgdist sérstaklega vel með íslenska boltanum. Hann skildi reyndar ekkert í því hvað við værum að fylgjast með enska boltanum þegar við ættum svona góða íslenska deild. Og svo var það KR! Oft var þungskýjað fram yfir hádegi ef KR-ingarnir höfðu fengið skell kvöldið áður.
Ég læt staðar numið hér þótt lengi mætti skrifa um Bigga. Kæra fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.
Guðmar Einarsson.