Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@isl.is
Tímalaus klassík Tennessee Williams, Köttur á heitu blikkþaki, er jólasýning Borgarleikhússins í ár en verkið, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, verður frumsýnt á Litla sviðinu annað kvöld, laugardaginn 28. desember. Blaðamaður settist á dögunum niður með þeim Hilmi Snæ Guðnasyni og Ásthildi Úu Sigurðardóttur, sem bæði fara með burðarhlutverk í sýningunni, hann sem fjölskyldufaðirinn Stóri-Pabbi og hún sem Maggie, kötturinn sjálfur, tengdadóttir hans.
„Þetta er eitt af þessum klassísku verkum, snilldarverkum eða „well-made plays“ eins og svona vel skrifuð handrit voru kölluð. Þetta verk fellur vel í þá kategoríu því textinn er mjög góður og það er vel uppbyggt en í því er að finna bæði flottar persónur og skrýtnar,“ segir Hilmir Snær. „Já, og það eru mikil átök í því en líka húmor. Þetta er stór og mikil saga og mikið gæðaleikhús því þetta er svo gott verk; textinn, aðstæðurnar og flækjurnar en einnig er mikil nálægð við áhorfendur,“ bætir Ásthildur Úa við. „Akkúrat. Þetta er einmitt sett upp þannig að það er hringsvið og við leikum í miðjunni á meðan áhorfendur sitja allan hringinn. Við erum að leika í fornaldararenunni og það er ákveðin áskorun,“ segir Hilmir Snær og hlær. „En þetta er svo gott verk, hvert sem litið er. Allar persónur eru meitlaðar í stein svo þetta er alveg ofboðslega flott.“
Erfðadeilur og sálarflækjur
Köttur á heitu blikkþaki segir frá því þegar fjölskylda ein kemur saman til að fagna stórafmæli föðurins. Þegar líða fer á kvöldið fer fögnuðurinn þó fljótt að snúast upp í andhverfu sína þar sem erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir. Maggie er ung kona sem elskar eiginmann sinn Brick, hinn drykkfellda son Stóra-Pabba, svo heitt að hún er tilbúin að leggja allt í sölurnar til að fá ást sína endurgoldna, meðal annars með því að beita lygum og blekkingum. Þá hefur sýningin aðeins einu sinni áður verið sett upp í atvinnuleikhúsi hérlendis og var það árið 1997 þegar Margrét Vilhjálmsdóttir fór með hlutverk Maggie og Erlingur Gíslason lék pápann.
Spurð út í það hvernig þau nálgist hlutverk sín og takist á við túlkunina svarar Hilmir Snær því til að í hvert sinn sem leikari túlki nýja persónu sé gott að byrja á því að horfa á og skynja hvert höfundurinn sé að fara, með því að rýna til dæmis í textann. „Svo tekur maður eitthvað frá sjálfum sér, eitthvað frá skáldinu og eitthvað frá leikstjóra og þannig verður til persóna á endanum.“ Ásthildur Úa kinkar kolli til samþykkis og segist ekki geta orðað þetta mikið betur. „Þetta er einmitt svolítið púsluspil og ferli. Það er ekki eitthvað eitt sem maður gerir alltaf eða einhver ein lausn. Ég er sífellt að kynnast manneskjunni sem ég er að fara að láta renna í gegnum mig og það er alltaf svolítið ferðalag. Maður veit svo ekki alltaf hvenær það smellur,“ segir hún.
„Einmitt, þetta er púsluspil og á meðan maður er að flokka hvað maður ætlar að nýta og frá hverjum þá er þetta svolítið eins og dótakista,“ skýtur Hilmir Snær inn í.
Þá segjast þau hvorugt finna fyrir aukinni pressu að fara með hlutverk í svo þekktu og klassísku verki sem sýnt hefur verið um allan heim. „Nei, alls ekki. Þetta er bara opið til túlkunar,“ segir Hilmir Snær og nefnir í framhaldinu að leikarar séu í raun eins og túlkar. „Maður reynir að láta þetta renna í gegnum sig eins og maður sjálfur er best fær um í hvert skipti.“
Margslungnar persónur
Verkið gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna í kringum 1950 og hverfist sem fyrr segir um fjölskylduna, flækjur, deilur, þöggun og lygar, en með önnur hlutverk fara þau Halldór Gylfason, Hákon Jóhannesson, Heiðdís Hlynsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Sigurður Ingvarsson.
„Stóri-Pabbi er svona „self-made man“. Maður sem byggir veldi sitt upp frá grunni en svoleiðis menn eru oft alveg ofboðslega stoltir af sjálfum sér fyrir að hafa komið úr engu og orðið að einhverju. Hann er einmitt þannig maður og í kringum hann er fólk sem honum finnst kannski ekki alveg fært um að taka við af sér. Við þekkjum svona mýtur og svona sögur, sérstaklega frá
Ameríku þar sem ameríski draumurinn lifir góðu lífi. Stóri-Pabbi er því sá sem á allt og getur allt en svoleiðis menn verða líka oft spilltir,“ útskýrir Hilmir Snær og tekur fram að persónan sé margslungin. „Hans fortíð er brotin svo hann er það líka og það er pínu hroki í kallinum. Hann er einnig smá bóndi í sér, svona úthverfagæi, þótt hann sé orðinn fínn háklassamaður.“
Maggie er hins vegar sprottin úr allt öðru umhverfi en flest hinna. Hún er alin upp í mikilli fátækt og er því mikið í mun að fá hlutdeild í auðæfum Stóra-Pabba. „Hún hefur ekki fengið allt upp í hendurnar og það er smá götustelpa í henni. Hún er alin upp við alkóhólisma og hefur alltaf þurft að berjast fyrir lífi sínu. Það bitnar svolítið á öðru fólki í kringum hana því fyrir vikið veður hún yfir aðra til þess að reyna að bjarga sjálfri sér. Það er auðvitað smá skakkt en eins og fyrr segir bara hluti af því að reyna að halda sér á lífi. Hún er aldrei slök því hún hefur aldrei fengið að vera það, hún er alltaf að berjast,“ segir Ásthildur Úa og Hilmir Snær skýtur því inn í að margt sé þó líkt með persónum þeirra. „Í grunninn er einhver strengur þarna sem er keimlíkur, það eru einhver líkindi þarna á milli þeirra,“ segir hann til útskýringar.
Spurð út í það hvort sýningin sé á einhvern hátt færð inn í íslenskan samtíma og aðstæður segja þau svo ekki vera. „Verkið heldur sér eins og það er, það gerist í amerísku samfélagi en er þó pínulítið tímalaust. Áherslan er sett á manneskjurnar og þeirra baráttu. Uppsetningin er því hvorki íslensk né bandarísk heldur er fókusinn settur á fólkið.“
Þorleifs-bragur á verkinu
Talið berst því næst að jólunum og hvernig það sé fyrir leikara að frumsýna milli jóla og nýárs.
„Nú er ég að sýna mína fyrstu jólasýningu og hef því ekki frumsýnt áður yfir jól þannig að við Hilmir gætum ekki verið ólíkari með það,“ segir Ásthildur Úa kímin.
„Það bara eru ekki jól og þú ert ekki þátttakandi í þeim,“ segir Hilmir Snær svo við skellum öll upp úr. „Þegar aðrir eru að njóta á aðventunni, labba um í bænum og fá sér jólaglögg, þá erum við bara föst inni í leikhúskassanum okkar. Jólin eru því bara svolítið fyrir okkur,“ segir Hilmir Snær sposkur á svip. „Svo koma þessir þrír biðdagar, sem sagt jólin, svo er bara generalprufa og frumsýning. Þannig að þetta er voðalega skrýtið,“ bætir hann við.
Aðspurð segja þau æfingarnar hafa gengið mjög vel undir leikstjórn Þorleifs Arnar en hvorugt þeirra hefur unnið með honum áður. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig leikstjórinn nálgast verkið þar sem Þorleifur Örn er gjarnan duglegur að stokka aðeins upp í handritum þeirra sýninga sem hann setur upp.
„Það má segja að í þessu tilviki taki hann verkið meira og minna beint af kúnni þó þetta sé ekki alveg jafn mikið stofudrama og handritið segir til um. Við erum eins og fyrr segir nær áhorfendum og leikmyndin er ekki einhver realismi með húsgögnum, stólum og stofustássi. Það er eitt rúm á sviðinu og við leikum þetta allt í einu rými. Án þess að gefa of mikið upp þá er þetta ekki alveg hefðbundið,“ segir Hilmir Snær og nefnir í kjölfarið að Þorleifur sé líka þannig maður að hann vilji ekki alltaf fara hefðbundnar leiðir.
„En þetta er raunsætt stykki og hann er ekki að afbyggja það eins og hann hefur gert með mörg verk, enda er þetta mjög vel skrifað og flott handrit,“ segir hann og
Ásthildur Úa grípur boltann.
„Það er samt ýmislegt sem kemur á óvart svo eigum við ekki bara að segja að það sé Þorleifs-bragur á sýningunni,“ segir hún sposk á svip. „Einmitt, þarna komstu með það. Það er nefnilega Þorleifs-bragur á þessari uppsetningu,“ segir Hilmir Snær.
Gott að þekkja mótleikarana
Þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem þau Ásthildur Úa og Hilmir Snær leika hvort á móti öðru á sviði en þau fara eins og kunnugt er bæði með burðarhlutverk í verki Tyrfings Tyrfingssonar, Lúnu, sem frumsýnt var á síðasta leikári og snýr aftur á Litla sviðið í lok marsmánaðar. Spurð hvernig það nýtist þeim í þessu verki að hafa unnið saman áður segja þau það alltaf ákveðinn kost að þekkja mótleikara sína.
„Alltaf þegar maður leikur á móti einhverjum leikurum verður það auðveldara næst. Fólk þekkir þá betur inn á hvert annað,“ segir Hilmir Snær. „Mér þykir einmitt orðið svo vænt um hann Hilmi,“ bætir Ásthildur Úa við og uppsker sömu hlýju orðin frá honum til baka. „Auðvitað er alltaf gott að vera byrjaður að kynnast manneskjunni, það er aðeins öðruvísi,“ segir hún og svarar því aðspurð hvort þessar tvær sýningar tali saman á einhvern hátt að svo sé. „Já, ég var einmitt að tala um þetta í gær. Flækjustigið í tilfinningalífinu í Lúnu finnst mér ríma við Maggie. Sjálfsblekkingin, barnleysið og markaleysið. Maður hefur samúð með henni en hún er líka gerandi svo já, ég sé alveg streng á milli verkanna.“
Þá segja þau að síðustu mikla eftirvæntingu fyrir morgundeginum. „Jú, heldur betur enda eru áhorfendur alltaf síðasti mótleikarinn.“