Þótt veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta á höfuðborgarsvæðinu á öðrum degi jóla í gær stöðvaði það ekki Kjartan Þór Þorbjörnsson, íbúa í Árbæ, sem ákvað að skella sér á utanbrautargönguskíði á frosnu Rauðavatni.
Í samtali við Morgunblaðið segist Kjartan hafa skíðað tvo hringi í kringum vatnið í gær. Hann er búsettur skammt frá og gengur því að heiman þegar haldið er af stað í för sem þessa, för sem útivistarkappinn virðist hafa mikla ánægju af.
„Þetta er alveg dásamlegt,“ segir skíðagarpurinn sem er greinilega þaulvanur á gönguskíðunum.
Aðspurður segist Kjartan oft grípa í skíðin þegar færi gefst og nýtti hann tækifærið í gær til þess að viðra sig aðeins um jólin.