Kristján Vídalín Jónsson fæddist í Þverholti í Reykjavík 11. nóvember 1944. Hann lést 11. desember í faðmi fjölskyldunnar á líknardeildinni í Kópavogi.

Foreldrar hans voru Jón Halldórsson húsgagnabólstrari, f. 1918, d. 1997, og Ásdís Vídalín Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 1918, d. 1992.

Systkini Kristjáns eru Elínborg Lárusdóttir félagsráðgjafi, f. 1942, og Halldór Jónsson húsgagnabólstrari, f. 1946.

Eiginkona Kristjáns er Guðrún Sigríður Sævarsdóttir framhaldsskólakennari, f. 1956. Foreldrar hennar voru Sævar Halldórsson ljósmyndari, f. 1923, d. 2015, og Auður Jónsdóttir ljósmyndari, f. 1926, d. 2011.

Kristján og Guðrún bjuggu í Reykjavík, fyrst á Vatnsstíg en síðar í Barmahlíð. Saman eiga þau börnin Sævar Vídalín, f. 1983, maki hans Ásdís Erla Erlingsdóttir, f. 1982, börn þeirra eru Brynjar Vídalín, f. 2014, og Þráinn Vídalín, f. 2019, en hún á fyrir Elenoru Rós, f. 2006; og Ásdísi Vídalín, f. 1993, maki hennar Tómas Gíslason, f. 1994.

Fyrir átti Kristján Karen, f. 1965, maki hennar Guðmundur Hafsteinsson, f. 1962. Börn þeirra eru Hildur, f. 1996, og Kristján, f. 2002; og Bjarna Frey, f. 1974, sambýliskona hans er Carina Zingara, f. 1983. Börn Bjarna Freys eru Karen Margrét, f. 1995, Andri Freyr, f. 2001, og Karl Guðjón, f. 2005.

Kristján ólst upp á Njálsgötu og gekk í Austurbæjarskóla, Lindargötuskóla og Gaggó Aust. Síðan lærði hann rakaraiðn á rakarastofu í Austurstræti 18 og útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum í Hveragerði 1984 og lauk síðar meistaranámi í skrúðgarðyrkju.

Kristján vann m.a. við togaraveiðar, grásleppuveiðar á bátnum Felix, sem hann átti ásamt tveimur vinum, og á farþegaskipinu MS Kungsholm sem sigldi víða um heim. Einnig var hann rakari í London og á eigin rakarastofu á Laugavegi 128, afgreiðslumaður í tóbaksbúðinni Bristol og skrúðgarðyrkjumeistari við eigið fyrirtæki, Garðtækni sf.

Útför Kristjáns fer fram frá Háteigskirkju í dag, 27. desember 2024, klukkan 13.

Jæja pabbi minn, hér sit ég fyrir framan tölvuna með suðusúkkulaði og skrifa hversu frábær pabbi þú varst. Sit hér og bíð eftir að þú komir og setjist fyrir framan mig við eldhúsborðið að lesa bók eða fréttir, alltaf með útvarpið í gangi eða tónlist. Spjalla um allt eða ekkert, því þú gast gefið svo mikið af þér með þögninni einni.

Fyrsta minningin mín um okkur er þegar þú hélst á mér, Enya í græjunum, og við að dansa. Enya var ekki eina tónlistin sem þú kynntir fyrir mér.

Við fórum óteljandi göngutúra niður í bæ, lékum á Klambratúni, gáfum öndunum brauð, fórum á bókasafnið þar sem ég fékk að skoða allar bækurnar eins lengi og ég vildi (og gleðin sem færðist yfir litla andlitið mitt þegar þú sagðir mér að ég gæti fengið allar bækurnar lánaðar heim og skoðað þær aftur og aftur og aftur). Svo var komið við í Kolaportinu og stundum fengum okkur pylsu á Bæjarins beztu á leiðinni heim. Í þessum göngutúrum mættum við alltaf einhverjum sem þú þekktir – vá, þú þekktir svo marga – þú gafst þér alltaf tíma í spjall við þá, brostir þínu vinalega fallega brosi og alltaf var stutt í hláturinn. Mér fannst svo skondið, þegar ég spurði þig eftir á „hver var þetta?“ fékk ég stundum svarið „ég man það ekki alveg“.

Ég æfði handbolta og lærði á fiðlu. Þú mættir á alla leiki og tókst þá upp á vídeóvélina þína sem og á alla fiðlutónleika. Þú skutlaðir og sóttir fram og til baka. Ég gat alltaf treyst á þig og þú hafðir alltaf tíma fyrir mig.

Við, ásamt mömmu, ferðuðumst víða og fórum í útilegur, m.a. inn í Þórsmörk, Skaftafell, Vestfirðina, Suðurlandið, Þingvelli, Snæfellsnesið. Margar skemmtilegar stundir áttum við í sumarbústaðurinn í Þrastaskógi sem þú naust þess að dvelja og rækta landið. Spiluðum, lásum, sungum og dönsuðum.

Umhyggja þín og kærleikur var mikil. Ef ég var á leið í göngu eða útilegur varst þú alltaf búinn að finna fram gönguskóna mína og bera á þá og nostra við með feiti og hunangi.

Þú hélst í margar hefðir, varst mikið jólabarn og fengum við margar gjafir frá Jóla. Faldir páskaeggin gaumgæfilega. Borðaðir alltaf skötu á Þorláksmessu ásamt því að rölta niðri í bæ um kvöldið og endaðir á að fá þér Guinness með góðum vinum á krá þar sem borðið var gömul líkkista (nú hef ég tekið þessa hefð upp með vinkonum mínum).

Þú varst yfirvegaður og rólyndur maður og gafst þér góðan tíma í hlutina. Áttir mörg áhugamál, t.d. fluguveiði, að búa til vasahnífa, lesa, hlusta á heilu tónverkin og sund. Þú varst með næmt auga fyrir fegurð og uppsetningu garða. Garðurinn þinn var með yfirburðum fallegur og aldrei eins frá ári til árs. Við fórum saman í sund, og þið mamma nær daglega. Eftir sund var farið heim í smurgös, eins og þú sagðir.

Það verður skrýtið að heyra þig aldrei kalla mig Ásadís aftur, en það var gælunafn sem þú kallaðir mig oft. En ég verð að eilífu stelpan hans pabba og mun geyma þig í hjarta mér um ókomna tíð. Ég mun rækta bóndarósir í garðinum mínum. Takk fyrir allt og hvíldu í friði.

Þín flikka,

Ásdís.

Pabbi var mjög góður á skíðum og kom hann oft að sækja mig í skólann og við brunuðum upp í fjall. Stundum sótti hann mig fyrir lok skóladags, stakk hausnum inn með þetta vinalega bros og sagði „Góðan daginn, get ég fengið Sævar lánaðan“. Svo var skíðað til lokunar.

Þegar foreldrarnir gáfu mér snjóbretti í fermingargjöf keypti pabbi tvö. Eitt handa mér og eitt handa sér. Þá lagði hann skíðin á hilluna og snjóbrettið tók við. Hann var fljótur að ná tökum á því og var bara helvíti góður líka. Þegar við fórum saman upp í fjall rakst hann oft á byrjendur á snjóbretti, hjálpaði þeim og gaf góð ráð.

Eitt árið fórum við í Ítölsku Alpana, Madonna di Campiglio. Það var draumasvæði fyrir okkur feðgana, við fíluðum okkur í botn. Einu atviki gleymi ég aldrei sem átti sér stað í kvöldmatnum. Við sátum í þessum flotta veislusal þar sem Íslendingahópurinn var saman kominn. Þjóninn var að reyna að skera niður stærðarinnar kjöt á diska, sem annar þjónn færði veislugestum. Gestir tóku eftir því að hnífurinn sem þjónninn notaði var bitlaus eins og smjörhnífur. Pabbi sá að það lá stál á borðinu hjá þjóninum og sagði „af hverju stálar hann ekki hnífinn“ og viti menn, þjónninn byrjar að stála hnífinn, sem gekk illa. Pabba leist ekki á þetta, enda alvanur að stála hnífa úti á rúmsjó í sjómennskunni, stóð upp, tók hnífinn og stálið af þjóninum og byrjaði að stála hnífinn. Það sló þögn á gestina, allir fylgdust agndofa með. Pabbi starði í augu þjónsins á meðan hann stálaði. Það eina sem heyrðist var hljóðið þegar hnífurinn rann eftir stálinu. Að þessu loknu rétti hann þjóninum hnífinn, sem nú rann léttilega í gegnum steikina. Það brutust út ógleymanleg fagnaðarlæti, klapp og hlátur í salnum. Pabbi hneigði sig, gekk í sætið sitt og þjónninn launaði honum með stútfullum disk af kjöti.

Fyrsta minningin mín af okkur saman er þegar ég var um fimm ára gamall og við vorum að labba hjá tjörninni í Reykjavík. Það var ís á tjörninni og ég spurði hann hvort ég mætti labba út á ísinn. Pabbi horfði á mig og spurði hvort ég væri viss um að ísinn væri nógu sterkur til að bera mig. Ég þóttist nokkuð viss um að ísinn væri traustur fyrir mig, ungan og léttan dreginn. Hann sagði að ef ég ætlaði út á ísinn ætti ég að fara varlega og vera nálægt bakkanum, þar sem ísinn gæti gefið sig. Ég tók þessum leiðbeiningum og setti annan fótinn varlega á ísinn og síðan hinn. Viti menn, þá brotnaði ísinn undan mér og ég greip í bakkann, horfði á pabba og bað hann um að hjálpa mér upp. Því neitaði hann, sagði mér að hífa mig upp sjálfur, sem ég og gerði. Þarna varð ég aldrei hræddur, því með pabba þurfti ég aldrei að óttast neitt. Þarna lærði ég að bera mig rétt að við ísilagt vatn; þó að maður haldi að eitthvað sé öruggt þarf að fara varlega.

Margar góðar minningar á ég um pabba, en það sem ég á eftir að sakna er að sitja með honum í þögninni. Þögnin og hans áhrifamikla nærvera sagði allt sem segja þurfti. Þannig sátum við oft saman.

Eins og Neil Young sagði: „The king is gone but he's not forgotten.“

Þinn sonur,

Sævar Vídalín.

Minningin um elsku tengdapabba er svo dýrmæt að engin orð virðast geta gert honum rétt til. Það er hægt að segja að hann var ólýsanlegur á stórkostlegasta hátt sem til er. Eitt skref inn í B52 sýndi mér strax hversu ástrík, jarðbundin og skemmtileg fjölskylda átti heima þar. Kristján gerði ekki mikið veður út af hlutunum, það var stundum eins og hann vissi hvernig lífið og tíminn sveif áfram og að allt ætti eftir að fara vel. Ég spurði hann einu sinni út í tímann þegar upp kom klassíska setningin um hvað tíminn líður hratt, ég vildi vita hvort tíminn héldi áfram að líða sífellt hraðar, hann svaraði „já“ með örlitlu andvarpi og brosi. Ég man eftir safni hans af úrum, þau voru eitt sinn á borðstofuborðinu í B52 og hann stóð hjá mér og sagði að ég mætti velja mér eitt. Það þótti mér mikill heiður og gyllta úrið sem ég valdi er það glingur sem ég held hvað mest upp á. En það sem hann gaf fólki af nærveru sinni var mesta gullið. Hvort sem það var tásunudd fyrir kríli, skák, knús, koss, gítarspil, spjall, hlátur eða bara heyra hann segja „hæ elskan“. Hann gaf frá sér ró þegar hann las bók, fékk mig til að vilja lesa bók. Fyrir stuttu vildi ég vita hvernig hann upplifði tónlist því ást hans á tónlist var svo mikil og ég vissi að samskynjun væri ættgeng. Sérðu tónlist? „Já, stundum,“ svaraði hann. Það sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast tengdapabba, þakklát fyrir að eiga son sem fékk sama lukkuafmælisdag og afi hans og þakklát fyrir hvað ég sé mikið af honum í öllum sem hann elskaði.

Ásdís Erla Erlingsdóttir.

Í dag kveðjum við tengdaföður minn Kristján Vídalín hinstu kveðju. Kristjáni kynntist ég fyrir hátt í 40 árum, þegar Karen dóttir hans sýndi honum mig í fyrsta sinn. Hann tók mér strax firna vel og alltaf þegar við hittumst fékk ég þétt faðmlag og kveðjuna „gott að sjá þig“. Alltaf var hann hress og kátur og var vanalega mikið bullað þegar við hittumst. Hann fór aldrei í manngreinarálit, allir voru jafnir.

Kristján hafði mörg áhugamál, var alæta á tónlist og átti mikið safn af plötum. Hann spilaði á gítar, hafði óbilandi áhuga á fótbolta og flestum íþróttum, var mikill skákunnandi og kenndi m.a. syni mínum og nafna sínum að tefla og tóku þeir stundum skák saman þegar þeir hittust. Snóker spilaði hann við félagana einu sinni í viku. Það verður seint sagt um Kristján að hann hafi verið mikið tæknitröll. Áhugi á bílum var enginn og báru vinnubílarnir hjá honum með sér að þar voru engar dekurdrossíur á ferð enda viðurkenndi hann að hann hefði ekkert vit á þessum „bíldruslum“ eins og hann orðaði það.

Snjallsími var held ég aldrei í hans eigu enda botnaði hann ekkert í þannig græju og átti jafnan „gamaldags“ takkasíma og áður en hann uppgötvaði númerabirtinn gat ég oft villt á mér heimildir og bullað aðeins í honum eða allt þar til hann spurði „hver er þetta?“ Ég svaraði þá gjarnan „þetta er uppáhaldstengdasonur þinn“. Gat sagt það með vissu því hann átti lengst af engan annan tengdason. Þetta fannst honum jafnan fyndið og hló mikið að. En eftir að hann gat séð símanúmerið var kveðjan vanalega þegar hann svaraði: „Halló tengdi.“

Kristján átti og rak garðyrkjufyrirtækið Garðtækni og var hann ótæmandi brunnur af þekkingu á hinum ýmsa gróðri og lærði ég mikið af honum um umhirðu og klippingar á trjám og öðrum plöntum. Alltaf þegar hann kom í heimsókn tók hann „hring“ í garðinum. Byrjaði vanalega á að þiggja kaffibolla, fór svo út, tók upp pakkann, náði sér í „rettu“, sleit af henni filterinn og kveikti svo í áður en skoðunarferðin hófst. Hann vílaði fátt fyrir sér þótt árin færðust yfir og man ég eitt sinn þegar ég spurði hann ráða varðandi tré í garðinum sem ég vildi lækka aðeins. „Náðu í stiga,“ sagði hann og svo prílaði hann upp í tréð með keðjusögina á fullu blasti í annarri hendi og vann verkið fljótt og vel en við óttuðumst um kallinn, sem þá var kominn á áttræðisaldurinn.

Annað og eldra dæmi var einnig lýsandi fyrir hvað aldurinn var ekki að trufla hann þegar hann fór og keypti sér snjóbretti þegar fólk á hans aldri var frekar að færa sig yfir í gönguskíðin. „Ég er kallaður afi dizzi í bekkunni,“ sagði hann og hló, enda vakti hann athygli hjá brettapeyjunum í Bláfjöllum. Básar á Goðalandi voru í sérstöku uppáhaldi og hafði sú hefð að fara haustferð á hverju ári haldist í áratugi. Þangað bar hann birkiplöntur og plantaði þeim víða, einnig ósköpin öll af reyniberjum sem hann dreifði um skóginn fyrir fuglana sem sáu svo um að dreifa fræjunum. Síðasta ferð hans í Bása var farin sumarið '23 með okkur Karen og Siggu. Gladdist hann mjög yfir árangrinum af þessu starfi.

Kæri tengdapabbi, nú ertu kominn í sumarlandið og trúlega farinn að taka til hendinni í einhverjum garðinum þar. Takk fyrir allt. Innilegar samúðarkveðjur til allra í fjölskyldunni.

Þinn „tengdi“,

Guðmundur.

Takk fyrir árin, elsku Kristján, þvílíkur ótrúlegur karakter sem ég átti sem tengaföður! Maðurinn sem er útskrifaður af líknardeild og fer beint heim í að spila rokk í botni í stofunni með einn eða tvo Víking gylltan til hliðar – þetta var þín stund. Takk fyrir að taka á móti mér þegar ég flutti suður forðum daga og kynntist Ásdísi. Takk fyrir dóttur þína og fyrir að sýna okkur að það er hægt að vera svona lífsglaður, alltaf. Hann var alltaf með húmorinn efst í hug, smekkmaður og ég heyri hann ennþá lýsa hinu og þessu sem „alveg ææðislegu“. Tala nú ekki um hvað maðurinn var vinaríkur, og af góðri ástæðu.

Tómas Gíslason.

Arabíska skáldið Kahil Gibran hefur komist svo að orði um dauðann: „Hvað er það að deyja annað en það að standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið?“

Nú er Kristján bróðir horfinn inn í sólskinið. Á þessari stundu komum við saman, vinir og ættingjar, til að lyfta huga til hans sameiginlega.

Lífið varir bara eitt andartak, en þetta andartak skiptir öllu máli. Kristján var að eðlisfari hógvær og yfirvegaður í allri framkomu. Hann kynnti sér búddísk fræði og tileinkaði sér margt sem þar er kennt, t.d. að gera engum mein „í hugsunum, orðum eða gjörðum“. Nærvera hans var afar þægileg og afslappandi. Það var svo notalegt að sitja með Kristjáni í þögninni, þurfa ekkert að tala. Við Kristján fórum að hlusta á Dalai Lama þegar hann kom til Íslands. Var Hallgrímskirkja troðfull af fólki sem vildi hlusta á þennan fræga hæverska mann.

Kristján tók U-beygju í lífinu þegar hann hætti rakarastarfinu og fór til náms í

Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Hann elskaði að vera úti í íslenskri náttúru

með hendur fullar af mold! Já, brátt varð hann eftirsóttur og hafði því meira en nóg að gera. Hann lærði líka að hlaða hús með torfi eins og gerðist á dögum ömmu okkar og afa. Honum var annt um að náttúran fengi að njóta sín og að ekki væri verið að planta trjám upp um fjöll og firnindi.

Það duldist engum að Kristján var þakklátur fyrir það sem lífið hafði fært honum. Stuttu fyrir andlát sitt sagði hann mér hve þakklátur hann væri fyrir

Siggu, sína góðu konu, börn og barnabörn. Börnin voru hans líf og yndi og hlakkaði hann mikið til að fá sjötta barnið. En þegar svo gat ekki orðið sagði hann við mig „maður kemur í manns stað“.

Síðasti andardráttur þessa lífs verður fyrsti andardráttur þess næsta.

Lífið heldur áfram í sinni ódauðlegu mynd.

Margs er að minnast og margt að þakka, bróðir okkar og vinur.

Farnist þér vel á leiðinni sem liggur inn í gegnum sólarlagið.

Ég og fjölskylda mín erum einlægt þakklát fyrir Kristján bróður okkar og frænda.

Elínborg (Ellý) systir, Andri, Katrín, Þorlákur og barnabörn.

Bróðir minn Kristján Vídalín Jónsson lést á líknardeild LSH 11. desember. Kristján fæddist og ólst upp á Njálsgötunni, sonur Jóns Halldórssonar sjómanns og bólstrara og Ásdísar Vídalín Kristjánsdóttur húsmóðir og síðar afgreiðslukonu í blómabúðum. Heimili okkar Kristjáns og Ellýjar systur okkar var venjulegt alþýðuheimili þar sem ekki var bruðlað og farið vel með. Töluðum við systkin oft um hvað okkur leið vel og glöddumst þegar hagur foreldra okkar vænkaðist eins og t.d. þegar þau eignuðust í fyrsta sinn ísskáp síma, þvottavél, strauvél og saumavél.

Kristján byrjaði ungur að vinna og sendi pabbi okkur báða 14 ára á síðutogara og hélt Kristján áfram á sjó þar til hann lærði rakaraiðn og eignaðist rakarastofu á Laugavegi 128. Kristján fékk ofnæmi fyrir hári og seldi stofuna og skellti sér á flaggskipið Kongsholm í þrjú ár og ferðaðist um allan heim og undi hag sínum vel. Síðan lá leiðin í garðyrkjuskólann í Hveragerði og þar var minn maður í essinu sínu og vann við það í yfir 40 ár við góðan orðstír.

Þegar Kristján var á sjötugsaldri tók hann að sér hellulagnir og þar var þessi sterki maður á réttum stað. Ár eftir ár lagði hann hellur, frá morgni til kvölds, stundum fleiri tonn yfir daginn. Kristján var sérlega vinmargur maður og var hrókur alls fagnaðar í mannfagnaði. Á unga aldri stundaði hann íþróttir svo sem handbolta og skíði og keppti þá fyrir íþróttafélagið Ármann. Þegar Kristján var hættur að vinna sökum aldurs naut hann sín heima með fjölskyldunni, horfði á fótbolta, hlustaði á tónlist, kroppaði á gítarinn og spilaði snóker og þótti þar nokkuð lunkinn.

Einu má ekki gleyma: Í byrjun september á hverju ári í rúm 40 ár fór Kristján í stórum hópi vina sinna í Þórsmörk og hafði alltaf nokkra bakka af íslensku birki með í för og plantaði á völdum stöðum. Var honum mikið þakkað af landvörðum loksins þegar þeir uppgötuðu hver var búinn að planta öllu þessu birki í öll þessi ár!

En elsku bróðir minn, núna er komið að kveðjustund, takk fyrir allt kaffið, spjallið, bjórinn og allt sem við brölluðum saman. Elsku Sigga mín, Karen, Bjarni, Sævar, Ásdís og fjölskyldur. Við Steinunn vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Halldór og Steinunn.

Við vorum svo lánsöm að kynnast heiðursmanninum Kristjáni Vídalín fyrir margt löngu þegar sú hefð skapaðist að vinahópur dvaldi saman í Básum í Þórsmörk á hverju hausti í haustlitaferð. Góðvinirnir Kristján, Jón Þór og Kjartan söfnuðu saman fjölskyldum og vinum og úr varð ferðahópurinn Milljónafélagið sem hefur það að markmiði að njóta lífsins saman í faðmi náttúrunnar. Það er fallegt í Þórsmörkinni, þar sem birkið ilmar, allt er hljótt og stjörnurnar tindra um nótt. Þórsmerkurferðirnar voru og eru alltaf mikil tilhlökkun jafnt hjá ungum sem öldnum. Kristján mætti alla tíð með poka fulla af sérvöldum reyniberjum sem hann hengdi á birkitrén og þá upphófst stórhátíð hjá fuglunum.

Og þrátt fyrir þá kærleikskeðju sem ávallt ríkir í Mörkinni hafa allir átt sínar einkastundir og þar var Stjáni engin undantekning. Þá var okkar maður á sínu einkarölti að huga að gróðrinum, kanna hvort fræ hefðu skotið rótum,

blessa þau og biðja vel að lifa.

Kristján var gæddur einstökum mannkostum og var vinum sínum afar traustur. Hann fór aldrei í manngreinarálit, tók hverjum og einum eins og hann var og sýndi öllum ljúfmennsku og kærleika, slíkt smitar út frá sér. Hann hafði notalega nærveru og góða kímnigáfu svo alltaf var stutt í brosið og hláturinn.

Eins og gjarnt er um unga menn var ævintýraþráin Stjána í blóð borin. Þegar stiklað er á stóru hefur hann siglt um öll heimsins höf, migið í saltan sjó sem grásleppukarl, skafið af mönnum hár og skegg og síðast en ekki síst var hann stórsnjall skrúðgarðs- og hleðslumeistari, sem verk hans bera fagurt vitni um. Kristján lagði sín fræ einnig í frjóa mold, eignaðist trygga og ástríka konu, stórefnileg börn og barnabörn sem hann hafði mikla gleði af.

Höfðingi er fallinn frá og eftir sitjum við hnuggin en yljum okkur við fallegar minningar um góðan dreng. Um leið og við þökkum trygga og einlæga vináttu í gegnum árin vottum við ástvinum hans okkar dýpstu samúð.

Menn kætast er þeir kynnast

og kröfur saman tvinnast.

Saman sigrar vinnast

svo ræktar hver sinn garð.

Er höfuðhárin þynnast

oft hugir aftur spinnast

og merkilegt að minnast

hve margt var gott sem varð.

(Þorsteinn Egilsson)

Rósa Marta Guðnadóttir, Helga Þorsteinsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson
og fjölskyldur.

Nú kveðjum við mág okkar og vin Kristján Vídalín. Kristján var líflegur og litríkur karekter. Hann var ræðinn og átti auðvelt með að spjalla við fólk. Hann var traustur og hjálplegur vinur og alltaf var hægt að fá leiðsögn, meðal annars góð ráð varðandi plöntur og tré.

Kristján var skrúðgarðyrkjumeistari og sinnti því starfi af mikilli ástríðu. Náttúran var honum sérstaklega kær og kunni hann að njóta fegurðar hennar. Garðurinn í Barmahlíðinni bar vitni um natni hans og áhuga á garðrækt en þar plantaði hann ótal plöntum en bóndarósir voru hans yndi.

Kristján útbjó oft yfir sumartímann fallega blómvendi úr eigin garði sem hann færði Siggu sinni en þetta var dæmigert fyrir kærleik hans og alúð sem hann sýndi eiginkonunni.

Margs er að minnast en eftirminnilegar eru ferðir í fjölskyldubústaðinn í Grímsnesi. Hann átti það til að gleyma sér alveg við að huga að gróðrinum og trjánum í landinu. Þar var farið í sund, golf, spilað, grillað og mikið hlegið en Kristján var mikill húmoristi.

Kristján átti ótal áhugamál. Hann hlustaði mikið á tónlist og hafði gaman af að ræða tónlist við unglingana í fjölskyldunni. Börnunum í fjölskyldunni fannst hann alltaf skemmtilegur og náði hann vel til þeirra. Hann spilaði meðal annars billjard, fylgdist með boltanum og stundaði sjóstangveiði um tíma af miklu kappi.

Við fórum saman í ógleymanlega ferð til Suður-Frakklands í brúðkaup fyrir nokkrum árum. Við leigðum hús og ferðuðumst saman um dásamleg héruð Provence. Alltaf kom garðyrkjumaðurinn upp í Kristjáni og þegar hann sá falleg tré gat hann ekki staðist freistinguna og nældi sér í fræ til að taka með heim.

Hann fór í margar veiðiferðir og munum við eftir einni góðri veiðiferð í Öxarfjörðinn en þar fékk hann fisk nánast í hverju kasti og það þótti honum ekki leiðinlegt og var oft minnst á þessa einstöku veiðiferð.

Kristján lét ekkert stoppa sig, en á sextugsaldri keypti hann sér snjóbretti en hann hafði frá unga aldri stundað skíðamennsku. Minnisstæð er skíðaferð sem við fórum til Austurríkis en þar renndi hann sér á snjóbrettinu með unglingunum og vakti athygli fyrir vikið.

Elsku Sigga systir og fjölskylda, við sendum einlægar samúðarkveðjur. Kristjáni þökkum við samfylgdina, megi minningin um einstakan vin lifa.

Hrönn, Jón Alvar, Jónína Margrét og fjölskyldur.

Kær vinur minn úr æsku, Kristján Vídalín Jónsson, hefur nú yfirgefið þennan heim.

Kristján var glaðlyndur og góður félagi. Við ólumst upp í skemmtilegu og lifandi hverfi sem markaðist af Snorrabraut, Barónsstíg og Njálsgötu sem var eins konar Breiðholt síns tíma, þar sem leikir og ýmis uppátæki voru daglegt brauð. Hverfið var barnmargt, og allir voru úti að leika frá morgni til kvölds – bófahasar, índíánaleikir eða bara leikir, sem aðeins við vinirnir kunnu.

Austurbæjarbíó var miðja okkar heims, Roy og Trigger klukkan þrjú á sunnudögum, blaðasala á undan sýningu og svo bófahasar úti á götu eftir sýningu – lífið var svo einfalt og ekki þurfti meira til þess að við vinirnir værum hamingjusamir.

Kristján var alltaf sá sem kom með skemmtilegustu hugmyndirnar og hafði einstakt lag á að fá alla með. Hláturinn var hans aðalsmerki, hann var alltaf kátur.

Þegar hann varð eldri ákvað hann að læra rakaraiðn hjá Ólafi Kjartanssyni í Austurstræti, það starf hentaði honum vel þar sem hann var ekki aðeins handlaginn heldur líka félagslyndur. En lífið er óútreiknanlegt því hann sneri sér að því að verða skrúðgarðafræðingur á efri árum. Það kom engum á óvart, því hann hafði alltaf gott auga fyrir fegurðinni í náttúrunni.

Hann var flinkur í sínu fagi og snjall að leysa ólík viðfangsefni. Ég sé ekki Kristján öðruvísi en útivinnandi og útitekinn dreng. Oftar en einu sinn „las hann garðinn okkar“, eins og hann orðaði það svo vel. Þótt vegi hafi síðar skilið á ég góðar minningar um þennan æskufélaga minn, fyrir gleðina, leikina og skemmtilegar stundir, sem hann færði okkur vinum sínum. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum og fjölskyldu.

Blessuð sé minning Kristjáns.

Jón Þór
Hannesson.