Hluti þátttakenda „Þegar við sýnum í Evrópu þá bjóðum við tíu manns á hverjum stað til liðs við okkur, ungu heimafólki, til að hafa stærra mengi.“
Hluti þátttakenda „Þegar við sýnum í Evrópu þá bjóðum við tíu manns á hverjum stað til liðs við okkur, ungu heimafólki, til að hafa stærra mengi.“
„Þegar ég fór af stað með þetta verkefni þá höfðum við Alexander Roberts unnið mjög mikið með unglingum og okkur langaði til að vinna meira saman. Ég auglýsti á samfélagsmiðlum eftir ungu fólki til að vera með og við frumsýndum í Noregi árið 2019

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þegar ég fór af stað með þetta verkefni þá höfðum við Alexander Roberts unnið mjög mikið með unglingum og okkur langaði til að vinna meira saman. Ég auglýsti á samfélagsmiðlum eftir ungu fólki til að vera með og við frumsýndum í Noregi árið 2019. Undanfarin fimm ár höfum við ferðast með sýninguna til ýmissa landa í Evrópu, til dæmis til Frakklands, Belgíu, Þýskalands, Sviss og Bretlands, og sýnt þar á stórum sviðslistahátíðum. Á næsta ári erum við á leiðinni til Hollands og aftur til Þýskalands,“ segir Ásrún Magnúsdóttir, dansari og danshöfundur, um tilurð og gengi dansverksins Teenage Songbook of Love and Sex, sem hún er höfundur að. Sýningin hefur aðeins einu sinni verið sýnd á Íslandi, en nú verður hún sýnd öðru sinni, í Tjarnarbíói, á morgun, laugardag 28. desember.

„Eðli málsins samkvæmt er mikil stemning og spenningur í hópnum að sýna aftur á Íslandi, í heimalandi krakkanna. Þetta verður svona „homecoming“-sýning til að fagna velgengni sýningarinnar. Sum þeirra sem eru með núna hafa aldrei fengið að sýna hana á Íslandi og vilja skiljanlega gera það, en önnur munu flytja sýninguna í síðasta sinn í þessari Íslandssýningu. Þetta eru alls konar krakkar úr öllum áttum, sum þeirra hafa unnið með mér síðan þau voru 13 eða 14 ára en önnur eru nýbyrjuð.“

Nýliðar halda kór ungum

Teenage Songbook of Love and Sex er sýning flutt af unglingum og ungu fólki. Þau hafa séð um að semja lög og texta um eigin reynslu af kynlífi og ást og öllu því sem fylgir.

„Þau mynda kór og syngja lögin á sýningunni. Á hverjum stað sem við förum til hittum við ungmenni sem þar eiga heima og bjóðum þeim að ganga til liðs við kórinn. Á hverjum stað verða til nokkur ný lög, og þau eru alltaf flutt á tungumáli nýju þátttakendanna. Þannig stækkar alltaf söngbókin,“ segir Ásrún og bætir við að þótt unga fólkið sé höfundar texta og laga, þá sé allt unnið í nánu samstarfi við hana og samstarfsmenn hennar Alexander Roberts og Teit Magnússon tónlistarmann. Ákveðin kóreógrafía fylgir líka hverju lagi.

„Þar sem þessi sýning fór af stað fyrir fimm árum, þá eru auðvitað margir þessara unglinga ekkert unglingar lengur. Sum eru þó ennþá með í verkefninu en önnur eru farin að gera eitthvað annað, en það er alltaf að bætast við nýtt ungt fólk, svo það eru margir nýliðar til þess að halda kórnum ungum. Fyrir hverja ferð til útlanda reynum við að bjóða einum nýliða með okkur héðan frá Íslandi.“

Ásrún segist ekki hafa verið með neinar dansprufur eða söngprufur þegar hún fór af stað með verkefnið árið 2019.

„Ef einhver vildi vera með þá mátti viðkomandi það, en þau gátu valið á milli þess að taka þátt í sköpunarferlinu eða flytja verkið á sviði, eða gera hvort tveggja. Krakkar vilja svo gjarnan láta í sér heyra, sem betur fer,“ segir Ásrún og bætir við að ungt fólk sjái einnig um hljóðfæraleikinn á sviðinu.

„Sum komu þá seinna inn, til dæmis ef okkur vantaði píanóleikara, þá fengum við unga manneskju til liðs við okkur í það hlutverk. Þetta eru um tuttugu manns sem eru í kórnum og koma fram á sviðinu, en þegar við ferðumst um heiminn með sýninguna þá er breytilegt hvað hópurinn er stór, af því það komast ekki alltaf allir. Þegar við sýnum í Evrópu bjóðum við tíu manns á hverjum stað til liðs við okkur, ungu heimafólki, til að hafa stærra mengi. Íslenski kórinn ferðast því héðan, kemur til nýs lands og syngur lög sem þau hafa samið, og svo þegar við hittum krakka í öðru landi, þá búum við til önnur lög líka með þeim.“

Fyrir fólk á öllum aldri

Eins og fyrr segir syngur unga fólkið í sýningunni um ást, forvitni, hjartasár, rómantík og kynlíf. Þau syngja fyrir allar hreinar meyjar, druslur og þyrstar tíkur, svo allir geti speglað sig.

„Þetta er að einhverju leyti mjög persónulegt en enginn segir þó frá undir nafni, allir sem standa á sviði eru nafnlausir. Fegurðin í nafnleysinu er að við vitum ekki hvaðan sagan kemur sem sungin er hverju sinni, en ég get lofað að áhorfendur geta tengt við það sem þau syngja um, hvort sem þeir eru 18 ára eða eldri. Þau eru mjög einlæg og segja frá því sem þau upplifa og sínum tilfinningum, sem eru auðvitað sammannlegar.“

Þegar Ásrún er spurð hvort það sé vaxandi tilhneiging í danslistum að fá hinn almenna borgara til að vera með játar hún því.

„Núna virðist vera einhver stemning fyrir því, einhver bylgja eða hreyfing í þá áttina, en ég var á undan,“ segir Ásrún og hlær. „Ég er í raun að svara eftirspurn, fólk vill þetta, og það er stemning fyrir list sem fjallar um ungt fólk. Ég ítreka að þessi sýning er ekki einvörðungu fyrir ungt fólk, hún er fyrir hvern sem er, líka alla sem hafa einhvern tíma verið ungir. Þetta er sýning fyrir allt fólk sem hefur áhuga á ástum og kynlífi, og því sem býr innra með fólki. Þessi sýning er alls ekki einvörðungu um það að vera ungur og ástfanginn, hún er líka um margt annað, um það að vera manneskja, á öllum aldri,“ segir Ásrún sem ætlar að halda áfram að ferðast með Teenage Songbook of Love and Sex um heiminn, svo lengi sem eftirspurn er eftir því.

„Það er alltaf svo gaman hjá okkur og núna erum við öll orðin nánir samstarfsmenn sem komum að sýningunni. Okkur hefur gengið rosalega vel á öllum sviðslistahátíðunum sem við höfum komið fram á og við erum bókuð áfram og áfram, við erum alltaf með næsta deit á dagatalinu. Það er sannarlega frábært, en að einhverju leyti flókið, af því að krakkarnir verða eldri og sum þurfa að hætta, en þá bætum við bara nýliðum í hópinn, þannig höldum við alltaf kórnum ungum,“ segir Ásrún og bætir við að fólk af öllum kynjum sé í hópnum hverju sinni. „Við erum að leita að ungu fólki núna til að slást í hópinn fyrir næstu ferðalög, við hvetjum ungt fólk sem er forvitið til að vera með, að mæta.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir