Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur veitt Orkuveitu Reykjavíkur tímabundið starfsleyfi til að rífa fjóra sumarbústaði við Elliðavatnsblett en alls hafa eigendur 12 bústaða við Elliðavatn afsalað Orkuveitunni eignum sínum til niðurrifs.
Starfsleyfið er gefið út í samræmi við ákvæði samþykktar um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Starfsleyfið gildir frá 1. desember sl. til 1. september á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni munu framkvæmdir þó ekki hefjast fyrr en skýrsla frá Borgarsögusafni liggur fyrir, þar sem verndargildi sumarhúsanna er metið. Sú skýrsla muni ráða framhaldinu með aðra bústaði á svæðinu.
Fjórir bústaðir hafa þegar verið fjarlægðir, ýmist með niðurrifi eða vegna eldsvoða.
Þá hefur Orkuveitan gert samninga við 12 sumarhúsaeigendur um skil á lóðum, en þeir samningar kveða á um að afnot húsanna standi að hámarki til ársins 2033. Verið er að ganga frá síðustu 2-3 málunum og er stefnt að því að ljúka samningum við alla sumarhúsaeigendur við Elliðavatn á næstu vikum.
Langvinnar deilur
Deilur um sumarbústaði við Elliðavatn og Helluvatn, sem margir voru reistir á fyrri hluta síðustu aldar, hafa verið langvinnar og komið til kasta dómstóla. Bústaðirnir eru á leigulóðum á landi í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og fyrirtækið hefur ákveðið að endurnýja ekki þá samninga frekar.
Hefur fyrirtækið vísað til þess að búseta á grannsvæðum vatnsverndar er óheimil. Meirihluti þjóðarinnar fái neysluvatn sitt úr vatnsbólum innan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins og því sé mikilvægt að tryggja gæði neysluvatns fyrir almenning til framtíðar.
Árið 2004 sendi Orkuveitan bréf til allra sem áttu sumarhús á landi fyrirtækisins við Elliðavatn þar sem sagði að markmið fyrirtækisins væri að sumarhúsum yrði fækkað skipulega m.a. með samningum við eigendur, eða í samráði við þá, á komandi árum. Sú afstaða hefur verið ítrekuð síðan. Þannig sendi Orkuveitan öllum eigendum sumarhúsa við Elliðavatn bréf árið 2015 þar sem þeim var tilkynnt sú ákvörðun að leigusamningar á svæðinu yrðu ekki endurnýjaðir. Jafnframt var eigendum húsa, sem voru illa á sig komin, boðið að Orkuveitan kostaði brottflutning húsanna.
Byggð skuli víkja
Í dómi, sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur um eina af þessum lóðum árið 2016 og var ári síðar staðfestur í Hæstarétti, var niðurstaðan sú að hafna kröfu eiganda sumarhúss um að hann ætti ótímabundinn rétt á að nýta lóðina.
Orkuveitan vísaði þá m.a. til þess að nýlega hefði tekið gildi nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins ásamt nýrri vatnsverndarsamþykkt. Þar segði m.a. að framkvæmdir og starfsemi sem ógnað geta öryggi vatnsöflunar væri bönnuð á grannsvæði.
Óheimilt væri að skipuleggja íbúðabyggð, frístundabyggð eða atvinnustarfsemi á grannsvæðinu sem ekki fellur að þessu og óheimilt væri að leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Í samræmi við þetta væri það afstaða Orkuveitu Reykjavíkur að byggð og mannvirki á grannsvæði vatnsverndar skyldi víkja.
Elliðavatn
Eign OR frá árinu 2002
Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina Elliðavatn á árunum 1923 til 1928 í tengslum við raforkuvinnslu sem hófst við Elliðaárnar í Reykjavík árið 1921.
Árið 1998 sameinuðust Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur í Orkuveitu Reykjavíkur og árið 2000 sameinaðist Vatnsveita Reykjavíkur Orkuveitunni. Árið 2002 var eignarhaldi Orkuveitu Reykjavíkur á jörðinni Elliðavatni þinglýst en fram að því hafði Reykjavíkurborg verið þinglýstur eigandi.