Kristrún Jónsdóttir (Dúrra) fæddist á Siglufirði 21. febrúar 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju 16. desember 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Kristinn Jónsson bifreiðarstjóri úr Reykjavík, f. 24. september 2018, d. 17. júní 2001, og Ólína Hjálmarsdóttir fiskverkakona frá Húsabakka í Aðaldal, f. 4. ágúst 1923, d. 13. nóvember 1987. Bræður Kristrúnar eru Snorri, f. 1943, d. 2023, Kristján Óli, f. 1948, Þórður, f. 1957, og Jón Kristinn, f. 1960, d. 2022.

Kristrún giftist 6. desember 1964 Benedikt Jónassyni frá Þuríðarstöðum í Fljótsdal, f. 7. ágúst 1939, d. 14. apríl 2021. Synir þeirra eru: 1) Jón Óli, f. 20. mars 1964, giftur Aðalheiði Bergfoss, f. 25. febrúar 1966. Börn: Benedikt, f. 1990, sonur hans er Bjartur Óli, f. 2023, móðir Bjarts er Soffía Björgúlfsdóttir, f. 1990. Helgi Steinar, f. 1995, í sambúð með Elínu Emelíu Jónmundsdóttur, f. 1997. Hinrik, f. 2003. 2) Snorri Jökull, f. 20. mars 1965, giftur Þóreyju Ólafsdóttur, f. 28. desember 1964. Börn: Brynjar Gauti, f. 1992, í sambúð með Guðrúnu Svanhvíti S. Michelsen, f. 1994, dætur þeirra eru Hrefna Bjarkey, f. 2018, og Una Margrét, f. 2023. Atli Pálmar, f. 1998, í sambúð með Karen Dögg Vilhjálmsdóttur, f. 1997, sonur þeirra er Evert Orri, f. 2024. 3) Kjartan, f. 8. febrúar 1973, eiginkona hans er Sólrún Júlía Hjartardóttir Kjerúlf, f. 30. maí 1979. Börn hans eru: Kristrún Elva, f. 1995, gift Snorra Felix Guðjónssyni, f. 1992, börn þeirra eru Ingvar Benni, f. 2022, og Ástborg Dúrra, f. 2024. Magni Snær, f. 1999. Harpa Líf, f. 2008. María Mekkín, f. 2008.

Dúrra ólst upp á Siglufirði, gekk þar í barnaskóla og lauk landsprófi. Snemma fór hún að vinna, starfaði sem ung stúlka á síldarplönunum og einnig í kjöt- og fiskbúð bæjarins. Árið 1962 réð hún sig sem vinnukonu austur á Hérað, nánar tiltekið á tilraunabúið á Skriðuklaustri. Það var mikið gæfuspor, því þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum Benedikt Jónassyni. Þau fluttu í Egilsstaði 1964 og bjuggu þar síðan, lengt af í Dynskógum 11. Eftir að Dúrra flutti til Egilsstaða starfaði hún um tíma við heimilishjálp á nokkrum barnmörgum heimilum í bænum, en vann svo um skeið hjá skóverksmiðjunni Agílu. Lengstan hluta síns starfsferils var Dúrra þó starfsmaður Bókasafns Héraðsbúa eða frá 1974 til starfsloka. Áratugum saman var hún einn af máttarstólpunum í starfi Leikfélags Fljótsdalshéraðs og var formaður þess um tíma auk þess að starfa á vettvangi Bandalags íslenskra leikfélaga. Hún steig á svið í fjölmörgum leiksýningum, sýslaði í leikmyndavinnu, búningagerð og leiðbeindi á leiklistarnámskeiðum.

Útför Kristrúnar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 27. desember 2024, kl. 13. Jarðsett verður í Valþjófsstaðarkirkjugarði. Streymt verður frá athöfninni á vefnum
egilsstadaprestakall.com

Elsku Dúrra amma mín, nafna og vinkona, ég á erfitt með að byrja að kveðja þig, því ég skil ekki hvernig við eigum að halda áfram án þín. Það er ekki hægt að segja Dúrra án þess að segja amma en vinir mínir segja alltaf Dúrra amma þegar þau tala um þig. Það er svo fast í okkur að Ingvar Benni kallaði systur sína Ástborg Dúrra amma fyrstu vikurnar.

Þú hefur mótað stóran hluta af bæði lífi mínu og persónuleika, ég hef sóst eftir því að vera í kringum þig frá því ég man eftir mér. Þú leyfðir mér að koma með þér í allt sem þú gerðir og skemmtilegast af því var að fá að koma á leikæfingar og sýningar, mér er ofarlega í minni þegar ég var 10 ára gömul og ég fór fjórum sinnum á leiksýninguna Sex í sveit, ekki mjög viðeigandi miðað við aldur en við vorum ekkert að spá í það.

Þegar ég hugsa um þig núna sé ég þig í kjallaranum á Dynskógunum við saumavélina en þar vorum við mikið saman, þar kenndir þú mér allt á milli himins og jarðar og við spjölluðum endalaust. Þegar ég hugsa til baka sungum við ekki mikið saman en það var alltaf tónlist í kringum okkur og við spáðum mikið í texta, enda vorum við báðar prýddar þeim hæfileika að muna alla texta og flestar okkar rökræður snerust um það, rökræðurnar umturnuðust svo þegar ég fékk snjallsíma og gat leitað á netinu að réttum texta en ekki bara treyst á það sem þú hélst að væri rétt.

Þegar ég fæddist var ég víst alveg eins og þú svo það kom ekki annað til greina en að ég fengi nafnið þitt, sem ég ber með stolti. Í dag segja systkini mín stundum „núna ertu alveg eins og Dúrra amma“ en þá er ég iðulega að reyna að muna eitthvað eða siða þau til. Ein af mínum uppáhaldsminningum er þegar þú hélst brúðkaupið okkar Snorra, þegar ég sagði þér að við ætluðum að gifta okkur eftir mánuð inni í Fljótsdal tókstu strax yfir skipulagið og úr varð dýrindis veisla, afi fór í skóginn og fann lund fyrir athöfnina sem var svo nefndur Kristrúnarlundur.

Þú hefur alltaf verið fyrirmynd mín og hjónaband ykkar afa sömuleiðis. Jól án Dúrru ömmu verða skrítin jól, enda varstu mikið jólabarn og vorum við mikið hjá þér á þessum tíma árs. Ég eyddi fyrstu tuttugu fjórum áramótum lífs míns hjá ykkur afa en tuttugusta og fjórða árið ætlaði ég að vera á Akureyri með manninum mínum en þegar líða fór á daginn trúði ég því ekki að nýja árið myndi koma ef ég væri ekki hjá ykkur afa, svo við brunuðum af stað til ykkar. Þú og Ingvar Benni áttuð svo fallegt vinasamband þrátt fyrir áttatíu ára aldursmun, hann saknar þín mikið og er nokkrum sinnum búinn að biðja um að fara til Dúrru ömmu. Ég er þakklát fyrir að þú fékkst að kynnast Ástborgu Dúrru nöfnu þinni áður en þú fórst og að hún hafi fengið að upplifa kærleikann sem þú umvafðir okkur með. Núna eruð þið afi sameinuð á ný en hjá mér er litli Benni og litla Dúrra og munum við heiðra minningu ykkar svo lengi sem við lifum. Þú skilur eftir stórt gat í lífi okkar sem við munum fylla af góðum minningum, söng og gleði að þínum hætti.

Þín

Kristrún Elva.

Dúrra dáði allt í kringum leikhúsið. Hún var í framvarðarsveit áhugamannaleikhússins. Dúrra var um árabil formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs. Hún lék, hún leikstýrði, hún hannaði og saumaði leikbúninga, sá um kaffi og með því og hvað eina sem gera þurfti til að halda starfseminni gangandi. Nú hefur hún yfirgefið leiksviðið í eitt skipti fyrir öll, á eigin forsendum. Elsku Dúrra, elsku, elsku langbesta systir, þín verður sárt saknað. Þú varst kletturinn minn. Alltaf gat ég treyst á þig, alveg frá því ég var hvítvoðungur. Vegna veikinda móður okkar tókst þú þig til, allt mitt fyrsta ár, og skaust heim í löngu frímínútunum í gagganum á Siglufirði til að baða litla bróður. Seinna meir tókstu þig upp og komst suður og hélst heimili fyrir okkur þegar veikindi steðjuðu að. Börnunum mínum varstu eins og amma, þú varst eins konar ættmóðir. Kletturinn þinn var hann Benni. Eins og ég hef oft sagt: þar sem Dúrra var var líka Benni. Þau voru svo samrýnd. Dúrra og Benni voru eiginlega eitt. Þau höfðu komið sér upp paradís í Fljótsdalnum, æskuheimili Benna, og þar ætluðu þau að eyða ævikvöldinu, dunda sér við skógrækt, kannski nokkrar kindur og hesta. Það var því mikið áfall þegar Benni féll skyndilega frá. Hann sem hafði barist með Dúrru í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð. Þegar krabbinn, sá djöfull, bankaði aftur upp á og Benni ekki lengur við hlið hennar ákvað Dúrra að láta gott heita og afþakkaði frekari læknismeðferðir, aðrar en að halda verkjum í skefjum. Fyrra skiptið með þeim mistökum öllum og afleiðingum þeirra var meira en nóg í hennar huga. Ég heimsótti Dúrru seinni partinn í nóvember og þá var hún hress og kát og sagðist hálfskammast sín fyrir að vera að taka pláss á Dyngju, hjúkrunarheimilinu. En skjótt skipast veður í lofti og þótt allir vissu hvert stefndi óraði mig aldrei fyrir því, á þeirri stundu, að rúmum þremur vikum síðar væri hún farin frá okkur. Hún var samt elskusátt við það sem í vændum var. Nú hafa á örfáum árum margir nákomnir fallið frá. Og í þessari viku hafa kvatt okkur uppáhaldssystir mín og uppáhaldstengdamóðir mín. Þær verða samferða inn í sumarlandið. Þær bera bestu kveðjur til Benna, Nonna bróður, Snorra bróður, Hjalta mágs míns, Jónínu tengdadóttur hans og allra hinna sem á undan fóru. Minningin um elskulega systur lifir, hún var „stórasta“ systir í heimi. Bestu óskir sendi ég til afkomenda hennar, fjölskyldunnar stóru sem hún lætur eftir sig fyrir austan.

Þinn bróðir,

Þórður (Doddi).

Mig langar að minnast mágkonu minnar, Dúrru, sem er kvödd hinstu kveðju í dag. Okkar kunningsskapur nær yfir rúm 60 ár og því margs að minnast og margt að þakka.

Við Dúrra kynntumst fljótlega eftir að þau Benni fóru að draga sig saman og okkur varð vel til vina. Þau reyndust mér alltaf vel og auðvelt var að leita til þeirra með eitt og annað.

Þegar við fluttum frá Víðivöllum til Egilsstaða þá fengum við inni í bílskúrnum hjá Benna og Dúrru og vorum við meira og minna þar á meðan við vorum að koma yfir okkur húsnæði á Egilsstöðum. Þegar kom svo að því að flytja inn þá lágu þau heldur ekki á liði sínu við flutningana.

Þegar Erlingur, fatlaður sonur minn, vildi reyna sig við bílprófið þá aðstoðuðu þau hann við bóklega námið og ég er hrædd um að lítið hefði orðið úr, ef þau hefðu ekki komið til aðstoðar.

Þau byggðu upp á Þuríðarstöðum, æskuheimili okkar Benna, og var sérstaklega gaman að sjá hvað þau lögðu mikið í uppbygginguna. Benni hélt upp á sextugsafmælið sitt þar og árið eftir, þegar ég varð sjötug, sagðist ég helst vilja halda það á Þuríðarstöðum og var það auðsótt. Það varð úr og var það í fyrsta sinn sem ég hélt upp á afmælið mitt með stórri veislu og tókst afar vel til.

Eftir að ég var flutt suður og fór austur í heimsókn þá gisti ég yfirleitt hjá þeim hjónum. Það hélst alltaf þessi góði þráður og við töluðum reglulega saman í síma þó lengra væri orðið á milli okkar.

Það var gaman að vera í kringum Dúrru og Benna og þau voru alltaf hrókar alls fagnaðar á mannamótum og sérstaklega er hægt að minnast á þorrablótin og ættarmótin. Einhverju sinni eftir að ég flutti suður þá brá ég mér austur á þorrablót í Fljótsdal, ásamt systrum mínum, Unni og Soffíu. Við gistum allar hjá Dúrru og Benna og þá sátum við öll langt fram eftir nóttu og rifjuðum upp gamla tíma og skemmtum okkur einstaklega vel.

Dúrru þakka ég samfylgdina og sendi sonum hennar og fjölskyldum þeirra, ásamt öðrum ástvinum, innilegar samúðarkveðjur.

Þórhildur Jónasdóttir frá Víðivöllum ytri II í Fljótsdal.