Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þegar Rishi Sunak lét af embætti forsætisráðherra Bretlands í júlí hélt hann stutta ræðu fyrir framan Downing-stræti 10. Ræðan er mér minnisstæð því hinn lánlausi forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins sýndi þar úr hverju hann er gerður

Þegar Rishi Sunak lét af embætti forsætisráðherra Bretlands í júlí hélt hann stutta ræðu fyrir framan Downing-stræti 10. Ræðan er mér minnisstæð því hinn lánlausi forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins sýndi þar úr hverju hann er gerður. Sunak bað kjósendur sína afsökunar á ósigrinum og axlaði ábyrgð á honum undanbragðalaust. Hann fór yfir árangurinn sem hann taldi stjórn sína hafa náð og tók fram að í stjórnarandstöðu þyrfti Íhaldsflokkurinn að vera ábyrgur og faglegur. Um Keir Starmer formann Verkamannaflokksins sagði hann við hlustendur: „Sigrar hans og árangur verða sigrar okkar allra.“ Sunak óskaði Starmer góðs gengis og sagðist bera virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni.

Ræðan var ekki löng, en á fáum mínútum tókst Sunak að kjarna það sem skiptir mestu máli við valdaskipti í lýðræðisríki: að viðurkenna úrslit kosninga, axla pólitíska ábyrgð, tala vongleði og frið inn í samfélagið og óska eftirmanni sínum alls hins besta. Hann sýndi lýðræðinu virðingu og þar með sjálfum sér og kjósendum öllum.

Mér hefur orðið hugsað til þessarar ræðu undanfarnar vikur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði í október til kosninga með nokkurra vikna fyrirvara til að endurnýja umboð ríkisstjórnar sinnar. Það tókst ekki en sjálfstæðismenn náðu þó að koma í veg fyrir stórsigur Miðflokksins. Vinstrigræn duttu út af þingi og Framsóknarflokkurinn beið afhroð. Sigurvegari kosninganna var Samfylkingin, sem er stærsti flokkurinn á þingi. Viðreisn vann líka stórsigur og Flokkur fólksins má vel við una. Íslenskir kjósendur sendu skýr skilaboð til valdhafanna: Við viljum ykkur ekki lengur!

Í stað þess að viðurkenna ósigur sinn hafa karlarnir sem leiða Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Miðflokkinn haft allt á hornum sér opinberlega. Tapsárir og vonsviknir allir þrír. Þessi framkoma þeirra hefur í raun verið hlægileg í samanburði við gleðina og bjartsýnina sem einkennir forystukonur nýju ríkisstjórnarinnar. Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland eru eins og ferskur andblær; kankvísar, ábyrgar og staðfastar. Það hefur áður verið sagt að samstaða og vinátta sterkra kvenna geti breytt heiminum. Ég skynja það svo sterkt alls staðar þar sem ég kem hvað fólki er létt og hvað Íslendingar eru til í breytingar og umbætur með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Í lýðræðisríki er nauðsynlegt að heimilisfesti valdsins sé ekki á sama stað um of langan tíma. Ekkert okkar á valdið. Við fáum það að láni frá kjósendum, frá fólkinu í landinu, á milli kosninga. Þetta skulum við hafa hugfast sem setjumst á þing á nýju ári. Hvort sem við styðjum ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur eða veitum henni andstöðu þá eru sigrar hennar sigrar okkar allra.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar og fv. umhverfisráðherra. tsv@althingi.is

Höf.: Þórunn Sveinbjarnardóttir