Jólabarn Stórstjarnan LeBron James vann enn og aftur á jóladag.
Jólabarn Stórstjarnan LeBron James vann enn og aftur á jóladag. — AFP/Thearon W. Henderson
Los Angeles Lakers hafði betur gegn Golden State Warriors, 115:113, á útivelli í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn æsispennandi en Austin Reaves skoraði sigurkörfu Lakers þegar ein sekúnda var til leiksloka

Los Angeles Lakers hafði betur gegn Golden State Warriors, 115:113, á útivelli í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum í fyrrinótt.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn æsispennandi en Austin Reaves skoraði sigurkörfu Lakers þegar ein sekúnda var til leiksloka. Skömmu áður hafði Steph Curry jafnað fyrir Golden State með stórkostlegri þriggja stiga körfu, langt fyrir utan þriggja stiga línuna.

Reaves skoraði 26 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. LeBron James var stigahæstur hjá Lakers með 31 stig og hefur stórstjarnan unnið alla 11 leikina sem hann hefur spilað á jóladag á löngum og farsælum ferli. Curry var stigahæstur hjá Golden State með 38 stig.

Lakers er í sjötta sæti Vesturdeildarinnar með 17 sigra og 13 töp. Golden State er í tíunda sæti með 15 sigra og 14 töp.

Phoenix Suns hafði betur gegn Denver Nuggets á heimavelli, 110:100. Bradley Beal og Kevin Durant voru stigahæstir hjá Phoenix með 27 stig hvor. Hjá Denver var Nikola Jokic atkvæðamikill að vanda en Serbinn skoraði 25 stig og tók 15 fráköst.

Boston Celtics, sem er í öðru sæti Austurdeildarinnar, tapaði óvænt fyrir Philadelphia, sem er í 11. sæti. Urðu lokatölur í Boston 118:114. Tyrese Maxey skoraði 33 stig fyrir Philadelphia og Jason Tatum 32 fyrir Boston.

Þá vann Minnesota Timberwolves útisigur á Dallas Mavericks, 105:99, og New York Knicks sigraði San Antonio Spurs, 117:114 á heimavelli sínum.