Sorpa leitar nú að nýjum urðunarstað í stað Álfsness og mun kanna möguleika á samstarfi við önnur byggðar- og sveitarfélög um að starfrækja urðunarstað. Þetta var samþykkt á fundi stjórnar Sorpu á dögunum og var framkvæmdastjóranum Jóni Viggó Gunnarssyni falið að kanna möguleika á slíku.
Á umræddum stjórnarfundi var lagt fram minnisblað framkvæmdastjórans en þar er rakið að á fyrri helmingi þessa árs hafi urðun í Álfsnesi dregist saman um 89% frá sama tíma í fyrra. Þetta má rekja til söfnunar á matarleifum og meðhöndlunar þeirra í jarðgerðarstöðinni Gaju, banns við urðun á lífrænum úrgangi á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi og útflutnings á blönduðum úrgangi til orkuvinnslu.
„Undanfarin tvö ár hafa átt sér stað samtöl við sveitarstjórnarmenn í sveitarfélögum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið, allt frá Hvalfjarðarsveit til Rangárvallasýslu. Enginn hefur léð máls á að taka upp viðræður um að byggja nýjan urðunarstað,“ segir í minnisblaði Jóns Viggós.
Þar segir jafnframt að í ljósi þess hversu magn urðunar hefur minnkað opnist möguleiki á að skoða samstarf við þá urðunarstaði sem þegar eru í notkun. Nefndir eru til sögunnar þrír urðunarstaðir fyrir úrgang á Vestur- og Suðurlandi. Sá stærsti er í Fíflholti á Mýrum en þegar sé í gildi skiptisamningur um úrgang milli Sorpu og Sorpurðunar Vesturlands. Þá er nefndur urðunarstaður á Strönd í Rangárvallasýslu þar sem nægt landrými sé fyrir hendi og að síðustu urðunarstaðurinn Hula á Skógarsandi. Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur séu einmitt að undirbúa starfsleyfisumsókn um stækkun þess urðunarstaðar. hdm@mbl.is