Ingi Ólafsson er fæddur 26. desember 1954 og varð því sjötugur í gær. „Ég fæddist í Reykjavík en á þessum tíma bjuggu foreldrar mínir í Kópavogi.
Sumarið 1958, þegar ég var á fjórða aldursári, fluttist fjölskyldan til Blönduóss en faðir minn hafði þá verið ráðinn sem kaupfélagsstjóri Kaupfélags Húnvetninga en þar bjuggum við í tíu ár. Árin á Blönduósi voru mjög ánægjuleg og eftirminnileg, þar var alltaf mikið um að vera og gaman að alast þar upp sem barn. Við krakkarnir vorum mikið úti í alls konar leikjum, enda var ekkert internet á þeim tíma og reyndar náðist ekkert sjónvarp þá á Blönduósi.
Ég var mikið í sveit á sumrin og fór í fyrsta skipti í sveit þegar ég var fimm ára. Ég var í sveit á hverju sumri eftir þetta á meðan við bjuggum fyrir norðan. Ég var í sveit á þremur bæjum í Vatnsdal í Húnavatnssýslu, en mest hjá Guðmundi Jónassyni og fjölskyldu í Ási. Mér fannst alltaf gaman í sveitinni og fékk hálfgerða sveitabakteríu sem fylgir mér enn. Við hjónin vorum um árabil með kindur og hesta í sveit, en nú látum við skógræktina duga.
Ég var í grunnskóla á Blönduósi fram að fermingu, þ.e. til sumarsins 1968. En þá fluttist fjölskyldan í Borgarnes því faðir minn hafði þá verið ráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Borgfirðinga. Síðustu tvö árin í grunnskóla voru í Borgarnesi og lauk ég landsprófi þar vorið 1970. Síðan lá leiðin í menntaskóla og lauk ég stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1975.
Eftir stúdentspróf réð ég mig sem kennara í grunnskóla einn vetur á Akureyri og líkaði mér það mjög vel. Síðan lá leiðin í HÍ og lauk ég BS-prófi í jarðeðlisfræði vorið 1980. Þá um haustið fluttum við til Noregs og fór ég í framhaldsnám í jarðeðlisfræði við háskólann í Bergen. Lauk Cand.real.-prófi árið 1983 og síðan doktorsprófi frá sama skóla árið 1987. Í mínu doktorsnámi fór ég til Bandaríkjanna í samtals fimm mánuði og vann með vísindamönnum á jarðvísindastofnun Columbíu-háskóla. Ég vann síðan sem sérfræðingur við Jarðskjálftastöð háskólans í Bergen í tvö ár eða þar til við fluttum heim til Íslands vorið 1988.
Ástandið á vinnumarkaði á Íslandi var ekki gott í mínum fræðum á þessum árum, en ég fékk vinnu á Orkustofnun í tímabundnu verkefni. Haustið 1989 var ég í hlutastarfi á Orkustofnun og velti þá fyrir mér hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Þá rifjaðist það upp fyrir mér hve gaman það var að kenna veturinn á Akureyri eftir stúdentspróf og ákvað þá að sækja um hlutastarf sem kennari í stærðfræði og eðlisfræði við Verzlunarskóla Íslands (VÍ). Kennarastarfið líkaði mér mjög vel og ég ákvað að vera einn vetur til viðbótar í fullu starfi. Málin þróuðust síðan þannig að ég starfaði í 32 ár í VÍ. Haustið 2000 var ég ráðinn aðstoðarskólastjóri og svo skólastjóri haustið 2007 og lét síðan af störfum í lok árs 2021.
Þegar við fluttum til Íslands settumst við að í Þorlákshöfn og bjuggum þar í 12 ár. Leiðin lá síðan til Reykjavíkur haustið 2000 og þaðan í Mosfellsbæ árið 2014, þar sem við búum enn. Fjölskyldan eyddi öllum sumrum í útilegur og heimsóttum við mjög marga fallega staði á landinu. Þetta voru mjög skemmtilegir og eftirminnilegir tímar, en hin síðari ár höfum við ferðast meira erlendis og þá oftast með vinum og vandamönnum.
Áhugamálin eru mörg, einkum ferðalög, útivera, veiðar, lestur góðra bóka og samvera með fjölskyldu og vinum.“
Fjölskylda
Eiginkona Inga er Ragnhildur J. Ásgeirsdóttir, f. 9.5. 1956. Þau kynntust í MA og gengu í hjónaband sumarið 1976. Ragnhildur starfaði sem kennari stóran hluta af sinni starfsævi. Foreldrar hennar voru Guðrún Sigurjónsdóttir verkakona, f. 15.4. 1932, d. 27.12. 2007, og Ásgeir Benediktsson fiskmatsmaður, f. 4.2. 1933, d. 24.3. 1988.
Synir Inga og Ragnhildar eru 1) Ásgeir viðskiptafræðingur, búsettur á Spáni, f. 1979, eiginkona hans er Patricia Zerpa viðskiptafræðingur, f. 1984; 2) Arnar verkfræðingur, búsettur í Mosfellsbæ, f. 1984, eiginkona hans er Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir tölvunarfræðingur, f. 1987, og 3) Viðar hagfræðingur, búsettur í Mosfellsbæ, f. 1986, eiginkona hans er Helga Katrín Gunnarsdóttir, klæðskeri og fatahönnuður, f. 1986.
Barnabörnin eru átta: Elena Dís, sambýlismaður: Arnar Huginn, búsett í Mosfellsbæ, Freyja og Liam Freyr á Spáni; Katla Björt, Þórey María og Eldey Lilja í Mosfellsbæ; Ragnhildur Þórunn og Þórdís Lilja í Mosfellsbæ.
Systkini Inga eru Sverrir, f. 1950, dr. í eðlisfræði, prófessor við HR, býr á Englandi; Hulda, f. 1953, sjúkraþjálfari og MBA, fv. framkvæmdastjóri Mímis símenntunar, býr í Reykjavík; Ólafur, f. 1957, viðskiptafræðingur og aðaleigandi Samskipa, býr í Sviss; Anna Elísabet, f. 1961, næringarfræðingur, MBA og dr. í lýðheilsufræði, fv. lýðheilsufræðingur hjá Kópavogsbæ, býr í Kópavogi.
Foreldrar Inga voru Anna Ingadóttir húsmóðir, f. 29.4. 1929, d. 1.10. 2002, og Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri, f. 13.5. 1923, d. 8.3. 2005.
Ingi og Ragnhildur fagna afmælinu með börnum, tengdabörnum og barnabörnum á Spáni yfir jólin.