Þráinn Guðmundsson fæddist 24. júní 1943. Hann lést 6. desember 2024.
Útför hans fór fram frá Selfosskirkju 19. desember 2024.
Þráinn kvaddi á aðventunni en hún var sannarlega hans tími. Hann var mikið jólabarn og lagði upp úr að skreyta mikið fyrir jólin og halda í hefðirnar. Þegar við fórum okkar síðustu bílferð um Selfoss hafði hann á orði hvað það væri skemmtilegt að jólaljósin væru komin upp snemma og að vonandi fengju þau að loga vel inn í nýja árið. Við förum ekki saman að kaupa jólahangikjötið þetta árið eins og við ráðgerðum en engan mat vissi hann betri. Það er margs að minnast en það sem einkenndi Þráin fyrst og fremst var ótrúlegur dugnaður og hjálpsemi og þær voru margar samverustundirnar sem við áttum í lengri og skemmri tíma þegar hann kom í vinnuferðir til að standsetja, smíða, laga, grafa og græja allt sem þurfti í húsum á mínum vegum. Þráinn kenndi mér margt og þau voru ófá símtölin og samtölin til að fá ráð og leiðbeiningar um hvaðeina sem sneri að byggingum og viðhaldi.
Hjartans þökk fyrir allt og allt.
Hildur.