Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Ferðamannaánauð á Íslandi er ekki meiri en árlegur fjöldi gesta í D'Orsay-listasafninu í París eða daglegur fjöldi gesta í Louvre-safninu í sömu borg.

Vilhjálmur Bjarnason

Það eru til nokkrar leiðir til að meta verðmæti. Þannig eru vörumerki metin til fjár. Vörur sem seldar eru með þessum vörumerkjum hafa allt annað verðmæti. Varan hefur verðmæti sem svarar til notagildis.

Þannig er heilsudrykkurinn Coca Cola neysluvara sem hefur misjafnt verð eftir því hvort selt er í lágverðsverslun eða vegaverslun sem selur drykkjarvöru sem hjávöru með eldsneyti.

Neytandann varðar aðeins eitt; verðið sem hann greiðir. Ef neytandinn vissi eitthvað um framleiðslukostnað vörunnar myndi hann aldrei láta skopast að sér með því að neyta vörunnar. Lágur framleiðslukostnaður en hátt söluverð er forsenda fyrir háu verði á vörumerki.

Vara eða þjónusta

Flest verðmætustu vörumerki í heiminum framleiða ekki vöru, þau framleiða þjónustu. Það minnir ritara á að í uppeldi hans voru um 20 togarar í Reykjavík og nokkur fjöldi vertíðarbáta. Nú eru gerðir út fimm togarar frá verstöðinni Reykjavík.

Í hvert skipti sem togara var lagt, ellegar seldur til niðurrifs, voru kveinstafir um yfirvofandi atvinnuleysi. Að ekki sé talað um þegar einhverju af fimm hraðfrystihúsum í borginni var lokað. Aldrei varð atvinnuleysi af þessum sökum. Eitthvert ferli var í gangi samhliða.

Ferlið var umbreyting samfélags úr framleiðsluhagkerfi í þjónustuhagkerfi.

Hluti af því ferli var notkun á loftferðasamningi Íslands og Bandaríkjanna, sem gerði Loftleiðum hf. kleift að flytja farþega milli Bandaríkjanna og Evrópu. Loftferðasamningurinn var auðlind sem skapaði verðmæti með því að flytja ferðamenn og þjónusta þá.

Þar sem vinnuafl átti val varð þjónusta við ferðamenn ekki þrælahald eins og sjávarútvegur í vistarbandi.

Það er áleitin spurning hve mikil verðmæti fylgja hverjum ferðamanni. Tilgáta ritara er sú að meðalferðamaður svari til tæplega eins tonns af þorski upp úr sjó.

Þannig hefur samdrætti að nokkru verið mætt með fjölgun ferðamanna, án þess að nokkurt samhengi sé þar á milli.

Þráhyggja um ferðaþjónustu

Á liðnum árum hefur þeim fjölgað sem velja að heimsækja Ísland af fúsum og frjálsum vilja. Á sama tíma hefur sjávarútvegur orðið arðsamur, án afskipta verðlagsráðs sjávarútvegsins, með oddamanni frá Þjóðhagsstofnun. Það hefur engum heilvita manni dottið í hug að stofna verðlagsráð ferðaþjónustu. Þeir sem ákveða verðlag í ferðaþjónustu eru neytendur ferðaþjónustu með eftirspurn eftir þjónustu.

Í nýbirtum samfélagssáttmála ríkisstjórnar er gælt við auðlindagjöld í tengslum við ferðaþjónustu. Það er allsendis óljóst hvort átt er við þjónustugjöld sem hægt er að tengja við veitta þjónustu eða geðþóttagjald í verklegri æfingu í auðlindahagfræði.

Ferðamenn þekkja „city tax“, sem hér á landi er kallaður gistináttagjald, og hefur enga tengingu við veitta þjónustu. „City tax“ tengja ferðamenn við veitta þjónustu á því svæði sem gist er á, þ.e. framlag sveitarfélags til veittrar þjónustu.

Bílastæðagjöld í Keflavík og á Þingvöllum, að ekki sé talað um stöðugjöld fyrir bila í borgum og bæjum, eru gjöld fyrir aðstöðu sem sveitarfélög láta í té. Enginn mótmælir gjöldum fyrir veitta þjónustu.

Skattar og skattspor

Ritari hefur barist gegn mati á ferðaþjónustu með því að áætla hlutdeild í landsframleiðslu. Enginn lifir af prósentum einum saman. Lifibrauð kemur af launum og hagnaði.

Hlutdeild Icelandair er í meðalárferði sem næst 3% af landsframleiðslu. Skattspor fyrirtækisins, þ.e. gjöld til ríkissjóðs sem hægt er að tengja við fyrirtækið, er vel umfram beingreiðslur í landbúnaði.

Með því að meðalferðamaður snæði tvær máltíðir af lambakjöti er heildarneysla erlendra ferðamanna um 1.000 tonn af lambakjöti. Það er auðlind fyrir bændur! Að auki hefur umbreyting í sveitum þar sem búskap er hætt og fjárhúsum er breytt í gistiaðstöðu látið jólaguðspjallið rætast. Frelsari vor var barn ferðamanna, þar sem ekki var rúm fyrir ferðamennina í gistihúsinu.

Umbreyting í sveitum hefur ekki leitt af sér fæðuskort.

Ritari hefur reynt að áætla tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu með virðisaukaskatti og eldsneytisgjöldum. Niðurstaðan er sem næst 50 milljarðar. Eru þá ótaldar skatttekjur vegna starfsfólks sem ella hefði gert „eitthvað annað“. Eins og tínt fjallagrös í flatkökur.

Til samanburðar má geta þess að tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti tengdum við sjávarútveg er sem næst núll. Helst er hægt að tengja virðisaukaskatt í sjávarútvegi við sölu á aðföngum til veitingastaða.

Alþjóðlegar skuldbindingar

Við lok síðari heimsstyrjaldar vildu framsýnir forystumenn efla tengsl þjóða með ferðalögum á milli landa.

Sáttmálar sem tengdir eru við Chicago, þ.e. ICAO, og aðrar alþjóðlegar samþykktir mæla fyrir um að þær þjóðir sem aðild eiga muni ekki leggja hömlur á ferðalög með beinum gjöldum.

Þannig eru tekjur flugvalla og flugstöðva ákveðnar í beinum tengslum við kostnað sem starfrækslunni fylgir, auk eðlilegrar arðsemi eigin fjár, sem í aðstöðunni liggur.

Komugjöld á ferðamenn, innlenda sem erlenda, eru í raun algerlega úr takt við alla praktíska hugsun. Eiga erlend flugfélög að þjóna þessu séríslenska dellumaki? Upplýsta ferðamenn fýsir litt að verða að skattborgurum og féþúfum í örðum löndum en borga glaðir fyrir góða þjónustu sem veitt er.

Ferðamannaánauð á Íslandi er ekki meiri en árlegur fjöldi gesta í D'Orsay-listasafninu í París eða daglegur fjöldi gesta í Louvre-safninu í sömu borg.

Samkeppni

Það vill til að ferðaþjónusta á Íslandi er í beinni samkeppni við ferðaþjónustu annars staðar í veröld. Virðisaukaskattur í lægra þrepi fyrir veitta þjónustu í ferðaþjónustu á sér skýringu í samkeppni við láglaunalönd í Austur-Evrópu. Þegar Þýskaland gafst upp var aðeins eitt að gera á Íslandi.

Frumleg landkynning er því fremur verkefni en frumleg skattheimta, sem enginn í víðri veröld þekkir.

Organistinn

„Við erum öll næturgestir á ókunnum stað. Það er yndislegt að hafa farið þessa ferð.“

En ég ætla að tala við forsetann í Kína eða páfann í Róm. Hvort það er til falls eða frægðar.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason