Á Tenerife Atli, Sigurbjörn, Markús Freyr, Helga, Elín Sóley og Anna Sóley.
Á Tenerife Atli, Sigurbjörn, Markús Freyr, Helga, Elín Sóley og Anna Sóley.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hæstaréttarlögmaður fæddist 28. desember 1964 í Reykjavík. „Fyrstu æviárin ólst ég upp í Bolungavík og hóf skólagöngu mína í grunnskóla Bolungavíkur á sjötta aldursári

Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hæstaréttarlögmaður fæddist 28. desember 1964 í Reykjavík.

„Fyrstu æviárin ólst ég upp í Bolungavík og hóf skólagöngu mína í grunnskóla Bolungavíkur á sjötta aldursári. Fjölskyldan flutti þá úr víkinni í Hvammana í Kópavogi.

Ég hélt grunnskólanámi mínu áfram í Kópavogsskóla til 12 ára aldurs og því lauk í Víghólaskóla eins og tíðkaðist í austurbæ Kópavogs. Eftir grunnskóla tók við nám í Verslunarskóla Íslands sem ég lauk með verslunarprófi. Eftir tveggja ára námshlé hóf ég aftur nám til stúdentsprófs við öldungadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti og lauk prófi á tilsettum tíma með fullri vinnu. Að loknu stúdentsprófi 1986 hóf ég nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með embættispróf í lögfræði vorið 1991.

Ég bar út Morgunblaðið í hverfinu heima og vaknaði til þess eldsnemma fyrir skóla á morgnana. Suma daga seldi ég líka síðdegisblöðin DV og Vísi í lausasölu eftir hádegi í miðbænum. Blaðburðinum fylgdi sú skylda að innheimta áskriftargjöldin sem fól í sér að banka upp á hjá áskrifendunum með litla forprentaða kvittanablokk og innheimta gjaldið.

Veturinn sem ég byrjaði í Víghólaskóla fékk ég vinnu hjá verktakafyrirtækinu Hákoni og Kristjáni sf. ásamt bekkjarbróður mínum. Á misjöfnu þrífast börnin best sagði Hákon byggingameistari og réð mig til starfa við naglhreinsun, timbursköfun og handlang í smiði og síðar múrara. Verkefnið var bygging Hamraborgarinnar í Kópavogi og unnum við félagarnir þar með skóla á veturna og í fullri vinnu á sumrin þar til grunnskólanámi lauk. Með náminu í Versló starfaði ég tvö sumur í fiskverkun útgerðarfélagsins Barðans sem rak frystihús við sandgryfjurnar í Kópavogi.

Veturinn 1981 bauðst framhaldsskólanemum vinna við gerð manntals. Verslingar tóku þátt í því og labbaði ég Langholtsveginn á enda, knúði á hverjar dyr og grennslaðist m.a. fyrir um hvernig skiptingu heimilisstarfa væri háttað og hvort rafmagn og rennandi vatn væri í húsum.

Að loknu verslunarprófi fékk ég vinnu í Útvegsbankanum á Lækjartorgi við erlendar innheimtur. Deildin sá um greiðslumiðlun til útlanda vegna hvers kyns vöruinnflutnings til landsins. Meðal daglegra verkefna minna var að sækja gengisskráningu hvers dags í Seðlabankann sem þá hafði aðstöðu á annarri hæð í gamla Landsbankahúsinu. Að morgni dags gerði ég vart við mig við skrifstofuhurð Seðlabankans og settist svo í stól utan við dyrnar og beið þess að hönd væri rétt út um rifu sem opnaðist milli stafs og hurðar með gengi dagsins, sem ég labbaði með í Útvegsbankann, fjölfaldaði og dreifði til þeirra sem á þurftu að halda. Eftir tveggja ára starf í bankanum réð ég mig til vinnu hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og annaðist innflutning á sjúkravörum frá erlendum birgjum fyrir Borgarspítalann.

Eftir útskrift frá lagadeild Háskólans starfaði ég sem fulltrúi hjá lögmannsstofu feðganna Valgarðs og Garðars Briem, allt þar til ég stofnaði eigin lögmannsstofu árið 1997. Ég öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1994 og fyrir Hæstarétti árið 2011 og ég hef alla tíð haft ómælda ánægju af lögmennskunni.

Ég hef verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi lögmanna í félaginu TCM Group International sem einbeitir sér að verkefna- og viðskiptum félagsmanna milli landa og heimsálfa. Ég sat í stjórn félagsins frá 2003 til 2015 og var framkvæmdastjóri þess frá 2010 til 2015. Ég var kjörinn heiðursfélagi TCM Group árið 2015 og settist í stjórn félagsins á ný með kjöri síðasta vor auk þess sem ég starfa nú sem annar tveggja framkvæmdastjóra félagsins.

Starfið með TCM hefur reynst heilladrjúgt og því hafa fylgt ferðalög á framandi slóðir og til allra heimsálfa að Suðurskautslandinu slepptu. Aðalfundir eru haldnir árlega og reglan er sú að við hittumst aldrei í sömu heimsálfu tvö ár í röð. Fyrr í vetur fór ég í tveggja vikna ferð á vegum félagsins til Kína, þar sem leiðin lá til Peking og þaðan með hraðlestum til fimm borga í suðurátt og endaði í Hong Kong.

Ég er göngugarpur og nýt þess að fara um fótgangandi, hvort sem er í hverfinu heima eða úti í náttúrunni. Ég byrjaði barnungur að veiða á stöng og fyrsta silunginn veiddi ég í Ósá í Bolungarvík. Ég eyði drjúgum hluta hvers sumars við stangveiði sem er einstök náttúruupplifun í góðum félagsskap. Ég spila tennis í Tennishöllinni á veturna sem auk ánægjunnar af leiknum eykur manni bæði styrk og þol. Til mótvægis við hlaupin og göngurnar stunda ég Viny-jóga undir leiðsögn sem hefur reynst mér mikil heilsubót. Bestu stundirnar á ég í faðmi fjölskyldunnar hvort sem er heima eða á ferðalögum.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurbjörns er Helga Loftsdóttir, f. 26.8. 1962, lögmaður. Þau eru búsett í Þingahverfi í Kópavogi. Foreldrar Helgu eru hjónin Loftur Jónsson, f. 3.1. 1938, fv. skrifstofumaður í Grindavík, og Eyrún Steinunn Samúelsdóttir, f. 1.11. 1941, húsmóðir. Þau eru nú búsett í Hveragerði.

Börn Sigurbjörns og Helgu eru: 1) Elín Sóley, f. 2.8. 1995, með meistarapróf í líf- og læknavísundum, starfar hjá Alvotech. Maki: Atli Arnarson, f. 29.11. 1993, með meistarapróf í fjármálahagfræði, starfar hjá Gildi lífeyrissjóði. Dóttir þeirra er Anna Sóley, f. 25.6. 2024. Þau eru búsett í Lindahverfi í Kópavogi; 2) Markús Freyr, f. 2.8. 1995, með meistarapróf í tölvunarfræði, starfar hjá SynergiSky og er búsettur í Osló.

Systkini Sigurbjörns: Drengur, f. 13.1. 1956, d. sama dag; Kristján Ásgeir Þorbergsson, f. 30.3. 1957, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík; Helga Þorbergsdóttir, f. 26.7. 1959, hjúkrunarfræðingur í Vík í Mýrdal, og Þorgils Hlynur Þorbergsson, f. 17.3. 1971, guðfræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Sigurbjörns voru hjónin Þorbergur Kristjánsson, f. 4.4. 1925, d. 28.9. 1996, sóknarprestur í Kópavogi, og Elín Þorgilsdóttir, f. 24.1. 1932, d. 26.4. 1999, húsfreyja í Kópavogi.