— The New York Times/Luis Antonio Rojas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Janúar Nautaat var endurvakið í Mexíkó seint í mánuðinum á La Plaza México, stærsta leikvangi sinnar tegundar í heiminum, eftir tveggja ára hlé vegna lagalegra álitaefna og vaxandi áhyggja af velferð dýra

Janúar Nautaat var endurvakið í Mexíkó seint í mánuðinum á La Plaza México, stærsta leikvangi sinnar tegundar í heiminum, eftir tveggja ára hlé vegna lagalegra álitaefna og vaxandi áhyggja af velferð dýra. 42 þúsund manns smekkfylltu leikvanginn og var innilega fagnað þegar leikar hófust en fyrir utan stóð á fjórða hundrað dýraverndarsinna fyrir mótmælum. Enda þótt nautaat sé leyft vítt og breitt um landið er óvíst um framhald þess í höfuðborginni, Mexíkóborg.

Apríl Milljónir manna urðu vitni að síðasta almyrkva sólar þangað til 2044. Almyrkvinn hófst við sólarupprás yfir Kyrrahafinu og náði yfir Mexíkó, Bandaríkin og Kanada. Áhorfendur, sem margir hverjir voru komnir um langan veg, voru með hlífðargleraugu meðan þeir fylgdust með himninum myrkvast meðan tunglið renndi sér milli jarðar og sólar. Segja má að myrkvinn hafi náð að sameina klofinn heim, þó ekki nema um stund.

Mars Eftir rafmagnsbilun sigldi fraktskipið Dali á Francis Scott Key-brúna í Baltimore 26. mars. Það varð til þess að brúin hrundi og sex byggingaverkamenn týndu lífi. Neyðarskeyti fáeinum mínútum fyrir áreksturinn barst í tæka tíð, þannig að hægt var að loka brúnni fyrir umferð og koma þannig í veg fyrir frekari mannskaða. Skipaskurðurinn í Baltimore var opnaður aftur í júní eftir að búið var að fjarlægja þúsundir tonna af stáli úr Patapsco-ánni. Gert er ráð fyrir að taka muni nokkur ár að byggja nýja brú.

Febrúar Reiðir bændur þvert yfir Evrópu mótmæltu á götum úti svo vikum skipti, lokuðu hraðbrautum, skutu upp flugeldum og settu upp vegatálma til að mótmæla því sem þeir kalla ósanngjarna verslunarstefnu, auk þess sem þeir hafa áhyggjur af umhverfismálum og fleiru. Mótmælin, sem ollu miklum umferðartöfum í álfunni, settu pressu á leiðtoga Evrópusambandsins, sem aftur varð til þess að sumir þeirra hörfuðu frá lykilstefnu sinni. Það gæti átt eftir að hafa varanleg áhrif á matvælakerfi álfunnar og pólitíkina í kringum það.

Maí Suður-Afríkumenn gengu að kjörborðinu í sögulegum kosningum. Í fyrsta skipti síðan aðskilnaðarstefnan var lögð niður fyrir 30 árum hlaut Afríska þjóðarráðið – flokkurinn sem frelsaði þjóðina undan þeirri stefnu – minna en 50% atkvæða. Pólitísk óvissa var mikil í framhaldinu en 14. júní var mynduð þverpólitísk samsteypustjórn á löggjafarsamkundunni og bað hún Cyril Ramaphosa að gegna áfram embætti forseta. Margir Suður-Afríkumenn ala þá von í brjósti að þessi nýja samsteypustjórn verði til þess fallin að gera flokkum kleift að vinna betur saman til að bæta ástandið í landinu.

Mars Þúsundir manna hvaðanæva frá Rússlandi lögðu leið sína til Moskvu til að vera við útför aðgerðasinnans atkvæðamikla Alekseis A. Navalníjs, sem lést í fangelsi 16. febrúar. Navalníj, sem var 47 ára þegar hann lést, leiddi stjórnarandstöðuna gegn Vladimír V. Pútín Rússlandsforseta í meira en áratug. Hann afplánaði dóm fyrir ýmsar sakir sem, ef marka má stuðningsmenn hans, voru skáldaðar upp til að þagga niður í honum. Ekkja hans, Júlía Navalníj, birti myndband þar sem hún þakkaði fólki fyrir að heimsækja gröf hans og lofaði að halda baráttu hans áfram.

Janúar Narenda Modi forsætisráðherra vígði Ram-hofið á Norður-Indlandi 22. janúar. Hofið var reist á 70 ekrum og kostaði 250 milljónir dollara. Tilgangurinn með framkvæmdinni var að tryggja yfirburði hindú sem trúarbragða með því að tengja hindúa þvert á stéttir og þjóðflokka. Hofið er á umdeildum stað en þar stóð áður aldagömul moska sem lög var í rúst fyrir meira en þremur áratugum af herskáum hindúum. Þjóðræknir hindúar hafa líkt hofinu við Páfagarð og Mekka.

Apríl Stúdentar við háskóla í Bandaríkjunum og víðar marseruðu gegnum háskólasvæði, slógu upp tjaldbúðum og lögðu undir sig byggingar til að mótmæla stríði Ísraelsmanna og Hamas. Margir mótmælendur kröfðust þess að skólar þeirra riftu tengslum við öll fyrirtæki sem högnuðust á stríðinu á Gasa, sem hófst eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael í október 2023. Mótmæli þessi stigmögnuðust í apríl, þegar stúdentum hliðhollum Palestínu laust saman við lögreglu, öryggisverði og skólastjórnendur. Þetta varð til þess að útskriftarhátíðum var aflýst vegna ótta við vaxandi gyðingaandúð, auk þess sem hundruð stúdenta voru handtekin. Búðirnar á myndinni eru við Columbia-háskóla í New York.

Febrúar Brasilíska borgin Olinda er löngu orðin fræg fyrir risabrúður á kjötkveðjuhátíðinni, árlegri hátíð þar sem menningu þjóðarinnar og sögu er fagnað í aðdraganda öskudags. Brúðurnar, sem kallast „bonecos“, eru látnar líkjast frægðarmennum og er brúða úr leir og pappír í líki leikarans Johns Travolta jafnan á fyrsta farrými.

Maí Sterkur jarðsegulmagnaður sólstormur í maí skóp norðurljós á svæðum í heiminum, þar sem þau sjást alla jafna ekki. Um var að ræða sterkasta storm þessarar gerðar í meira en tvo áratugi og staðir eins sunnarlega og Flórída og Nýja-Mexíkó gátu notið litadýrðarinnar á himni. Alla jafna er sjónarspil þetta aðeins í boði norðar á hnettinum, nærri norðurpólnum, eins og við Íslendingar þekkjum.