Átök Skáldsaga Ragnhildar Bragadóttur varpar ljósi á ofbeldi í nánum samböndum.
Átök Skáldsaga Ragnhildar Bragadóttur varpar ljósi á ofbeldi í nánum samböndum. — Ljósmynd/Þeódóra A. Sig. Thoroddsen
Ragnhildur Bragadóttir sendi á dögunum frá sér sína fyrstu skáldsögu, Klökkna klakatár, sem fjallar um ekkju þjóðfrægs rithöfundar sem situr við að koma skikki á skjöl eiginmanns síns en reynir jafnframt að henda reiður á stormasömu lífi þeirra saman

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Ragnhildur Bragadóttir sendi á dögunum frá sér sína fyrstu skáldsögu, Klökkna klakatár, sem fjallar um ekkju þjóðfrægs rithöfundar sem situr við að koma skikki á skjöl eiginmanns síns en reynir jafnframt að henda reiður á stormasömu lífi þeirra saman. Sjálf er Ragnhildur ekkja rithöfundarins Sigurðar A. Magnússonar og segja má að efnistökin standi henni nærri.

Að hve miklu leyti er bókin byggð á eigin lífsreynslu?

„Rithöfundur getur vart skrifað um eitthvað sem hann þekkir ekki. Sigurður og ég vorum í samvistum á fjórða tug ára, giftumst og eignuðumst barn, þó ekki í þessari röð eins og háttur margs landans er. Má vera að Sigurður sé fyrirmyndin en hann var áhugaverður persónuleiki. Sjálfur skrifaði hann eigin uppvaxtarsögu þar sem hann breytti nöfnum, en ekki söguþræði ævi sinnar.

Saga mín er byggð að hluta til á eigin reynslu en skáldsaga skyldi hún þó vera, því ef ég hefði skrifaði endurminningar þá yrðu þær svipaðar og hans, en hann skrifaði ævisögu sína í níu bindum. Ég hefði þá auk þess frjálsari hendur enda er efniviðurinn þannig að betur fer á að hylja raunverulega slóð sögupersóna. Maður fjarlægir sig sögupersónum með að segja sögu þeirra í þriðju persónu og það veitir manni meira svigrúm. Kvikmyndir hefjast oft á að tekið sé fram að hér sé sönn saga á ferð, en með fyrirvara. Nöfnum og atvikum sé breytt í listrænum tilgangi. Skáldaleyfi,“ segir Ragnhildur.

Skrifin hreinsun sálar

Ragnhildur segist hafa byrjað á bókinni fyrir sjö árum.

„Ég hóf að skrifa stutta sundurlausa kafla um hitt og þetta sem kom upp í hugann og var mér til hugarhægðar, stóð í þrifum, hreinsun sálar. Ég fór svo að raða köflunum saman og þá sá ég að þetta gæti orðið að bók. Ég lagði þó handritið frá mér. Löngu síðar tók ég það upp úr fórum mínum og bar undir örfáa bókmenntavitringa sem hvöttu mig til að gefa skrifin út. Þá bar ég það undir útgefanda sem tók mér vel.

Tilfinningaþroski barns

Sagan fjallar um Þorgeir sem vex ekki upp úr bernsku sinni og konu hans, Brynju, sem reynir hvað hún má til að halda sönsum. Maður þessi er gæddur ofurgreind og hæfileikum. Hann er að mörgu leyti á skala sénís, en persónuleiki hans og tilfinningaþroski er barnsins. Slík samsetning er eldfim og samband þeirra gneistar eldi. Hvað gagnast það þegar heilinn er í yfirvinnu en hjartað er atvinnulaust? Sagan tekur mið af þessu.

Brynja er hrekklaus kvenpersóna sem heillast af frægum og flottum rithöfundi. Hún lætur kúgast af Þorgeiri um árabil, svo henni liggur við sturlun, því hann er illa haldinn af narsissisma, eða sjálfsdýrkun, allt þar til hún valdeflist loks undir dauða hans. Nóbelsverðlaunahöfundurinn Margaret Atwood sagði eitt sinn að aldrei mætti komast upp á milli spegilsins og snillingsins. Sagan er könnunarleiðangur. Hvað gerðist? Hvar brotlenti þessi maður, hvað bjó að baki skapbrestum hans, sem voru geigvænlegir, og sviksamlegri háttsemi? Maður sem elst upp í ástleysi og ömurð verður sjaldan heill. Þorgeir tók ítrekað rangar ákvarðanir svo til hörmunga horfði og svona menn eru hættulegir í sambúð.

Eyðingarafl til langs tíma

Fyrstu drög voru skrifuð nokkrum mánuðum fyrir Me-too-byltinguna og kona nokkur sagði mér að allar ungar stúlkur ættu að lesa þessa bók. Bókin er ekki jólabók heldur frekar kennslubók sem nota mætti í sálfræðinámi eða félagsfræði því karlar af þessu sauðahúsi eru enn á meðal okkar. Þó fer þeim fækkandi – konur hafa séð til þess – en þó er kona myrt af maka eða fyrrverandi maka á 10 mínútna fresti í heiminum og það fyrsta sem tapast ef til átaka kemur í veröldinni eru kvenréttindi. Sagan fjallar um tilfinningar en ekki skynsemi og sögupersónur eru þvældar í net ástar-haturssambands og eygja ekki útgönguleið. Þau unnast, en fá ekki notið hvort annars. Svo hefst nokkuð sem Brynja kunni ekki skil á á þessum tíma en er nú alþekkt í nánum samböndum, andlegt ofbeldi eða tilfinningaofbeldi. Slíkt ofbeldi er eyðingarafl til langs tíma litið.“

Vill aðskilja list og listamenn

Í bókinni er meðal annars varpað fram þeirri spurningu hvort hæfileikar afsaki hegðun.

Hverjar eru þínar hugleiðingar varðandi líf með listamönnum? Leyfist þeim meira en öðrum?

„Listamönnum leyfist ýmislegt og það er af hinu góða, höft, bæling, fordómar spilla fyrir list. Ég vil aðskilja list og listamann rétt eins og það að ekki skal lasta manninn, fremur löstinn. Margir listamenn sögunnar hafa jafnvel framið höfuðglæpi en við vildum ekki vera án listaverka þeirra. Listamenn eru oftar en ekki erfiðir í umgengni, þeir hugsa gjarnan öðruvísi, eru sjálfhverfir og elska list sína jafnvel meira en fjölskyldu. Svo búa þeir oftar en ekki við vanefni og eru misskildir en þá er voðinn vís.

Eiginkonur listamanna lifa iðulega í skugga frægðar þeirra. Þær verða að vera nægjusamar og þola yfirgang eiginmannsins, allt fyrir listina. Margir listamenn hafa valið sér sérstaka gerð af eiginkonu, konu sem styður við bakið á þeim og fórnar sér fyrir listina. Aðrir velja sér lífsförunaut sem er eins og þeir sjálfir, séu þeir t.d. drykkfelld skáld eða málarar. Það endar bara með ósköpum.

Svo fellur gríman

Bókin talar inn í samtímann því enn þrífst ofbeldi sem áður og fer þá leynt. Konur þurfa að vera sér meðvitaðar um rauðu flöggin. Allt byrjar þetta með ást og unaði, en svo fellur gríman. Vonandi opnar saga mín augu kvenna fyrir því hvar skaðvaldar sitja á fleti fyrir, ekki til að sneiða hjá þeim, heldur til að uppræta þessa óæskilegu hegðun. Bókin ber heitið Klökkna klakatár því þegar orsakir slíkrar framgöngu eru kunnar, þá fyrirgefst margt. Klakatárin þiðna á vanga,“ segir Ragnhildur.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir