Beatriz Milhazes
er brasilískur listamaður. Tate St. Ives-galleríið í London sýndi úrval verka hennar á árinu á sýningunni „Beatriz Milhazes: Maresias“ og hún tók enn fremur þátt í Feneyjatvíæringnum.
Impressjónistahreyfingin, sem átti upphaf sitt á ofanverðri 19. öldinni og setti varanlegt mark á nútímalist, var framtak listamanna sem töldu akademíska staðla vera dragbít á sköpunargáfu sína. Brutust þeir úr fjötrunum og fylgdu eigin innsæi og skynjun með hringrás náttúrunnar sem leiðarhnoða.
Þótt 150 ár séu liðin frá fyrstu impressjónistasýningunni býr hreyfingin enn yfir grípandi afli sem veitir okkur innblástur til að endurmeta menningarlegar hefðir og valdamynstur sem úrskurðarvald okkar smekks. Sýnilega hefur arfleifð impressjónistanna verið okkur hvatning í átt að því að uppgötva nýjar listastefnur sem varpa ljósi á samband okkar við umheiminn. Félagslega hefur hún auðveldað okkur að leggja mat á skapara þeirrar listar – og frásagna – sem við veljum sem þátttakendur í sýningum á söfnum og í galleríum.
Eftir að impressjónistar voru hraktir út úr ríkisstyrktum sýningarsölum árið 1874 héldu þeir sína fyrstu sýningu á vinnustofu ljósmyndarans Gaspard-Félix Tournachon (sem þekktur er sem Nadar). Dirfska, festa og gáfur listmanna þessara, einkum Claudes Monets, kveiktu fjölda spurninga um rök hins sjónræna. Hópurinn var einkum í Frakklandi, landi sem bar höfuð og herðar yfir listaheiminn og setti menningarlega, listræna og menntunarlega staðla þessa tíma.
Á 21. öldinni finnst ekki lengur pláss fyrir einangraðar hreyfingar eða gnæfandi þemu sem skilgreina heil tímabil. Menningarhópar, lönd og heimsálfur búa ekki yfir óskoruðu fjármagnsvaldi sem samkvæmt fyrri tíma hefðum deildi og drottnaði á sviði vitsmunalegra yfirburða og skóp þróun sögunnar.
Útlendingar alls staðar
Þeir listamenn munu ávallt fyrirfinnast sem skera sig úr fjöldanum fyrir frumleika í hugsun og eru drifkraftur þróunar á vettvangi listasögunnar. Hjá síðimpressjónistanum Vincent van Gogh sjáum við einstakar pensilstrokur og ákafa punktastefnu [e. pointillism] í fíngerðri snilldinni. Van Gogh beitti tækni sinni – litasamsetningu með nánast ofsafengnum andstæðum – til að tjá þær hráu tilfinningar sem hann skynjaði í náttúrunni og samspili þeirra við innanstokksmuni og fólk.
Nú til dags geta listamenn hins vegar sprottið fram úr öllum heimshornum og sett sannan hnattrænan blæ á þær sögur sem við miðlum með listinni. Samhliða efnahagslegum og félagslegum breytingum, að ógleymdri stafrænu byltingunni, hefur listaheimurinn dreift vitsmunalegu, skynrænu og efnahagslegu valdi sínu og með því breytt þróun alþjóðlegrar listasögu. Listamenn nútímans vaxa upp úr viðteknum evrópskum stefnum og baða sig í atburðum síns nærumhverfis og menningarupplifunum.
Í fyrsta sinn árið 2024 gerðist það í sögu Feneyjatvíæringsins, þeirrar annáluðu alþjóðlegu listasýningar, að sýningarstjórinn var hvorki evrópskur né norðuramerískur. Stjórinn, Adriano Pedrosa, er frá Brasilíu. Stjórn hans á sextugustu sýningunni, sem bar undirtitilinn „Stranieri Ovunque – Útlendingar alls staðar“ endurspeglaði víðfeðmar rannsóknir hans og sterkan feril að viðbættu sjónarhorni sem hann telur mikilvægt í nútímanum.
Takmarkalaust frelsi og sveigjanleiki
Þetta nýmæli á Feneyjatvíæringnum höfðar sterkt til mín sem Brasilíumanns. Eftir því sem ég hef upplifað við að þróa tungumál listarinnar, með málverkið sem minn höfuðmiðil, hefur evrópsk og brasilísk nútímalist verið mér innblástur sem ég tengi Rio de Janeiro og minni eigin arfleifð.
Grunntónninn í mínum verkum eru hin lífrænu mynstur Henris Matisses sem fagna lífinu og könnunarleiðangur Piets Mondrians um náttúruleg mynstur gagnvart borgarhönnun.
Brasilískir listamenn hafa einnig blásið mér í brjóst, þar á meðal Tarsila do Amaral og allt að því súrrealísk sköpunarverk hennar, sem lágu sjónrænni og stefnubundinni þróun brasilískrar nútímalistar til grundvallar, auk Fernandos Pintos sem var handgenginn list kjötkveðjuhátíðarskrúðganganna í Rio de Janeiro.
Í verkum mínum leitast ég við að skapa eitthvað sem aukið getur nýrri listrænni hugsun við listaheim okkar tíma. Þeirri áskorun fylgdi tilfinning takmarkalauss frelsis og sveigjanleika með virðingu fyrir minningu og arfleifð listasögunnar. Á vinnustofu minni við Grasagarðinn í Rio de Janeiro skoða ég hvað málverk fortíðarinnar hafa sýnt mér og íhuga hvernig ég geti fært þann lærdóm inn í nútíðina.
Ég beini sjónum að alheiminum og hinum náttúrulega heimi umhverfis mig. Náttúran er tengd mannfólkinu og þörfum þess órofa böndum auk þess sem hún á sér mennskan þátt sem er andlegur, viðkvæmur og ljóðrænn. Þetta legg ég við ástríður mínar, gleði og ástúð og blanda kærleika mínum til listarinnar við og þeirri trú minni að listin búi yfir afli til að breyta hugsanagangi fólks í átt að því að skapa betri heim.
„Colorido Cósmico“ sem þýðir „Litbrigði alheimsins“ er eitt fimm málverka sem ég þróaði sérstaklega fyrir skálann Nýtilega list [e. Applied Arts Pavilion] á Feneyjatvíæringnum 2024 og voru unnin í samstarfi við Viktoríu- og Albertssafnið í London sem er nátengt alþjóðlegri nálgun nútímalistarinnar. Þessum alþjóðlegu tengslum var ekki til að dreifa á öld impressjónistanna af pólitískum, félagslegum og tæknilegum ástæðum.
Við sköpun „Colorido Cósmico“ kynnti ég mér textíl og útsaum frá ólíkum tímum og stöðum heimsins. Mig langaði til að draga fram áhersluna á hendurnar sem unnu textílinn og ná taki á draumum þeirra. Til að ná þessu fram notaði ég lifandi, stundum andstæðukennda, akrýlliti á hörflöt og dró upp rúmfræðileg mynstur innblásin af náttúrunni. Litagleði mín er sprottin af því að gaumgæfa náttúruna og stilla þróun hennar upp sem list.
Drögum lærdóm af fortíðinni
Listin endurspeglar ávallt hinar áköfu breytingar nútímans og umfaðmar síðustu myndbrot nútímamannkyns betur en nokkur annar kimi menningarinnar.
Impressjónistarnir urðu sérfræðingar í ástundun listarinnar, þeir fundu tilgang í áskorunum sínum og vöktu upp hið ljóðræna, dramatíska og óvænta sem þungamiðju ástundunar sinnar. Þeir höfðu vökult auga með umheiminum, höfðu upplifun sína af náttúrunni í hávegum og hömpuðu þörfinni fyrir frelsi.
Í dag drögum við áfram lærdóm af fortíðinni til að leggja rækt við framtíðina. Förum að dæmi impressjónistanna og leyfum sköpunargáfu okkar að færa okkur nýjar leiðir til að tjá okkur og heimsmynd okkar með listina að vopni.
© 2024 The New York Times Company og Beatriz Milhazes