Grágæs Gæsavarp virðist hafa tekist misjafnlega á árinu.
Grágæs Gæsavarp virðist hafa tekist misjafnlega á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungahlutfallið hjá heiðagæsum í ár var betra en menn leyfðu sér að vona að sögn Arnórs Þóris Sigfússonar dýravistfræðings hjá Verkís. Vegna hrets í júní var óvissa um hvernig gæsavarpið myndi heppnast hjá heiðagæsum en ungahlutfallið var um 26%

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ungahlutfallið hjá heiðagæsum í ár var betra en menn leyfðu sér að vona að sögn Arnórs Þóris Sigfússonar dýravistfræðings hjá Verkís. Vegna hrets í júní var óvissa um hvernig gæsavarpið myndi heppnast hjá heiðagæsum en ungahlutfallið var um 26%.

„Það er þokkalegt, en maður óttaðist að það yrði verra vegna þess að það kom hret akkúrat þegar ungarnir voru sums staðar að koma úr eggjum. 26% er svipað og verið hefur undanfarin ár fyrir utan árið í fyrra, sem var mjög gott hjá heiðagæsinni,“ segir Arnór.

Fékk 2.500 vængi

Á heildina litið segir Arnór að útlitið sé ágætt. Niðurstöðurnar séu sístar hjá grágæsinni miðað við það sem búist hafði verið við. Ungahlutfall hjá grágæs var um 47%, sem er yfir meðaltali að sögn Arnórs en er lægsta hlutfall síðan 2014 sem þótti lélegt ár hjá grágæsinni.

„Hjá helsingjum var þokkalegt ár eins og í fyrra. Ungahlutfallið var 25%. Menn vonast til að hann jafni sig fljótt eftir flensuna.“

Arnór óskar eftir því á hverju ári að fá vængi frá veiðimönnum til að auðvelda sér að meta stærð stofnsins. Fékk hann 2.500 gæsavængi þetta árið.

„Já, það er minna en oft enda var sett sölubann á grágæs og helsingja. Því hefur væntanlega dregið úr veiðinni en þetta er marktækt sýni,“ segir Arnór Þórir Sigfússon.