Inga Þóra Pálsdóttir
ingathora@mbl.is
Um 40 manns eru í einangrun á Landspítala vegna öndunarfærasýkingar. Ástandið á spítalanum er þungt að sögn Hildar Helgadóttur, formanns farsóttanefndar Landspítalans. Hildur segir margar veirur vera að ganga um samfélagið.
„Það eru mikil veikindi í samfélaginu og við erum farin að sjá fólk með inflúensu koma inn til okkar.“
Á aðfangadag var ákveðið að taka upp grímuskyldu á Landspítalanum. Þá var því einnig beint til fólks að taka ekki aðstandendur heim yfir hátíðarnar ef veikindi væru á heimilinu. Aðspurð segir Hildur fólk hafa tekið vel í þessi tilmæli. Aðgerðirnar verða endurmetnar 6. janúar, en Hildi þykir líklegt að þeim verði ekki alveg aflétt í janúar. Hún býst við að staðan á Landspítalanum eigi eftir að þyngjast.
Þung staða
„Þessi árlega inflúensa er alltaf þung á spítalanum. Það eru margir sem koma og eru veikir og þurfa einangrun. Húsnæðið okkar er ekki vel í stakk búið, við erum ekki með mörg einangrunarrými. Það er það sem er snúið, en þá reynum við að einangra fólk saman sem er með sömu veirusýkinguna,“ útskýrir Hildur.
Greint var frá því á Þorláksmessu að samhliða infúensutilfellum hefði RS-veirutilfellum fjölgað verulega á landinu og tíðnin mun hærri en var síðasta vetur. Ung börn og eldra fólk eru í mestri hættu á að veikjast alvarlega. Lágu 20 á spítalanum vegna RS-veiru, þar af 11 ung börn.