[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir og hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon eru handknattleiksfólk ársins 2024 að mati stjórnar Handknattleikssambands Íslands, HSÍ

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir og hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon eru handknattleiksfólk ársins 2024 að mati stjórnar Handknattleikssambands Íslands, HSÍ. Elín Jóna leikur með Aarhus í Danmörku og Ómar Ingi með Magdeburg í Þýskalandi, þar sem hann varð Þýskalands- og bikarmeistari á síðasta tímabili.

Barcelona fær ekki að skrá miðjumanninn Dani Olmo, einn af Evrópumeisturum Spánar í knattspyrnu, í leikmannahóp sinn í spænsku 1. deildinni frá áramótum. Spænska deildin hafnaði beiðni Barcelona þar að lútandi í gær, vegna fjárhagsvandræða félagsins. Barcelona keypti Olmo af RB Leipzig í sumar fyrir 55 milljónir evra og fékk undanþágu fyrir hann til 31. desember en nú getur hann farið frá félaginu án greiðslu í janúar.

Handknattleikskonan Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum er íþróttakona Hafnarfjarðar og frjálsíþróttamaðurinn Daníel Ingi Egilsson úr FH er íþróttakarl Hafnarfjarðar árið 2024. Meistaraflokkur FH karla í handknattleik er afrekslið Hafnarfjarðar 2024 eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í vor. Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee var við sama tilefni heiðraður fyrir árangur sinn á ferlinum. Verðlaunaafhendingin fór fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði í gær.

Sara Ósk Stefánsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson hafa verið valin blakfólk ársins 2024 af Blaksambandi Íslands. Sara leikur með Holte frá Kaupmannahöfn og varð danskur meistari með liðinu í ár og var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Ævarr leikur með OB í Danmörku og varð bæði bikar- og deildarmeistari með liðinu annað árið í röð.

Manchester United setti í fyrradag met í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sem félagið hefði án efa viljað sleppa við. United tapaði þá fyrir Wolves, 2:0, og beið með því sinn fimmta ósigur í öllum keppnum í desember 2024. Á síðasta ári gerðist það sama, United tapaði fimm leikjum í desember, og þetta hefur aldrei áður gerst hjá félaginu tvö ár í röð frá stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1992.

Aleix Gómez, hægri hornamaður og leikmaður Barcelona, verður ekki með Spánverjum í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik í janúar. Spænska handknattleikssambandið tilkynnti í gær að Gómez hefði ekki jafnað sig af meiðslum á öxl og að þjálfarinn Jordi Riberia hefði valið Ferran Solé, leikmann París SG í Frakklandi, í hans stað.

Cole Palmer skoraði mark Chelsea þegar liðið tapaði óvænt í grannaslagnum gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrradag, 2:1. Þar með setti Palmer félagsmet í mörkum fyrir Chelsea í úrvalsdeildinni (frá 1992) á einu almanaksári, eða frá 1. janúar til 31. desember. Þetta var 26. mark Palmers fyrir Chelsea í deildinni á árinu en fyrra metið átti Jimmy Floyd Hasselbaink sem skoraði 25 mörk fyrir Lundúnaliðið árið 2001.