Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir og hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon eru handknattleiksfólk ársins 2024 að mati stjórnar Handknattleikssambands Íslands, HSÍ. Elín Jóna leikur með Aarhus í Danmörku og Ómar Ingi með Magdeburg í Þýskalandi, þar sem hann varð Þýskalands- og bikarmeistari á síðasta tímabili.
Barcelona fær ekki að skrá miðjumanninn Dani Olmo, einn af Evrópumeisturum Spánar í knattspyrnu, í leikmannahóp sinn í spænsku 1. deildinni frá áramótum. Spænska deildin hafnaði beiðni Barcelona þar að lútandi í gær, vegna fjárhagsvandræða félagsins. Barcelona keypti Olmo af RB Leipzig í sumar fyrir 55 milljónir evra og fékk undanþágu fyrir hann til 31. desember en nú getur hann farið frá félaginu án greiðslu í janúar.
Handknattleikskonan Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum er íþróttakona Hafnarfjarðar og frjálsíþróttamaðurinn Daníel Ingi Egilsson úr FH er íþróttakarl Hafnarfjarðar árið 2024. Meistaraflokkur FH karla í handknattleik er afrekslið Hafnarfjarðar 2024 eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í vor. Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee var við sama tilefni heiðraður fyrir árangur sinn á ferlinum. Verðlaunaafhendingin fór fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði í gær.
Sara Ósk Stefánsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson hafa verið valin blakfólk ársins 2024 af Blaksambandi Íslands. Sara leikur með Holte frá Kaupmannahöfn og varð danskur meistari með liðinu í ár og var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Ævarr leikur með OB í Danmörku og varð bæði bikar- og deildarmeistari með liðinu annað árið í röð.
Manchester United setti í fyrradag met í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sem félagið hefði án efa viljað sleppa við. United tapaði þá fyrir Wolves, 2:0, og beið með því sinn fimmta ósigur í öllum keppnum í desember 2024. Á síðasta ári gerðist það sama, United tapaði fimm leikjum í desember, og þetta hefur aldrei áður gerst hjá félaginu tvö ár í röð frá stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1992.
Aleix Gómez, hægri hornamaður og leikmaður Barcelona, verður ekki með Spánverjum í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik í janúar. Spænska handknattleikssambandið tilkynnti í gær að Gómez hefði ekki jafnað sig af meiðslum á öxl og að þjálfarinn Jordi Riberia hefði valið Ferran Solé, leikmann París SG í Frakklandi, í hans stað.
Cole Palmer skoraði mark Chelsea þegar liðið tapaði óvænt í grannaslagnum gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrradag, 2:1. Þar með setti Palmer félagsmet í mörkum fyrir Chelsea í úrvalsdeildinni (frá 1992) á einu almanaksári, eða frá 1. janúar til 31. desember. Þetta var 26. mark Palmers fyrir Chelsea í deildinni á árinu en fyrra metið átti Jimmy Floyd Hasselbaink sem skoraði 25 mörk fyrir Lundúnaliðið árið 2001.