— Lex Merico
Jillian Turecki Ég ver miklum tíma í að kynna mér ástina – hvað fær hana til að ganga upp, hvað fær hana til að endast og hvernig hjálpa eigi fólki að finna hana. Þetta er bæði starf mitt og ástríða

Jillian Turecki

Ég ver miklum tíma í að kynna mér ástina – hvað fær hana til að ganga upp, hvað fær hana til að endast og hvernig hjálpa eigi fólki að finna hana. Þetta er bæði starf mitt og ástríða. Það veitir mér ríkulegan tilgang að reyna að skilja þetta djúpstæða fyrirbæri í manninum, löngunina til að stofna til sambands og deila lífinu með einhverjum. Á ferli mínum sem sambandsráðgjafi hef ég komist að því að við gleymum iðulega hinni mjög svo vanmetnu og nokkuð róttæku hugmynd að þótt samband kosti vinnu eigi manni einnig að líða vel í því.

Ég hef lært margt á þessu ferðalagi og séð hvað mörg okkar eru óundirbúin fyrir ástina. Kynfræðsla kennir okkur sjaldnast þá samskiptahæfni sem þarf til að láta sambönd endast. Án rækilegrar menntunar falla of mörg okkar fyrir innantómum frösum um ástina eða sögum sem læsa okkur inni í samböndum sem virka ekki.

Tökum viðkvæðið að sambönd séu vinna. Nema hvað. Auðvitað kostar varanlegt samband vinnu. Við þurfum að leggja vinnu í að lækna þau sár sem við komum með inn í sambandið. Við þurfum að tileinka okkur hæfni til að koma á sátt eftir rifrildi og koma þörfum okkar á framfæri. Það kostar vinnu að styrkja sambandið gagnvart umheiminum – þeim ytri öflum sem geta lagt byrðar á sambönd. Vissulega er allt þetta vinna. En samband ætti ekki að vera eins og þrotlaus vinna. Sambönd eiga að fara mjúkum höndum um taugakerfi okkar frekar en að keyra upp hormónastarfsemina og soga úr okkur orku. Í sambandi á manni að líða vel.

Það er jafn auðvelt að horfa fram hjá nauðsyn þess að líða vel þegar við hugsum um önnur samtöl, sem tengjast samböndum. Sambönd eiga að vera ástríðufull, ekki satt? Já. En ég hef séð hversu auðvelt getur verið að spyrða ástríðu við glundroða og eltast við hæðir og lægðir taugakerfisins. Staðreyndin er sú að manni á einnig að líða vel með ástríðuna. Manni á að líða vel með hana í líkamanum og hún á ekki að setja allt á annan endann. Markmið sambands er að manni líði vel og finni til öryggis gagnvart makanum þannig að tilfinning öryggis verði stökkpallur fyrir tilhlökkun, ástríðu og vöxt.

Eftir því sem ég læri meira um ástina eykst vissa mín: Líkamar okkar vita hvað er rétt og við ættum að hlusta á það sem þeir segja okkur.

Jillian Turecki er sambandsráðgjafi, stjórnar hlaðvarpinu „Jillian on Love og er höfundur bókarinnar It Begins With You: The 9 Hard Truths About Love That Will Change Your Life.

© 2024 The New York Times Company og Jillian Turecki