Sjálfboðaliðar taka á móti vopnum í Fastív í Úkraínu skömmu eftir að Rússar réðust inn í landið fyrir tæpum þremur árum. Sérfræðingar segja að herir Úkraínu myndu komast í hann krappann á ný í átökunum við Rússa án hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjamönnum.
Sjálfboðaliðar taka á móti vopnum í Fastív í Úkraínu skömmu eftir að Rússar réðust inn í landið fyrir tæpum þremur árum. Sérfræðingar segja að herir Úkraínu myndu komast í hann krappann á ný í átökunum við Rússa án hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjamönnum. — The New York Times/Brendan Hoffman
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samstarf þýðir einungis að þrátt fyrir ágreining okkar vinnum við að samkomulagi á ákveðnum sviðum sem eru of mikilvæg til að eftirláta þau stjórnmálum.

Charles Oppenheimer

er stofnandi og annar framkvæmdastjóra Oppenheimer-verkefnisins. Hann er barnabarn J. Roberts Oppenheimers, forstöðumanns Þjóðarrannsóknarstofunnar í Los Alamos meðan á Manhattan-verkefninu stóð.

Það er engin tilviljun að goðsagnir og trúarbrögð sem þekkjast í ólíkum menningarheimum deila þeirri trú að mannfólkið tengist allt nánum böndum. Þessi trú hefur lifað í þúsundir ára af góðri ástæðu; hún hefur gildi. Hvort sem beitt er vísindalegri nálgun, heimspekilegum rökum eða kennisetningum trúarbragða hefur spádómur mannkyns verið ritaður: Samkennd er leið okkar til að lifa af.

En nú virðist sem heimurinn stefni í átt að auknum átökum og stríði – sem er óbærileg staða þegar kjarnorkuríki eiga í hlut. Ógnin um beitingu kjarnorkuvopna í Úkraínu og vaxandi átök í Mið-Austurlöndum eru stór skref til hins verra, svo og þriggja turna valdabarátta Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.

Þrátt fyrir þetta spái ég því að síðar meir munum við ekki líta til baka á þetta tímabil í mannkynssögunni sem upptakt að heimsstyrjöld, heldur sem tíma þróunar í átt að alþjóðlegri samvinnu. Ég spái því að ekki verði allsherjarstríð – átök þar sem öll möguleg tækni er notuð til að vinna fullnaðarsigur á óvininum – vegna þess að það myndi binda enda á alheimssamfélagið. Allsherjarstríð hefur verið ómögulegt síðan 1945, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki, en heimsbyggðin finnur enn fyrir afleiðingum þeirra atburða.

Ég lít aftur til orða afa míns J. Robert Oppenheimer, eðlisfræðingsins sem margir þekkja sem „föður kjarnorkusprengjunnar“, þegar hann sagði af sér sem forstjóri Þjóðarrannsóknarstofunnar í Los Alamos tveimur mánuðum eftir sprengjuárásirnar á Japan: „ Þjóðir heimsins verða að sameinast, annars munu þær farast. Þetta stríð, sem hefur skaðað jörðina svo mikið, hefur skrifað þessi orð. Kjarnorkusprengjan hefur ritað þau þannig að allir menn geti skilið.“

J. Robert Oppenheimer sá svo greinilega mannkynið fara yfir strikið sem gaf heiminum einungis einn valkost í framtíðinni: Kjósum við að vinna saman og lifa sem tegund, eða berjast og deyja?

Sem yfirmaður Oppenheimer-verkefnisins tekst ég á við þá vísindaþekkingu sem er arfleifð afa míns. Sú þekking er í sjálfu sér hvorki slæm né góð; við veljum sem manneskjur hvernig við nýtum hana. Kjarnaklofnun, sem er undirstaða kjarnorkusprengjunnar, verður með okkur að eilífu. Við getum notað hana til að búa til ótakmarkaða orku án kolefnislosunar eða notað hana til að búa til sprengjur. Við getum unnið saman og notað kjarnaklofnun til að bjarga heiminum – eða til að eyða honum.

Ákall eftir ítarlegri samræðum milli hugsanlegra óvina þýðir ekki að við þurfum að ná fullkomnum friði eða útópískum draumi. Átök munu alltaf eiga sér stað, því þau eru mjög mannlegt athæfi sem er sprottið af ótta. Við óttumst annað fólk, aðra ættbálka, því það borgar sig að gera það. Varkárni er eiginleiki sem mannkynið hefur þróað með sér um árþúsundir. Allir núlifandi menn eru komnir af fólki sem lifði stríð af. Slíku fylgir ótti og tortryggni gagnvart öðrum hópum mannfólks.

En samvinna er einnig einkennandi fyrir stefnu þróunar í mannlegu samfélagi. Vísindin eru eitt fullkomnasta dæmið um það – þau hafa gert okkur kleift að skapa tækni sem er svo öflug að hún getur tortímt öllu samfélagi manna. En við sjáum nú að enginn hópur getur einokað nýja tækni og tryggt öryggi sitt með því að vera fyrstur til að skapa þá tækni. Kjarnorkusprengjan hefur ritað þessi orð.

Með undraverðum hætti höfum við lifað kjarnorkuvopnakapphlaupið af hingað til, en kjarnorkuvopnabúr heimsins, sem náði hámarki með 70.000 kjarnorkuvopnum á tímum kalda stríðsins, er komið niður í um 12.000 kjarnaodda í dag. Samvinna manna í öllum birtingarmyndum sínum, jafnvel í miðjum stríðsátökum, er meiri en nokkru sinni fyrr, þar sem fjarskipti, vörur, þjónusta – og jafnvel úraníum – flæða á milli meintra óvina.

Heimurinn í dag er minni og fólk háðara hvað öðru en áður var. Matarkistur okkar, flutningaleiðir og hagkerfi eru samtvinnuð. Raunin er sú að við erum tengd og háð öðrum, jafnvel óvinum okkar, sem hluti af alþjóðlegu kerfi. Við erum „dæmd til að vinna saman“, eins og dr. Siegfried Hecker, fyrrverandi forstöðumaður Þjóðarrannsóknarstofunnar í Los Alamos og ráðgjafi Oppenheimer-verkefnisins, nefndi bók sína 2016 um kjarnorkuógnina eftir kalda stríðið.

Samstarf krefst þess ekki að árekstrar og ágreiningur heyri sögunni til. Það þarf heldur ekki að samþykkja viðhorf eða efnahagskerfi annarra ríkja. Samstarf þýðir einungis að þrátt fyrir ágreining okkar vinnum við að samkomulagi á ákveðnum sviðum sem eru of mikilvæg til að eftirláta þau stjórnmálum.

Ef til kjarnorkustyrjaldar kemur verður enginn sigurvegari. Gagnkvæm eyðingarstefna felur það í sér að heimurinn eins og við þekkjum hann myndi líða undir lok. En ógnin um stigmögnun átaka er alltaf til staðar á meðan við beinum kjarnorkuvopnum beint hvert að öðru, sem og hættan á því að einn rökfirrtur leiðtogi hefji slík heimsendaátök. Mun betri leið er milliríkjasamskipti og nýting fjármagns okkar í baráttu við raunverulegar ógnir sem við eigum sameiginlegar, eins og fátækt, loftslagsbreytingar og veldisvöxt tækniþróunar.

Hvert okkar hefur einhver áhrif til að móta framtíðina og stefna í átt að öruggari heimi. Fyrir mig þýðir þetta að líta til fortíðar og til ættarnafns míns. Ég er óhræddur við að vera röddin sem mælir fyrir aukinni samkennd í heiminum, jafnvel þó að afi minn hafi á endanum hlotið ámæli fyrir þetta. Hann var kallaður barnalegur og fundinn sekur um ónógan eldmóð fyrir vetnissprengjum, en hann lifði af.

Öryggisyfirheyrslan árið 1954, sem dró þjóðhollustu afa míns í efa og leiddi til þess að kjarnorkumálanefndin afturkallaði öryggisheimild hans, sendi vísindamönnum þau skilaboð að þeir ættu ekkert erindi í stefnumörkun. Í því skyni var beitt samsæri til að fella stríðshetju, sem talaði fyrir friði og samkennd, af stalli.

Í desember 2022 sneri orkumálaráðuneytið þessari afturköllun við og baðst afsökunar – sem er vonandi merki um að heimurinn sé tilbúinn fyrir aðra leið.

Stríð virkar ekki lengur og það mun ekki leysa hnattrænar ógnir sem stafa af áframhaldandi samvinnu okkar, vísindum og tækni. Oppenheimer-verkefnið hefur það að markmiði að leiða vísindaleiðtoga heimsins saman til að ræða stefnu sem byggist á þessu viðhorfi.

Afi minn deildi þessu viðhorfi í ráðum sínum og stefnumótunarvinnu, en hann gat ekki breytt stefnu okkar og afstýrt vígbúnaðarkapphlaupinu sem hann varaði við. Samt eru meginreglurnar sem hann lýsti enn í gildi. Við getum kannski ekki sigrast á þróunarlegri tilhneigingu okkar til ótta og átaka, en við getum beint henni yfir í íþróttalið, hagfræði og heilbrigða samkeppni. Við getum barist saman við tilvistaráhættuna með því að mæla fyrir meiri samræðum með skynsamlegum rökum og hliðsjón af sögulegum lærdómi.

Tilvist okkar sem tegundar er háð getu okkar til samvinnu við þá sem tilheyra öðrum ættbálkum, þá sem við teljum til óvina okkar. Við munum finna leið til að vinna saman, ekki vegna þess að það er pólitískt þægilegt að gera það, heldur vegna þess að við höfum ekkert val. Við erum dæmd til samvinnu.

© 2024 The New York Times Company og Charles Oppenheimer.