Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
Veðurstofan gerir ráð fyrir því að veður á gamlársdag verði með ágætasta móti á landinu öllu, en útlit er fyrir talsvert frost og líkur á tveggja stafa kuldatölum í flestum landshlutum.
Stillt og úrkomulítið verður einnig víðast hvar á landinu, en hugsanlega gæti snjóað lítillega á Norður- og Norðausturlandi. Að sögn Birgis Arnar Höskuldssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofunni, eru því töluverðar líkur á að aðstæður til flugeldaskota verði með besta móti, en sömuleiðis er útlit fyrir að mengun geti safnast fyrir, þar sem hæglætisveður á að ríkja inn í nýja árið.
„Þetta er fínasta veður til að skjóta upp flugeldum, en það er líka alltaf einhver mengun sem fylgir flugeldaskotunum, og ef vindur er lítill er hætta á að mengun fari yfir heilsuverndarmörk og skyggni niður í ekki neitt. Það þarf þó að vera eitthvað óvenjulegt ef mengunin varir mikið lengur en einn dag, en um leið og það er smágola er þetta fljótt að fara,“ segir Birgir.
Prýðisveður á nýju ári
Á nýársdag er svo útlit fyrir bæði bjart og hæglátt veður víðast hvar, en áfram verður kalt í veðri og líkur á allt að 20 stiga frosti í innsveitum, en þó ögn hlýrra við strendur landsins.