Eldur Kvika hefur brotið sér leið upp á yfirborðið sjö sinnum frá því hamfarirnar gengu yfir Grindavík 10. nóvember í fyrra, þar af sex sinnum á þessu ári, nú síðast í lok nóvember sl. Lengsta gosið á Sundhnúkagígaröðinni stóð yfir í 53 daga. Það gos hófst 16. mars og stóð til 8. maí. Í janúar urðu nokkur hús í Grindavík hrauni að bráð og í nóvember lagði það undir sig bílastæðið við Bláa lónið. Reynt var að kæla hraunið með vatni.
Móðgun Einar Þorsteinsson, borgarstjóri í Reykjavík, móðgaði kennara með ummælum sínum á opnum fundi í október. Það varð til þess að fjöldi kennara lagði leið sína í Ráðhúsið til að mótmæla. Einar baðst afsökunar á ummælunum.
Forseti Halla Tómasdóttir var kjörin sjöundi forseti lýðveldisins með nokkrum yfirburðum í júní og var sett í embætti 1. ágúst. Hér fagnar hún með almenningi að lokinni innsetningarathöfninni í Alþingishúsinu. Eiginmaður hennar, Björn Skúlason, er fyrsti karlskyns maki forseta Íslands í áttatíu ára sögu embættisins.
Andlit Gígarnir í Sundhnúkagígaröðinni eru orðnir allnokkrir. Þessir hvíla hér lúin bein í september eftir átök daganna á undan. Þegar vel er að gáð má jafnvel sjá andlit þarna, kannski má með góðum vilja segja að hér sé á ferðinni tilbrigði við eitt frægasta málverk mannkynssögunnar, Ópið eftir Edvard Munch. Eða hvað finnst ykkur?
Flutningur Stórt mósaíkverk eftir listakonuna Nínu Tryggvadóttur var í október flutt í nýjar höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði. Það prýddi áður skrifstofur flugfélagsins við Reykjavíkurflugvöll en fékk nú nýjan stað líkt og annað í starfsemi þess
Gallar Brákarborg, nýr leikskóli við Kleppsveg, komst í fréttirnar þegar galli kom fram í þakplötum. Í skýrslu um málið kom fram að ekki voru settar stoðir undir þakplöturnar þegar steypt var og ekki sett steypustyrktarjárn í tengingar milli plötu og steypulags. Þunginn virkaði því einungis sem álag á plötuna. Því til viðbótar var sett torf á þakið.
Lagfæring Skemmdarverk voru unnin á styttunni Útlögunum eftir Einar Jónsson við Hólavallakirkjugarð í vor þegar hún var spreyjuð með gylltu akrýlspreyi. Þegar búið var að þrífa gyllta spreyið af þurfti að vinna aftur upp húð á platínuna á verkinu og sett var lag af vaxi sem ver hana. Þessi vaxhúð fór náttúrlega af þegar gyllingin var tekin af.
Gestur Volodomír Selenski forseti Úkraínu stakk við stafni hér í fásinninu í tilefni af þingi Norðurlandaráðs í október og svipaðist meðal annars um á Þingvöllum, þar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór með honum yfir það sem fyrir augu bar. Forsætisráðherrar Norðurlandanna ítrekuðu af þessu tilefni stuðning sinn við Úkraínu.
Mótmæli Strandveiðifélag Íslands efndi til kröfufundar í júlí í þeim tilgangi að krefjast þess að strandveiðibátarnir fengju að stunda veiðar allt strandveiðitímabilið. Liði var safnað við Hörpu í Reykjavík og gengið að Austurvelli.
Bless Guðni Th. Jóhannesson lét af embætti eftir átta ár sem forseti Íslands. Ákvörðun hans um að gefa ekki kost á sér til endurkjörs á þessu ári kom mörgum í opna skjöldu enda hafði Guðni verið farsæll á Bessastöðum og notið almennra vinsælda. Hann sneri sér í haust aftur að fræðistörfum.
Eldur „Þetta hefði getað farið verr og við erum mjög þakklát fyrir að það hafi ekki orðið nein slys á fólki og ég vil koma á framfæri þökkum til þeirra sem komu að þessu máli,“ sagði Guðni Aðalsteinsson stjórnarformaður Kringlunnar eftir að eldur kom upp í þaki hússins í júní. Miðstöðin var lokuð í nokkra daga og sumar verslanir lengur.